17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Sumu af því, sem beint hefir verið til nefndarinnar, ætla jeg ekki að svara að svo stöddu, heldur mun nefndin taka það til yfirvegunar og gefa síðan ákveðin svör, þegar umræðunni verður haldið áfram.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) efaðist um, að hjer væri farin rjett leið. Að því er það snertir vildi jeg vísa honum til hæstv. atvrh. Jeg óska sömuleiðis, að hæstv. atvrh. láti í ljós skoðun sína um þetta efni. Hans skoðun verður að meta mikils í þessu máli, af því það heyrir undir hann.

Þeir hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Str. báru fram fyrirspurn um, hvað merkja ættu í 5. gr. ákvæðin um, að fjelagið skyldi undanþegið hærra útflutningsgjaldi en nú er.

Þetta merkir það, að fjelagið þurfi ekki að greiða hærra útflutningsgjald en nú er ákveðið í lögum, en það er 1% samkvæmt lögum frá 1921, og auk þess ½% samkvæmt lögum frá síðasta þingi. Þetta nær að sjálfsögðu til þeirrar framleiðslu, sem fjelagið flytur út. Í l. gr. laganna frá 1921 stendur: „Af öllum íslenskum afurðum, sem fluttar eru til útlanda, nema síld, fóðurmjöli, fóðurkökum og áburðarefnum, skal greiða í ríkissjóð 1% gjald af verði afurðanna.“ Við þetta er átt. Hámark útflutningsgjaldsins verður því 1½%. Jeg hygg, að þetta sje fullskýrt og þurfi ekki um það að bæta í frv.

Háttv. þingmenn (SvÓ og TrÞ) lögðu áherslu á, að hjer væri mikið í húfi. Jeg skal fúslega játa, að svo er. En hjer er ekki um það eitt að ræða að varast ginningar óhlutvandra manna, sem kynnu að vilja ginna þingið út í einhverjar torfærur. Líka verður að varast að vera svo hræddur á þessu sviði, að árnar fái þess vegna að renna ótruflaðar um aldur og æfi. Það verður að varast, að Alþingi girði fyrir það, að þjóðin geti notið gæða þessa lands. Um hitt, að mál þetta sje svo flókið, að þm. geti ekki áttað sig á því og þurfi langan umhugsunartíma, verð jeg að segja það, að þetta mál er ekki flóknara en vatnalögin, sem voru afgreidd á síðasta þingi, og þeir þm., sem þau lög hafa afgreitt, ættu því ekki síður að vera færir um að átta sig á þessu máli. Það er að vísu satt, sem háttv. 1. þm. S.-M. ( SvÓ) sagði, að það er ekki hægt að sjá nú fyrirfram, hvernig sjerleyfið verður, en þó má komast þar allnærri með því að bera frv. saman við hin almennu vatnalög, sem það er bygt á. Ef einhver háttv. þm. óttast, að stjórnin gæti ekki nægilega vel hagsmuna landsmanna eða hjeraðsbúa við útgáfu sjerleyfisins, er öllum innan handar að bera fram brtt. um að setja einhver skilyrði til að forðast það, sem þeir telja vera í húfi.

Það hljóta allir að viðurkenna, að fyrsta virkjunarfyrirtækið hlýtur að eiga við mikla örðugleika að etja, sem dvína þegar reynslan er fengin. Þess vegna er ekki rjett sú fullyrðing, að fyrsta sjerleyfið verði í öllum efnum talið fordæmi fyrir síðari sjerleyfum, sem veitt verða. Þær undanþágur frá sjerleyfislögunum, sem veittar verða ef til vill, eru gerðar vegna þess, að hjer er um að ræða fyrsta fyrirtækið, sem brýtur ísinn fyrir þau, sem síðar kunna að koma, og sýnir möguleikana til virkjunar hjer á landi.

Viðvíkjandi spurningunni um mannafla þann, sem þyrfti til að koma upp þessum mannvirkjum og svo síðar til starfrækslu þeirra, get jeg að svo stöddu ekki gefið ábyggilegar upplýsingar; jeg hefi aðeins heyrt lauslegar ágiskanir um þetta, sem jeg þori ekki að fara með. Nefndin mun taka þetta atriði til nánari athugunar og gefa upplýsingar þær, sem hún getur aflað sjer um það, við framhald þessarar umræðu. Jeg skal aðeins geta þess, að innflutning á erlendum verkamönnum eða öðrum ætti ekki að leyfa, að mínu áliti, nema þar sem það er óhjákvæmilegt og nauðsynlegt vegna sjerþekkingar, eða ef alls ekki er hægt að fá nóg af innlendu verkafólki. Jeg hygg, að engir óski eftir innflutningi erlends verkalýðs til þess að taka vinnuna frá innlendum verkamönnum. Það er ætlast til, að um leið og stjórnin gefur út sjerleyfisbrjefið setji hún reglur um innflutning á erlendum verkamönnum, og nefndin hefir talið rjettast að láta ríkisstjórnina ráða þessu. En ef háttv. þm. álíta, að það sje ekki óhætt, geta þeir komið fram með brtt. við frv. um þessi atriði.

Það er alveg rjett, sem háttv. 1. þm. S-M. sagði, að það verður að leita álits og umsagnar íbúa þeirra hjeraða, þar sem virkjun á að framkvæma, og í þessu frv. eru heldur engin ákvæði um undanþágur frá þessari skyldu, sem sjerleyfislöggjöfin leggur á umsækjendur um sjerleyfi til virkjunar fallvatna. Ríkisstjórnin verður að leita sjer upplýsinga um óskir og þarfir hjeraðsbúa áður en sjerleyfið er gefið, en jeg tel ekki nauðsynlegt, að þær upplýsingar verði lagðar fyrir Alþingi. Jeg álít alveg nóg, að skilríki um þetta komist í hendur ríkisstjórnarinnar áður en hún afgreiðir málið. En hjeraðsbúar eru annar aðili þessa máls, og það má alls ekki undir höfuð leggjast að kynna sjer vilja þeirra og tillögur og taka alt sanngjarnt tillit til óska þeirra og þarfa á raforku til heimilisnotkunar eða jafnvel til iðnaðar.

Háttv. þm. Str. spurði um útflutningsgjald af afurðum þessa iðnaðar og bað jafnframt um svör við ýmsum öðrum spurningum viðvíkjandi ákvæðum 5. gr. frv., t. d. hvort það sje rjett, að til sje ætlast, að ekkert árgjald skuli greitt fyr en öllum mannvirkjum sje lokið. Jeg skildi háttv. þm. svo, að hann áliti, að ekkert árgjald yrði greitt fyr en lokið væri við öll mannvirkin. Í 5. gr. er svo um mælt, að greiða skuli 3–5 kr. af hverju nýttu hestafli. Auðvitað á að greiða það strax frá því nýtingin er komin í framkvæmd. Jeg efast ekki um, að svo yrði dæmt, að gjald skuli greiða af þeirri orku, sem þegar er farið að nota, en ef lögfræðingar þessarar háttv. deildar eru á öðru máli um þetta og ef þeir telja betra að laga þessi ákvæði, hefir nefndin ekkert á móti því að það verði gert.

Háttv. þm. Str. spurði einnig, hvort nefndin hefði haft nægan tíma til að afgreiða þetta mál. Jeg hefi ekki haldið því fram, að nefndin hafi lokið afgreiðslu málsins, en jeg efast ekkert um, að nefndin muni fá nægan tíma til þess. Háttv. þm. gera alt of mikið úr því, hve langan tíma þurfi til að átta sig á þessu máli. Við höfum öll þau gögn í málinu, sem þörf er á: vatnalöggjöfina, álit fossanefndarinnar o. fl. Þá eiga enn sæti hjer á þingi menn, sem sátu í fossanefndinni, og þeir munu geta gefið allar þær upplýsingar, sem þörf er að óska eftir. Jeg álít, að afgreiðsla málsins geti nú þegar orðið sæmileg og þurfi ekki að kvíða því, að hún verði kák. Við höfum nú alla þá sjerþekkingu, sem hægt verður að afla sjer, þó að málinu yrði frestað til næsta árs; t. d. er háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), þótt hann hafi mælt á móti frv., einn af þeim mönnum, sem hafa til að bera alla þá þekkingu, sem til þarf til að geta dæmt um þetta mál og taka fullnaðarákvörðun um það. (SvÓ: Nei, alls ekki!). Jæja, ef svo er, þá verður háttv. þm. seint dómbær um þessa hluti. Sumir háttv. þm., sem talað hafa gegn frv., hafa lagt mikla áherslu á að vara menn við að veita þetta sjerleyfi og hafa haldið því fram, að hjer væri einhver stórhætta á ferðum. Jeg legg áherslu á tvent, sem jeg tel, að þurfi að vara menn við: Að vera ekki svo varkárir, að aldrei geti orðið úr neinu, og svo hitt, að vera ekki alt of tortryggnir. Það er ekki sú eina hætta hjer á ferðum, að vatnsvirkjunin verði framkvæmd á þann hátt, sem sje landsmönnum til ófarnaðar, heldur líka sú, að alls ekkert verði virkjað af fallvötnum landsins.

Jeg óska eftir, að málið verði afgreitt á þann veg, að sjeð verði fyrir bæði þörfum hjeraðsbúa og landsmanna í heild, en um leið verði heldur ekki lagður steinn í götu þess, að hjeruð landsins geti notið þeirrar orku, sem fallvötnin hafa að geyma, til þess að vistlegra verði hjer á landi eftir en áður. Jeg tel mjer skylt sem fulltrúa þessara hjeraða að gæta hagsmuna þeirra ásamt hagsmunum allra landsmanna, og þar með að gæta þess, að ekki verði girt fyrir, að nokkuð geti af virkjun orðið í framtíðinni, vegna skammsýni og tortryggni.