10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) talaði um, að hjer væri gefið fordæmi. Ætti að leggja það til grundvallar, yrði jafnan að meta, hve mikinn kostnað sjerleyfiseigendur væru búnir að leggja í undirbúning fyrirtækisins. Jeg fellst á að ekki sje rjett að veita sjerleyfi út í bláinn, án þess nokkuð sje trygt í aðra hönd, ef sjeð verður, að ekki sje um annað að ræða en það, sem einhverjum hefir dottið í hug án þess nokkuð hafi verið lagt til rannsókna eða sýnt, að hlutaðeigandi vildi nokkru offra fyrir málið; undir þeim kringumstæðum gæti tryggingargjald vel komið til greina. En þegar svo stendur á að málið hefir verið rannsakað í mörg ár og kostað til þess miklu fje, þá er slík krafa ekki sanngjörn. Það er nú svo með virkjun fossa hjer á landi, að ekkert kapphlaup hefir verið um þá hluti. Okkur ætti að vera áhugamál, að virkjun færi að byrja, þó ekki væri í stórum stíl, enda var hv. þm. (IP) þeirrar skoðunar, að ef úr framkvæmdum yrði, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá yrði það til mikilla hagsbóta fyrir hjeruðin, sem þess nytu. Hvort ríkið fengi 50 þús. kr. eða ekki, segir mjög lítið í samanburði við þann hagnað, sem hjeruðin mundu hafa af fyrirtækinu, ef það kæmist á laggirnar.

Jeg held, að hjer sje ekki um neitt hættulegt fordæmi að ræða, ef sá mælikvarði er tekinn að krefjast ekki tryggingar af þeim, sem vitað er um, að lagt hafa stórfje í sölurnar til undirbúnings.