30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jakob Möller:

Jeg skal ekki rengja það, að tilgangurinn með þessu frv. sje góður. Háttv. flm. þess virðast vera hálf„nervösir“ fyrir því, að það sje eignað öðrum. En jeg sje, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) unir því vel, þótt honum sje ekki eignað það opinberlega, og mun hann hugsa sem svo, að ættarmótið sje svo glögt, að ekki verði um vilst. Jeg hefi ekki mikið um málið að segja. Hv. þm. Borgf. hreyfði mörgu af því, sem jeg hefði þurft að spyrja hv. flm. um. Þó er það eitt atriði sjerstaklega, sem mjer finst ekki lögð nógu mikil áhersla á. Það er talað um, að þessi fjelagsskapur skuli vera lögboðinn sem fjelag framleiðenda. En samkvæmt frv. er þetta ekki fyrst og fremst fjelagsskapur þeirra. Í 1. gr. stendur: „Ef einhverjir þeirra, sem á síðastliðnu ári fengust við söltun eða útflutning síldar, stofna fjelag“ o. s. frv. Það er alveg gengið fram hjá þeim, sem hafa veitt síldina. Ef einhverjir hafa saltað síld, hvort sem þeir eiga framleiðsluna eða hafa keypt hana, og eins þeir, sent hafa flutt út síld, þeir eiga að vera með í þessum fjelagsskap, en þeir, sem eingöngu hafa veitt síldina, hafa ekki rjett til að ganga í fjelagið. Þetta er einkennilegt, þar sem hv. flm. tala í öðru orðinu um leppa og skaðleg áhrif þeirra á síldarútveginn. En samkv. frv. er öllum leppum opnaður greiður aðgangur, að fjelagsskapnum, en framleiðendunum er hann meinaður, þó að vitanlegt sje, að í þeirra hóp eru leppar aðeins hrein undantekning. Mjer virðist auðsætt, að til þess að slíkur fjelagsskapur geti náð tilgangi sínum, verði hann fyrst og fremst að vera fyrir framleiðendurna.

En hvernig stendur á þessu? Er þetta ekki gert fyrir framleiðendurna? Og ef þetta er gert með hagsmuni þeirra fyrir augum, — hví ráða þeir því ekki sjálfir, hvort þessi fjelagsskapur skuli settur á stofn? Samkv. 1. gr. frv. á að stofna fjelag, ef „einhverjir“, sem hafa fengist við söltun eða útflutning á síld, vilja, þó að þeir hafi aldrei veitt eina einustu síld, aðeins braskað við að kaupa og selja. Hæstv. stjórn hefir ekkert látið í ljós um þetta; það veit enginn, hvaða kröfur hún muni gera til þessara manna, hvað margir þeir eigi að vera eða hvaða skilyrði þeir eigi að uppfylla. Myndi stjórnin láta sjer nægja, að í þessum fjelagsskap væru aðeins 2 menn, sem hefðu spekúlerað í síld, en aldrei veitt hana? Jeg held, að það sje rjett, sem bent hefir verið á af hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Eyf., að með þessu væri ekki vel sjeð fyrir hag hinna smærri framleiðenda, sem veiða síld og selja hana nýja til söltunar. Það er óumflýjanlegt, að með þessu minkar eftirspurnin og þar af leiðandi söltunin á síldinni og útflutningurinn kemst á færri hendur, sem eiga ofurhægt með að setja á stofn hring til þess að ákveða verðið. Nú er það vitanlegt, að fjöldinn allur af þeim, sem veiða, salta og flytja út síld, stendur í sambandi við útlend firmu, sem selja fyrir þá og fá fje hjá þeim til atvinnurekstrarins. Með þessu móti geta þeir verið, og eru margir, sem kaupa síld og salta til útflutnings, en með þessari fjelagsskapareinkasölu er algerlega girt fyrir þessa möguleika, og hlýtur þá eftirspurnin eftir nýju síldinni að minka stórum og örfáir menn að ná fullkomnu valdi á markaðnum innanlands.

Svo er spurningin: Er þetta nauðsynlegt? Er ekki hægt að ná þessum tilgangi á annan hátt? Er það ekki hægt t. d. með frjálsum samtökum? Jeg hefi nú heyrt, að það sje ekki hægt. Þó sagði hv. frsm. í fyrri ræðu sinni, og hafði það eftir þýskum manni, að hægt væri að selja alla síldina í Þýskalandi. Það er merkilegt, að hann skuli fyrst hafa fengið þessar upplýsingar nú síðustu dagana, eða eftir að frv. þetta er komið fram. Það lítur út fyrir það, að síldarútflytjendur hafi lítið litið í kringum sig á undanförnum árum. Jeg þori nú lítið um það að tala, hvaða verð er á síldinni í Þýskalandi, hvort þeir, sem þar kaupa síld, geti borgað það verð fyrir hana, sem framleiðendur hjer þurfa að fá. Eflaust geta þeir, sem þessa atvinnu stunda, gefið upplýsingar um það. En geti þeir það ekki og hafi þeir ekkert víkkað markaðinn, þá er undarlegt, að þeir, sem ekkert hafa gert í þessu máli, skuli nú eiga að fá lögvernd, einkaleyfi til þess að auka sölumöguleika síldarinnar. Mjer er ná kunnugt um það, að nokkuð hefir verið flutt til Þýskalands af síld hjeðan, og Þjóðverjar hafa sjálfir veitt hjer síld, en um markaðsverðið veit jeg ekki eða hvort þeir veiða nóg fyrir sig. En mjer finst rjettmætt að fá upplýsingar um þetta áður en maður fer að krossbrjóta öll sín „princip.“

Það er líka annað undarlegt. Frv. kemur fram eftir að þingið er búið að sitja 2½ mánuð, þegar aðeins er eftir í mesta lagi hálfur mánuður af þingtímanum og þegar þeir, sem þessa atvinnu stunda, eru farnir að búa sig undir hana fyrir sumarið: þeir eru ef til vill búnir að útvega sjer sambönd erlendis og búnir að selja það, sem veiðast kann. Þegar þetta alt er komið í kring — þá kemur þetta frv. fram. Jeg vil nú spyrja hæstv. stjórn og hv. flm. að því, þar sem framleiðendur kunna að vera búnir að gera sölusamninga, hvort þeir samningar verði ónýtir við það, að þetta frv. verður samþ. Jeg efast um, að svo verði. Hitt veit jeg, að ef það er meiningin að samþykkja þetta frv. með þeim skilningi, að allir slíkir samningar verði ógildir, þá er það nokkuð langt gengið að gera menn að óheilindamönnum eftir á að gerðum sínum.

Annars er það aðalgalli frv., að það virðist vera óhjákvæmilegt að hafa það alveg óákveðið, hvenær hafist skuli handa. Það er alveg óviðunandi, að frv. skuli vera svo ófullkomið, að ef „einhverjir“ o. s. frv. stofna þetta fjelag, þá skuli það fá þetta einkaleyfi.

Hvað verður svo framhaldið? Það er ekkert ákvæði um það, hvenær slíta megi fjelaginu, eða hvort það geti sjálft leyst sig upp. Alþingi getur vitanlega afnumið lögin, og væri það rjettmætt, þegar alt væri komið í lag, öll leppmenska útilokuð. En mundi því ekki verða haldið áfram alveg eins og það var stofnað, meðan „einhverjir“ vilja halda fjelaginu við? (MJ: Þetta er aðeins heimild fyrir stjórnina). Já, en eins og stjórnin notar heimildina til þess að stofna fjelagið, eins mun hún nota hana til þess að halda því áfram, þegar ekkert er um það í lögunum, að slíta megi eða skuli fjelaginu.

Jeg vil taka það fram, að enginn má skilja orð mín svo, að jeg sje með getsakir til hv. flm., að þeir ætli að nota aðstöðu sína á þennan hátt. Jeg vildi aðeins benda á að þetta gæti orðið svona.