10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Björn Kristjánsson:

Jeg ætla aðeins að minnast á, í hvaða tilfellum verður að telja nauðsynlegt að heimta veð. Það er aðeins þegar svo stendur á, að búast má við, að landið tapi, ef fyrirtækið kemst ekki á fót. Jeg skal taka dæmi: Jeg á námu, sem útlendingur vill taka á leigu. Jeg get ekki lofað honum að rannsaka námuna 3–4 ár, ef svo verður ekki meira úr, því á morgun getur annar maður komið til mín, sem taka vill námuna á leigu fyrir eitthvert verð. Í svona tilfelli er sjálfsagt, að sett sje trygging. En í því tilfelli, sem hjer er um að ræða, eru ekki minstu líkur til, að nokkur maður fari fram á að fá sjerrjettindi. Í fyrsta lagi af því, að fjelagið á fossana. Í öðru lagi hefir það tangarhald á þeim efnum, sem fossunum er ætlað að vinna. Enginn hefir skilyrði til að nota fossana nema þetta fjelag, og þar sem fjelagið auk þess er búið að verja miklu fje til rannsókna, sje jeg í þessu tilfelli enga ástæðu til að heimta veð, þó að í öðrum tilfellum geti verið nauðsynlegt að krefjast þess.