29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

„Credo ego vos judices mirari —“, sagði Cicero endur fyrir löngu, þegar hann mjög ungur byrjaði sína fyrstu ræðu fyrir rjetti í Róm. Hann bjóst við því, að dómararnir mundu undrast það, að hann jafnungur maður og óreyndur skyldi hafa tekist þann vanda á hendur að flytja slíkt stórmál. Jeg get búist við því, að sumir hv. þm. undrist það, að jeg skuli gerast flm. slíks frv., sem hjer liggur fyrir, ekki fyrir sakir æsku minnar, sem því miður er liðin, heldur vegna þess, að jeg er orðinn talsvert þektur að því að vera fylgismaður frjálsrar verslunar. Sumum kann nú að virðast svo, sem jeg hafi skift um skoðun í þessu efni, en svo er þó í raun og veru ekki. Það út af fyrir sig, að skifta um skoðun, tel jeg hinsvegar engan glæp. Þegar skoðanaskiftin byggjast á aukinni þekkingu og reynslu og samviskusamlegri yfirvegun, eru þau engum manni til vansæmdar, heldur þvert á móti. Í þessu máli verður mjer þó hvorki talið til sæmdar nje vansæmdar að hafa skift um, ef satt er sagt og rjettilega er dæmt. Jeg álít eins og áður, að frjáls verslun eigi að vera aðalregla í öllu viðskiftalífi og að ekki beri að víkja frá henni, nema alveg sjerstakar ástæður sjeu fyrir hendi. Það er svo með þetta eins og annað, að engin regla er án undantekningar. Jeg lít svo á, að rjett sje og sjálfsagt að reyna undantekningarleiðir þegar aðalvegirnir reynast ófærir. Sannur friðarvinur getur stundum ekki komist hjá ófriði, hvað feginn sem hann vill. Það væri alveg jafnfráleitt að telja það á móti lögmáli frjálsrar verslunar, þó að vikið sje frá henni þegar svo sjerstaklega stendur á, að hinir almennu kostir hennar fá ekki að njóta sín, en göllunum stendur aftur á móti byr undir báða vængi, — eins og að kalla þann mann óróasegg, illindamann og friðarspilli, sem neyðist til að verja líf sitt eða hús sitt og heimili í bardagavísu. — Sem sagt, jeg álít, að nauðsyn geti brotið lög í þessu efni eins og öðrum.

Það er líka ólíku saman að jafna, þeirri hugmynd, sem hjer liggur fyrir, og þeim einkasölum, sem við höfum átt við að búa.

Hjer er aðeins um það að ræða að mynda fjelag til þess að vinna að betri sölu á síld, en þetta fjelag er ekki hægt að mynda nema með hjálp löggjafarvaldsins. Undrunin yfir því, að jeg skyldi flytja þetta frv., hefir, að því er mjer virðist, orðið minni en jeg bjóst við, og jeg tek það sem vott þess, að hv. þm. skilji, hve mikið nauðsynjamál þetta er. — Mjer er óhætt að fullyrða, að við flm., eða að minsta kosti 3 af okkur, sem erum eindregnir fylgismenn frjálsrar verslunar, höfum mikið um málið hugsað og gert okkur það ljóst, hve mikilvægt spor við stígum, ef þetta frv. verður samþ.

Það væri gott, í sambandi við þetta, að geta gefið þó ekki væri nema stutt yfirlit yfir sögu síldveiðanna hjer við land frá byrjun, en það yrði langt mál, og jeg hefi því miður ekki nauðsynleg gögn við hendina til þess að geta sagt þá sögu til nokkurrar hlítar.

Það mun ekki hafa verið fyrri en um 1870, að farið var að veiða síld til útflutnings hjer við land. Norðmenn byrjuðu þá lítilsháttar á Austfjörðum, en veiðin var stopul og fáir sem hana stunduðu. Árið 1884 tóku fleiri Norðmenn að stunda þessa veiði, og þá var hið mesta aflaár og eins árið eftir. Mjer er ekki vel kunnugt um, hvernig veiðin gekk þar árlega fram að aldamótum, en það vill svo vel til, að einn af flm., hv. 1. þm. S.-M., er fróðari um þetta en jeg og getur gefið betri upplýsingar. Þá var einkum stunduð landnótaveiði, og hafði sú aðferð þann stóra kost, að geyma mátti síldina lifandi í nótinni þangað til úr henni var gengin öll áta. En það er einn höfuðkostur síldar, að hún sje átulaus, þegar hún er söltuð, því að þá er henni miklu síður hætt við skemdum. Hinsvegar var sá ljóður á þessu, að ekki var hægt að fiska með þessum tækjum nema uppi í landsteinum.

Þessi síld þótti góð vara og ruddi sjer til rúms á erlendum markaði, einkum sænskum, svo að segja fyrirhafnarlaust.

Jeg hygg, að það hafi ekki verið fyr en eftir 1902 eða 1903, sem farið var að nota það veiðarfæri, sem nú tíðkast mest og hlotið hefir íslenska nafnið herpinót. Voru það einnig Norðmenn, sem fyrstir reyndu þessa veiðiaðferð hjer og kendu hana. Þetta var mjög stórfeld breyting og gerði það að verkum, að nú var hægt að elta síldina út um allan sjó. En það kom brátt í ljós, að það var vandfarnara með þessa síld en gömlu nótasíldina. Þessi síld var oft full af átu, verkaðist oft illa og fjekk óorð á sig. Smám saman byrjuðu fleiri þjóðir að fást við síldveiðar hjer, auk Norðmanna, bæði Englendingar, Þjóðverjar og Svíar í stórum stíl. Auðvitað höfðu þeir aðeins rjett til þess að fiska fyrir utan landhelgina, en hvort sem þeir hafa nákvæmlega haldið þau landslög eða ekki, fluttu þeir síldina í land og söltuðu þar í eigin tunnur eins og innlendir menn, og fluttu svo út. Þessu hjelt áfram í nokkur ár. Mönnum tókst misjafnlega að vanda nógu vel verkun síldarinnar og hún kom oft skemd á markaðinn. Enda biðu sumir menn mikið tap á síldinni, þegar mikið veiddist, eins og 1907 og 1908, bæði vegna þess að hún var ekki nógu vel verkuð og vegna of mikils vaxtar í framleiðslunni. Eftir að þessi reynsla var fengin komu fram raddir um að fá mat á síldinni, og var það gert með lögum nr. 26, 11. júlí 1911. Eins og kunnugt er, komu þessi lög að góðu gagni fyrst og fram á fyrstu ófriðarárin, en úr því breyttist þetta svo, að þau hafa síðan komið að litlu gagni.

Þegar selt var til Englands á ófriðarárunum, var lítið eða ekkert spurt um gæði síldarinnar. Vöndust menn þessi árin af því að vanda þessa vöru eins og þurfti að vera. Síðustu árin hefir þetta aftur breyst í rjetta átt. En nú er þó svo komið, að ómögulegt má telja að selja síld til útlanda með íslenskum matsvottorðum sem trygging fyrir gæðunum.

Þetta liggur að mjög miklu leyti í því, að kaupendur síldarinnar gera mjög misjafnar kröfur til gæða hennar, eftir því, hvort mikið eða lítið framboð er á markaðnum. Ef síld vantar, er alt þegið og ekki eins vendilega spurt um gæðin, en ef mikið fiskast og þess vegna er úr nógu að velja, þá er ekki hægt að selja nema bestu síld, og er það þá talin annars flokks vara, sem talin mundi vera fyrsta flokks þegar eftirspurnin er meiri en framboðið.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, voru herpinótaveiðarnar aðallega í höndum útlendinga, einkum Norðmanna, en Svíar komu einnig fljótt til sögunnar. Eins og jeg gat um áðan, komu þeir með þeim fyrstu hingað og fiskuðu hjer á eigin skipum, en keyptu líka af íslenskum skipum. Þeim lærðist brátt, að þetta var tryggara, því að afli er oft stopull utan landhelginnar og meir háður veðráttufari en afli í fjörðum inni. Það er vitanlega nokkur áhætta að leggja fje í það að kaupa tunnur og salt og ráða fólk, því altaf má búast við, að afli geti brugðist, einkum utan landhelginnar.

Þetta var byrjunin til þess, sem verða vildi. Sænskir síldarkaupmenn byrjuðu snemma á því að fá sjer umboðsmenn hjer, einkum danska, og ljetu þá kaupa síldina fyrir sig nýja og salta hana fyrir sinn reikning. Á þennan hátt náðu þessir kaupmenn tökum á tiltölulega mjög mikilli síld fyrir lægsta framleiðsluverð. Það er ekki hægt að segja, að þetta sje beinlínis á móti lögum. Það er hægur vandi að gera slíka samninga þannig úr garði, að við þá sje ekkert að athuga frá laganna sjónarmiði. Íslensk löggjöf bannar auðvitað ekki að kaupa tunnur og salt með þeim skilyrðum, að þetta eigi að borga í vertíðarlok með saltaðri síld í sömu tunnum. En afleiðingin af þessu er sú, að þessi framleiðsla er nú að mestu í höndum útlendinga, jafnskjótt og búið er að salta hana í tunnurnar. Sjerstaklega hafa mikil brögð orðið að þessu eftir að okkar núgildandi fiskiveiðalöggjöf gekk í gildi. Það má vera, að önnur ástæða liggi þar að baki, og skal jeg ekki fara út í það nú. Ef tilefni gefst til, skal jeg víkja að því síðar. — Þetta fyrirkomulag á síldarversluninni, sem nú er, gerir það að verkum, að þessir útlendingar, sem kaupa síldina, eru alveg einráðir yfir síldarversluninni, að minsta kosti fram eftir sumri, og hafa dregið hana úr höndum Íslendinga. Þeir geta selt fyrstu framleiðslu með góðum hagnaði, og birgt sig upp til bráðabirgða með þessari fyrirfram keyptu síld, og jafnframt geta þeir bægt frá markaðinum þeim Íslendingum, sem reyna að salta fyrir eiginn reikning.

Á síðustu árum hefir vanalega fengist hátt verð fyrir allra fyrstu framleiðslu, og vonin um þetta góða verð hefir gert það að verkum, að allir hafa kepst við að koma síld sem fyrst á markaðinn. Hefir þá stundum borist of mikið að af síld, sem illa þolir geymslu, en það er einkum sú síld, er fyrst fiskast, og hefir hún oft stórskemst í sumarhitanum á hinum erlenda markaði og stundum orðið ónýt með öllu. Eru dæmi til þess, að söluverð hennar hefir ekki einu sinni hrokkið fyrir áföllnum kostnaði á erlendum markaði. Samkv. lögum hinnar frjálsu samkepni myndi það vera erfitt fyrir útlenda síldarkaupmenn að halda uppi verði á sinni síld, þegar nóg síld önnur er á markaðnum. Auðvitað er þetta líka nokkuð erfitt stundum, og þegar til lengdar lætur getur ekki svarað kostnaði að reyna það. En þetta er tiltölulega ljett að gera hvað snertir fyrstu síldina, því að þeir kaupmenn, sem best hafa samböndin í Svíþjóð geta venjulega selt sína síld jafnóðum og hún kemur þangað og án þess að kaupendurnir viti, að ódýrari síld standi til boða. En þeir kunna líka ýmisleg ráð til þess að komast hjá óþægilegri samkepni. Þeir eru sjálfir matsmenn og meta síldina eftir eigin geðþótta. Þeir geta ráðið, hvort varan er talin „príma“ eða „secunda“ . Ef hún fær 2. flokks stimpil, er þar með spilt fyrir sölu á henni. Það er óhætt að fullyrða það, að hagnaðurinn af síldarversluninni rennur nær eingöngu í vasa sænskra stórkaupmanna. Og það er ekkert til þessa að segja frá löglegu verslunarsjónarmiði. Þeir eru kaupmenn og hugsa eðlilega mest um það að skara eld að sinni köku eftir mætti. Þeir standa best að vígi, koma sinni síld fyrst á markaðinn og vita altaf, hvernig sakir standa þar.

Þannig gengur þetta þangað til útsjeð er um veiðina. Ef mikið veiðist, þá lækkar verðið og getur endað með því, að sumt af síldinni verði óseljanlegt. En ef lítið veiðist, þá getur verðið hækkað stórkostlega á skömmum tíma. Þá sjá sænskir stórkaupmenn sjer hag í að kaupa upp allar síldarbirgðir og setja þá verðið hátt gagnvart neytendunum. — Stórkaupmennirnir geta vitanlega ekki haldið háu verði þegar mikið fiskast, þeir græða tiltölulega mest þegar lítið fiskast. Þessir menn hugsa auðvitað mest um sjálfa sig þar næst um sína eigin þjóð og minst um okkar hag. Það er þeim í hag, að ekki sje saltað meira árlega en góðu hófi gegnir, og það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að þeir geri sitt til að draga úr því, að veiðin verði mikil. Þetta geta þeir líka með ýmsu móti, t. d. með því að láta okkur Íslendinga gefast upp á því að salta fyrir eiginn reikning. Til þess þurfa þeir ekki annað en að setja verð á söltunarsíld svo lágt, að betur borgi sig að selja síldarverksmiðjunum nýju síldina til bræðslu, og setja verð á saltaðri síld svo lágt, að það borgi sig ekki fyrir okkur Íslendinga að salta hana fyrir eiginn reikning. Verksmiðjurnar lækka þá líka verðið, og afleiðingin verður sú, að útgerðin ber sig ekki. Þessi ráð hafa þeir í hendi sjer og þeim er að takast þetta. — Það verður að segja það eins og það er, og það er ekkert launungarmál, að það hefir þótt keppikefli að vera umboðsmaður fyrir þessa menn. Það hefir verið alltryggur atvinnuvegur, og eins og annarsstaðar þar, sem einhvern feitan gölt er að flá, hafa margir viljað vera nærstaddir. — Nú er komið svo, að umboðsmennirnir undirbjóða hver annan, þangað til jafnvel þeir geta engan hagnað af þessum viðskiftum haft.

Síðustu árin hafa Danir aukið síldarútveg sinn hjer við land, en þó einkum Færeyingar að miklum mun og þeir hafa fengið mikinn áhuga á þessari veiði. Þeir fiska hjer fyrir innan landhelgislínuna í fullum lagarjetti, og kemur mjer síst í hug að amast við því. En þeim hefir tæplega skilist það enn þá eins vel og vera þyrfti, að við höfum hjer sameiginlegra hagsmuna að gæta og að það er ekki síður skylda þeirra en okkar að reyna að bæta markaðinn fyrir þessa sameiginlegu framleiðslu, og þá fyrst og fremst með því, að þeir reyni að auka hann í sínu eigin landi.

Færeyingar hafa lag á því að reka ódýra útgerð og geta því selt síldina ódýrara en Íslendingar, og kaupa því sænskir umboðsmenn fremur af þeim. Þetta er auðvitað alt löglegt, en það hjálpar til að koma þessu máli í það horf að gera Íslendinga að hásetum á útgerðum útlendinga hjer við land hvað þessa veiði snertir. Það er ilt til þess að vita, að svo slysalega fari um þessa atvinnugrein, því að það er mín sannfæring, að við Íslendingar eigum enga auðsuppsprettu meiri, að minsta kosti enga, þar sem auðurinn er jafnfljótfenginn og á síldarmiðunum fyrir Norðurlandi — ef rjettilega er á haldið.

Í sambandi við þetta mál má aldrei gleyma frændum okkar Norðmönnum. Þeir hafa kent okkur allar síldveiðar, sem nokkuð hefir kveðið að, og hafa allra manna mesta reynslu við þessa veiði. Þeir eru nægjusamari en við og sparsamari og mjög lægnir fiskimenn. Þangað til núgildandi fiskiveiðalöggjöf gekk í gildi voru þeir vanir því að fá að stunda þessa atvinnu hjer eins og innlendir menn, að öðru leyti en því, að þeir máttu ekki fiska í landhelgi. Á þessu varð mikil breyting með fiskiveiðalögunum frá 1922 og eiga Norðmenn vitanlega síðan miklu verri aðstöðu til þess að stunda þessa veiði hjer við land, þótt þessum lögum hafi aldrei verið stranglega framfylgt gagnvart þeim. En þeim hefir þó einkum verið linlega framfylgt síðan hinn svonefndi kjötollssamningur var gerður við Norðmenn. Þetta hefir ljett þeim mjög samkepnina við okkur og þeir eru enn þann dag í dag okkar langskæðustu keppinautar. Það er oft tiltölulega ljett að fara kringum lögin, og ekki síður fiskiveiðalög en önnur lög. Jeg fullyrði ekki, að Norðmenn geri þetta, því að jeg hefi engar sannanir í höndunum fyrir því. En jeg vil leyfa mjer að benda á eina aðferð til þessa, sem tiltölulega er ljett að nota. Þegar Norðmenn koma hingað til þess að fiska utan landhelgi, geta þeir flutt með sjer meira að tunnum og salti en þeir geta haft í skipunum meðan þeir eru að fiska, því að rúm þarf að vera á þilfari til þess að unt sje að verka síldina og koma henni fyrir í lestinni. Það getur því komið sjer mjög vel að geta selt 500–600 tunnur íslenskum manni í landi, selt þessum sama manni seinna síld í þessar sömu tunnur, og keypt svo af honum þessa sömu síld í þessum sömu tunnum, þegar þeir leggja af stað heimleiðis. Þetta getur alt verið löglegt, en hjer getur líka verið um leppmensku að ræða af versta tægi, án þess að ljett sje að sanna það. Þannig geta Norðmenn komið þessu fyrir og siglt síðan með fullfermi beina leið til Svíþjóðar og selt síldina þar sjer að skaðlausu ódýrara en við getum.

Eitt er það, sem jeg vil leyfa mjer að benda á í þessu sambandi og sjerstaklega biðja hæstv. stjórn að athuga vel og vandlega, og það er það, hvort Norðmönnum sje leyfilegt samkvæmt alþjóðaverslunarlöggjöf og venjum að bjóða þá síld, sem fiskuð er utan landhelgi og ekki er verkuð samkvæmt íslenskri löggjöf, á útlendum markaði sem fyrsta flokks íslenska síld. Þetta viljum við banna, ef hægt er að lögum. Vitanlega standa Norðmenn mun betur að vígi að ýmsu leyti en við. Þeir sleppa við útflutningsgjald, tunnutoll og útsvörin sem eru vægast sagt hóflítil. Enginn má skilja orð mín svo, að jeg vilji setja þránd í götu frænda vorra, svo að þeir njóti ekki fullra laga hjer, en okkur verður ekki láð, þótt við viljum vernda rjett okkar sem lög frekast leyfa. Við getum ekki viðurkent, að þeir hafi rjett til þess að bjóða sem íslenska síld á útlendum markaði síld, sem fiskuð er utan landhelgi og ekki er söltuð samkvæmt íslenskum lögum. Við viljum hindra, að þeir geti farið í kringum íslenska löggjöf okkur til tjóns. Við myndum vitanlega geta litið þetta mildari augum, ef ekki stæði svo á, að markaðurinn er svo lítill, að það má tæplega muna 20–30 þús. tunnum til þess að markaðurinn yfirfyllist ekki og allir, sem við síldarútveg fást, tapi meira eða minna. Það er okkur því lífsnauðsyn að hindra þetta, og það ættu Norðmenn sjálfir að skilja. Jeg skal játa, að Norðmenn hafa gert töluvert að því að reyna að auka markaði fyrir íslenska síld. Þeir hafa boðið hana á nýjum mörkuðum, en það lakasta er, að það hefir stundum orðið til þess að koma óorði á síldina utan Danmerkur og Svíþjóðar, vegna þess, að oftast hefir verið reynt að koma þar út lökustu síldinni, sem ekki hefir verið unt að selja á Norðurlöndum. Þess ber að gæta, að íslenska síldin hefir á mjög skömmum tíma rutt burt allri annari síld úr Svíþjóð, enda er þar í landi eini markaðurinn fyrir íslenska síld, að heita má. En Svíar eru sú þjóð, sem lengst hefir komist í því að neyta síldar og hefir því best skilyrði til þess að meta gæði hennar. En þegar þeir hafa slíkar mætur á íslensku síldinni, þá er ilt til þess að vita, að hún skuli hafa ilt orð á sjer í nágrannalöndunum, af því að sölunni er svo óhyggilega háttað. Ástandið er þannig nú, að það má ekki veiðast nema tiltölulega lítið til þess að ekki verði tap á síldinni.

Jeg sje nú ekki aðra leið út úr þessum ógöngum en öflug samtök þeirra manna, sem hjer eiga rjettmætra hagsmuna að gæta. En slík samtök eru útilokuð nema með lagavernd, því að hjer ráða miklu menn, sem eiga annara hagsmuna að gæta en hagsmuna hinnar íslensku þjóðar. Þetta frv. er samið og flutt í þeirri trú, að það sje eina líklega leiðin út úr þessu öngþveiti. Tilgangur þess er fyrst og fremst sá, að koma betra skipulagi á söluna í neyslulöndunum. Ennfremur að vanda vöruna, koma henni í álit á erlendum markaði, sjá um, að ekki verði annað en góð vara á boðstólum. Það er ekki meiningin, að hjer eigi að vera neinn okurhringur á ferðinni; þvert á móti. Með þessu er reynt að miðla hagnaðinum af þessari uppgripaveiði rjettlátlega milli framleiðenda og neytenda. Nú er hagurinn eingöngu hjá neytendunum. En neytendurnir verða að skilja það, að við getum ekki til lengdar selt þeim síldina fyrir lægra verð en framleiðslan kostar. Jeg hygg, að það muni auðvelt að sannfæra jafnvitra þjóð og Svía um slíkt. Og líklega mundi meðaltalsverðið verða aðgengilegra fyrir neytendurna, ef hægt væri á þennan hátt að hafa hönd í bagga með sölunni.

Með þessu fyrirkomulagi yrði fyrir það girt, að síldin væri flutt úr landi svo tugum þúsunda tunna skifti og ónýttist þar. Það yrði ekki meira flutt út en von er um, að seljist með sæmilegu verði, þannig að framleiðslukostnaður fáist borgaður. Þá er eitt, sem altaf veltur mikið á í þessu máli, en það er að gera vöruna þannig úr garði, að hún sje að skapi neytenda. Þó að Svíum líki best sú verkunaraðferð, sem hjer er höfð á síldinni, og vilji ekki hafa hana öðruvísi, þá er ekki svo um aðrar þjóðir. Þær vilja sumar hafa aðra meðferð, því að sinn er siður í landi hverju. Það mundi því verða eitt aðalhlutverk fjelagsins að útvega nýja markaði og jafnframt að kynna sjer, hvernig neytendurnir vilja hafa meðferð vörunnar. Hjer má ekki flana að neinu og enginn má búast við, að slíkt geti tekist á skömmum tíma.

Jeg býst við því, að það þurfi að höggva í sama farið ár eftir ár, því að sjaldan fellur trje við fyrsta högg. Fjöldi þjóða neytir mikið síldar, svo sem Þjóðverjar, Tjekkoslovakar, Pólverjar og Rússar. Þeir, sem best vita, segja, að síld sje mjög mikið borðuð í Rúmeníu. Það er nú næsta ólíklegt, að ekki sje hægt að koma síldinni á markaðinn í þessum löndum, þar sem Svíar, sem hafa mest og best skilyrði til þess að meta síldina, telja hana ágæta vöru. Jeg er sannfærður um, að þetta er hægt, ef rjett er að farið. En ef við gætum útvegað markað fyrir 600 þús. tunnur, þá býst jeg við, að vandræðin væru leyst fyrstu 20–30 árin. Það er ekki nema tæplega helmingur þessa, sem hægt er að fá sæmilegt verð fyrir nú. Mjer er óhætt að hafa það eftir merkum kaupsýslumanni, sem er nýkominn frá útlöndum, að tvö stór verslunarhús í Hamborg fullyrtu við hann, að hægt væri að selja alla íslensku síldina á þýskum markaði, ef hún væri verkuð eins og Þjóðverjar vilja vera láta. Neyslan í Þýskalandi er vitanlega margföld á við framleiðslu okkar.

Jeg gat þess áðan, að okkur flm. væri það fullljóst, að hjer getur verið um hættulegt spor að ræða. Jeg held, að í raun og veru verði aldrei vikið hættulaust frá grundvelli frjálsrar verslunar. En maður verður oft að leggja á tæpt vað og hættulegt til þess að reyna að bjarga sjer frá stærri voða. Hjer er hættan fólgin í því, að ekki verði rjettilega haldið á þeim trompum, sem væntanlegum stjórnendum þessa fjelagsskapar eru fengin í hendur með þessu. Það er vandi að framkvæma þetta, og er enginn öfundsverður af því verki. En jeg vænti þess, að misfellurnar verði ekki stærri en það, að reynslan sýni, að miklu meira vinnist en tapist við þetta örþrifaráð.

Jeg skal taka það fram, að jeg lít á þetta fyrirkomulag hjer sem bráðabirgðafyrirkomulag En upp af þessum fjelagsskap myndi innan skams rísa upp stórt og sterkt íslenskt fjelag, sem myndi ná sterkum tökum á síldarversluninni og aldrei sleppa henni aftur úr íslenskum höndum.

Jeg skal ekki fara mikið út í einstök atriði frv. Jeg vil aðeins benda á tvent. Í 1. gr. frv. er ekki ákveðin tala þeirra manna, er stofnað geti slíkt fjelag sem þetta. Í fljótu bragði kann þetta að virðast mikill galli, en orsökin til þess er sú, að ekki er ljett að vita fyrirfram, hve marga er hægt að fá til þess að stofna þennan fjelagsskap af þeim mönnum, er hjer hafa aðeins íslenskra hagsmuna að gæta.

Einnig virðist heppilegra að láta ríkisstjórnina skipa stjórn fjelagsins í byrjun, til þess að reyna að komast sem mest hjá útlendum áhrifum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Jeg skal að síðustu taka það fram, að í mínum augum er þetta svo mikið nauðsynjamál, að jeg vil fórna dálitlu af persónulegu frelsi innanlands um stundarsakir, í fullu trausti þess, að við verðum frjálsari út á við eftir en áður.