24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Sveinn Ólafsson:

Háttv. frsm. fjhn. (ÁÁ) skoraði á mig að taka aftur til 3. umr. brtt. mína I,3, við 5. gr., vegna þess, að ella myndi atkvgr. óljósari, er báðar brtt., mín og fjhn., yrðu bornar upp samtímis. Mjer finst ekki ástæða vera til að óttast slík misgrip, því jeg hygg, að það sje hverjum manni augsýnilegt, hvað á milli ber. Háttv. nefnd vill engu breyta í greininni, aðeins bæta inn í hana „samskonar“ milli orðanna „öðrum“ og „gjöldum“, og getur varla heitið, að það valdi nokkurri efnisbreytingu. Aftur gerbreytir mín till. greininni. Það, sem því verður greitt atkvæði um, er eitt af tvennu, brtt. mín eða frv.greinin nær óbreytt. Þessi brtt. nefndarinnar, með innskoti þessa eina litla orðs, skiftir reyndar engu máli. Tilgangur nefndarinnar með till. er sá, að ekki verði hækkað útflutningsgjald eða önnur þess háttar gjöld á þessu fyrirtæki, þótt þessi gjöld að öðru leyti hækki alment. Jeg get því ekki tekið brtt. mína aftur, enda get jeg ekki sjeð, að hún þurfi neitt að rugla þessa atkvæðagreiðslu.

Jeg ætlast ekki til, að veittar verði neinar undanþágur frá öðrum gjöldum en frá tekjuskatti til ríkissjóðs og útsvari til sveitar, og með tilliti til þessa taldi jeg rjett að færa árgjaldið niður, því að með þessu lenda fleiri opinber gjöld á fjelaginu en frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna eigi ósanngjarnlegt, að árgjaldið lækki eitthvað.

Um brtt. mína við 3. gr., sem háttv. frsm. líka mælti á móti, verð jeg að segja, að mjer finst sjálfsagt, að í þessu sje farið eftir sjerleyfislögunum um leyfi til að framselja sjerleyfið, sem Alþingi á að veita eftir 36. gr. sjerleyfislaganna. Jeg sje enga ástæðu til að afhenda ráðherra þetta vald, enda eru engin vandkvæði við það bundin að bera upp þál. á Alþingi þessu viðvíkjandi, ef á þarf að halda. Jeg skildi alls ekki rök háttv. frsm. fyrir því, hvers vegna ætti að fara að breyta frá sjerleyfislögunum í þessu atriði, og fanst fátt um þau.

Hv. frsm. fanst það helst mæla á móti því að færa sjerleyfistímann úr 60 niður í 50 ár, að beðið hefði upphaflega verið um 99 ára sjerleyfistíma. Jeg þykist sjá, að þetta hafi aðeins verið af „praktiskum“ ástæðum gert hjá sjerleyfisbeiðanda, sem þekti hámarkstíma sjerleyfislaganna, og fór því fram á helmingi lengri tíma en hann gerði ráð fyrir, að sjer yrði veittur. Reyndar hefði verið langeðlilegast að miða við 35–40 ára leyfistíma. Erlendis er nú víðast hvar miðað við lægri tíma en hjer er farið fram á, að verði veittur, og eru sjerleyfi þar víða miðuð við 40–50 ár. En jeg tek það fram, að tímalengdin er ekkert aðalatriði fyrir mjer, þótt miklu skifti, ef vandlega er annars um hnútana búið, en brtt. við 5. og 6. gr. eru aðalatriðin. Sú víðtæka undanþága frá opinberum gjöldum, sem 5. gr. heimilar, er óviðeigandi, og till. um nýja 7. gr., sem tryggi það, að bótalaust verði ekki allar framkvæmdir látnar niður falla. Hitt, að búið sje þegar að kosta nokkru fje til undirbúnings, get jeg ekki skoðað sem neina tryggingu fyrir því, að lagt verði út í þessar framkvæmdir. Það er alkunna, að til skamms tíma hafa menn selt til útlendinga og braskað með vatnsrjettindi, námurjettindi og aðrar ímyndaðar auðsuppsprettur íslenskar, og hafa þessi hlunnindi gengið kaupum og sölum manna á milli utanlands. Fjelög þau, sem hjer ræðir um, munu hafa keypt þessi námurjettindi smámsaman og af ýmsum, sem hafa haft þau fyrir markaðsvöru, og það er víst, að þessi rjettindi eru nú ekki á fyrstu hendi, en í kaupum þeirra og framsölum mann frá manni mun kostnaður sá vera fólginn, sem háttv. frsm. talaði um, að fjelagið þegar hefði lagt í. Jeg held, að það felist lítil trygging fyrir notkun sjerleyfisins í þessum kaupum og framsölum, en líklega eru rjettindin auðseldari með sjerleyfisstimpli en án hans.

Hv. frsm. sagði, að ekki mætti heimta tryggingu af hendi leyfisbeiðanda, vegna þess að ekki væri búið að athuga alt enn og rannsaka, sem þyrfti að athugast og það gæti vel hugsast, að niðurstaða þessara athugana og rannsókna yrði neikvæð, þ. e. að það, sem nú hefir verið talið álitleg undirstaða fyrirtækisins, gæti reynst ónýtt eða lítt gróðavænlegt. Þetta gefur grun um, að lítið kunni að verða úr framkvæmdum, og tel jeg því sjálfsagðara að fylgja þessari reglu um tryggingarfjeð. Það þarf heldur ekki að gera ráð fyrir, að rannsaka þurfi upp aftur virkjunarskilyrðin í Arnarfirði, því um þau er vitað, að þau eru til og yfirleitt góð. En þótt það kunni að koma í ljós við síðari rannsóknir, að eitthvað sje minna um málma í námulandi því í Önundarfirði, sem svo glæsilega er lýst í greinargerð frv., en upphaflega var áætlað, þá er ekki hægt að taka tillit til þess og fleygja frá sjer svona stórfeldu sjerleyfi án allra trygginga.

Jeg held mjer því við það, að fyrst og fremst eigi að undanþiggja sjerleyfisbeiðanda aðeins útsvari og tekjuskatti, en alls engum gjöldum öðrum, og í öðru lagi að láta hann setja tryggingu fyrir því, að ekki verði farið með sjerleyfi þetta eins og prangaravarning, sem boðinn er út og látinn ganga mann frá manni, gyltur skrumauglýsingum.

Jeg vil svo geta þess um síðustu brtt. á þskj. 403, að hún virðist, fljótt á litið, rekast á brtt. mína við 6. gr. um nýja 7. gr. En hjer er um 2 ólík tilfelli að ræða. Fjárhagsnefnd leggur til, að þessi heimildarlög falli niður, ef leyfi er ekki veitt í árslok 1928. Hinsvegar lýtur niðurlag 8. brtt. minnar að því, að sjerleyfið falli úr gildi, þótt veitt hafi verið, ef virkjun er ekki hafin á umsömdum tíma.