29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jón Baldvinsson:

Batnandi manni er best að lifa. Mjer þykir tilhlýðilegt að byrja með spakmæli, eins og hv. þm. Ak. (BL), þótt ekki sje það á latínu. Jeg viðurkenni fullkomlega þá tilraun, sem kemur fram í frv. þessu og ræðu hv. þm. Ak., um að koma skipulagsbundinni sölu á síldina. En jeg fæ ekki sjeð, að það sje ákaflega mikill munur á fyrirkomulagi því, sem stungið er upp á í þessu frv., og fyrirkomulagi því, sem jeg sting upp á í frv. því, sem er næst á dagskránni. Háttv. þm. Ak. hefir nú lýst ástæðunum, sem hafa orðið til þess, að meiri hl. sjútvn. ber fram þetta frv., og sömu ástæður hafa vakað fyrir mjer. Það er sem sje skipulagsleysið á sölu síldarinnar, mistökin, sem þar af leiðandi verða á henni, og þau stórtöp alls þorra þeirra manna, er útgerðina stunda. Munurinn milli mín og meiri hl. sjútvn. er sá að meiri hl. sjútvn. vill, að fjelag annist síldarsöluna, en jeg tel heppilegra, að ríkið hafi hana á hendi. Jeg vænti þess, að hæstv. forseti taki ekki hart á mjer, þótt jeg minnist ofurlítið á næsta mál á dagskránni. Það verður til þess, að minni umræður verða um það. Jeg skal þá segja hv. þm. Ak., hvers vegna jeg álít heppilegra, að ríkið taki að sjer söluna en fjelag einstakra manna. Það er af því, að jeg hygg, að ríkið standi styrkara gegn þeim mönnum, sem kaupa, heldur en slíkt fjelag, sem frv. hans vill stofna. Jeg get hugsað mjer, að upp rísi óánægja í þeim löndum, sem kaupa síldina, svo og í Noregi, vegna samkepninnar, og hygg jeg, að ríkið sje öruggara gegn slíkri óánægju og ef til vill tortryggni heldur en lögþvingaður hringur. Þetta hefir gert það að verkum, að jeg hefi ekki getað fylgt meiri hluta sjútvn., en tel rjettara að halda mínu frv. Höfuðkostur þessa frv. er sameiginleg sala, en það er líka í mínu frv. Annars þarf jeg ekki að tala langt mál nú, því að við erum sammála um margt í þessu máli, hv. þm. Ak. og jeg, og hefi jeg því engu að svara. Öll rök hans lutu að því að ástandið væri óþolandi eins og er, og er jeg honum sammála um það. Jeg skal aðeins víkja að því, að jeg var honum ekki sammála um það, að hjer sje um nokkuð tæpt vað að ræða. Jeg álít einmitt, að hjer sje hin rjetta leið farin, aðeins ekki gengið nógu langt. Ekki get jeg heldur fallist á, að þetta eigi að vera bráðabirgðaskipulag; heldur vil jeg hafa það framtíðarskipulag. Annars skal jeg ekki fara neitt út í einstök atriði við þessa umr. Ef það er vilji hv. deildar, að þetta frv. verði samþykt, þá býst jeg við því, að mitt frv. nái ekki fram að ganga. Áskil jeg mjer því rjett til að taka mitt frv. aftur, ef jeg sje, að þetta fer í gegn. En ef þetta frv. verður ekki samþykt, þá held jeg, að ekki sje rjett að fella mitt frv. Það hefir glatt mig, að menn hafa álitið einkasölu tryggilegustu aðferð til þess að útvega sannvirði fyrir vörur. Þetta tel jeg stefnubreytingu í rjetta átt hjá Alþingi frá öllum þeim hamagangi síðasta Alþingis gegn einkasölum. Þetta er tilraun til þess að bæta fyrir það, sem áður er misgert.