12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta atriði hefir áður verið hjer til umræðu, og er ekki þörf á að endurtaka það, sem þá var sagt. Nefndin lagði á móti því þá, og gerir það öllu fastara nú, þar sem hún lítur svo á, að till. geti verið hættuleg fyrir afgreiðslu málsins. Fjelagið er búið að verja miklu fje til rannsókna, og þó er sumt órannsakað enn, sem óvíst er, hvað kostar. Forgöngumennirnir segja, að þetta tryggingarákvæði muni vekja tortrygni gagnvart fjelaginu og geti spilt lánstrausti þess, enda lítur nefndin svo á, að samþykki ráðherra á framsali ætti að vera næg trygging gegn braski. Þetta ákvæði tryggir heldur ekki framkvæmdir frekar en þær 700 þús. krónur, sem búið er að leggja í fyrirtækið. Þegar fjelagið er búið að festa þannig fje, hefir það auðvitað mikla hvöt til þess að ná því upp aftur. Nefndin leggur því á móti þessari till. og óskar þess, að deildin afgreiði frv. sem lög eins og það nú liggur fyrir, í von um að úr framkvæmdum verði.