12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Sveinn Ólafsson:

Það eru örfá orð út af ræðu hæstv. atvrh. (MG). Hann virtist, vilja innræta deildinni trú á þetta fyrirtæki, trú á það, að fyrirtækið yrði til blessunar og þjóðþrifa. Það er ekkert á móti því að hafa trú á þeim möguleikum, sem þarna eru til framkvæmda, en sú trú þarf ekki að verða fyrir neinu áfalli, þótt þetta útlenda fjelag leggi fram tryggingu fyrir efndum samninga. Hæstv. atvrh. vildi líta svo á, sem það væri næg trygging, að fjelagið hefði kostað til rannsókna vestra hundrað þúsund krónum. Í sjálfu sjer þarf ekki að liggja nein trygging í því. Þegar fjelagið er búið að fá sjerleyfisstimpilinn, getur það sennilega selt rjettindi sín fyrir mörg hundruð þúsund krónur og fengið rannsóknirnar og tilkostnað sinn margborgaðan. Hæstv. atvrh. virtist, að hjer ætti að sýna alla linkind í skilyrðum, svo að fjelagið gæti borið eitthvað úr býtum, ef það tæki til starfa, og skín þar í efasemd hjá honum um, að nokkuð verði úr virkjun þarna. En hjer er engan veginn um neina afarkosti að ræða fyrir umsækjanda, ef alt fer með feldu.

Ef aftur á móti svik eru í tafli, sem vel getur verið, þá er rjett að fjelagið kenni á þeim og sleppi ekki að öllu bótalaust.