30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

110. mál, sala á síld o. fl.

Ólafur Thors:

Það verður aðeins stutt athugasemd, þar sem jeg sje, að hv. frsm. (BL) hefir ritað ýmislegt niður hjá sjer og mun svara fyrir sig.

Jeg vil þá fyrst víkja lítilsháttar að hv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hann tók það rjettilega fram, að lepparnir myndu valda hjer erfiðleikum. En örðugleikarnir liggja ekki í því, að örðugt sje að fara nærri um, hverjir sjeu leppar. Vandinn er sá, að mjög torvelt er að sanna það. Annars væri hægurinn hjá að ákveða í lögunum, að leppar sjeu ekki atkvæðisbærir þegar um er spurt, hvort stofna beri slíkt fjelag og veita því umrædd rjettindi.

Þá þótti mjer kenna nokkurs misskilnings hjá hv. 2. þm. Eyf. um eðli málsins. Í frv. er aðeins farið fram á það, að ef fjelag verði stofnað, þá fái það lögvernd, ef atvrh. þykir ástæða til og öll skilyrði eru uppfylt. Auðvitað getur hann og ber skylda til að leita álits sem flestra þeirra Íslendinga, er atvinnuveg þennan stunda fyrir eiginn reikning. Ef lögin sæta almennri óvild hjá þessum mönnum, geta þeir vitanlega einnig sent ráðherra áskorun um að veita ekki þessi rjettindi. En ef nú einmitt lepparnir bæru fram þessar óskir, þá ætti, ef jeg mætti ráða, að virða þær að vettugi.

Þá vildi þessi hv. þm. eins og hv. þm. Borgf. (PO) miða atkvæðisrjett í fjelaginu við þá, sem salta síld á þessu ári. En það er erfitt að færa sönnur á, hverjir þeir menn eru. Það er jafnvel ekki hægt að sanna það, enda þótt þeir væru búnir að útvega sjer tunnur, fólk og skip, því afli getur brugðist. Jeg skal játa, að ýmislegt mælir með því að fara eftir því, hverjir ætla sjer að salta, vegna þess, að þeir, sem salta á árinu, eigi einmitt á því ári hagsmuna að gæta, og er af þeim ástæðum rjettara, að þeir hafi atkvæðisrjett um tilhögunina á því ári. Er jeg því reiðubúinn til að taka þetta til gagngerðrar athugunar, þótt jeg einnig, svo sem jeg hefi tekið fram, sjái ágallana á því skipulagi.

Jeg verð að halda því fram, að það er misskilningur hjá hv. 2. og 3. þm. Reykv. (JBald og JakM), ef þeir hyggja, að það sje ekki sjerstaklega til hagsmuna þeirra, er síld veiða, ef varan hækkar í verði að staðaldri. Öðru máli er að gegna, ef varan hækkar mikið eftir að vertíð er á enda. En svo á að reyna að búa um, að varan hækki ár frá ári og að verðið verði sem tryggast og sveifluminst, en það er auðvitað misskilningur, að hugsanlegt sje, að maður geti alveg ráðið verðlaginu á saltaðri síld. Öllum er opin þátttaka í fjelaginu. Það er því með öllu ástæðulaust að óttast, að þeir, sem síld salta, okri á þeim, er selja nýju síldina, því þá mundu hinir síðarnefndu allajafna grípa til þess að salta sjálfir og gerast meðlimir í fjelaginu. Háttv. 2. þm. Reykv. sagði, að af þessu mundi leiða, að eftirspurnin eftir síldinni yrði minni. Þykir mjer það einkennileg rökfærsla. Því hækki verðlag saltaðrar síldar, má einmitt vænta meiri eftirspurnar eftir nýrri síld, og þar af leiðandi hærra verðs. Þetta er því alveg þveröfugt.

Þá var hv. 3. þm. Reykv. að draga dár að hv. frsm. fyrir það, að honum höfðu borist nýjar upplýsingar frá manni nokkrum um markaðsmöguleika fyrir síld í Þýskalandi, og þótti háttv. þm., sem hv. frsm. hefði borið skylda til að þekkja málið betur en svo, að um nýjar frjettir gæti verið að ræða. Ætti maður þá eftir þessu að liggja á hverri nýrri vitneskju eins og á mannsmorði, til þess að forðast þá skömm að hafa ekki vitað alt áður. Þetta er rökrjett afleiðing af orðum hv. þingmanns.

Háttv. 2. þm. Eyf. og fleiri fundu að því, hve seint frv. væri fram komið og mönnum hefði ekki verið kunnugt um það áður. En þetta er ekki rjett. Það var fyrir löngu ljóst orðið, að von var á slíku frv. Flestir þeirra manna, er búa hjer sunnanlands og síldarsöltun hafa stundað, eru þakklátir nefndinni fyrir að frv. þetta er fram komið. Hafa þeir átt fund með sjer og sent valda fulltrúa á, fund nefndarinnar. Færðu þeir nefndinni þakkir fyrir gerðir hennar í þessu máli, að undanskildum einum manni, sem fanst of skamt farið og vildi láta ná tökum á síldarverksmiðjunum líka.

Það er misskilningur hjá háttv. 3. þm. Reykv., að ekki sje hægt að leysa upp fjelagið. Jeg skil svo lögin, að ráðherra sje heimilt að veita fjelagi einkasölu, en í lögum fjelagsins á aftur að vera ákvæði um, á hvern hátt það skuli leyst upp. Og ef meiri hluti fjelagsmanna óskar þess, skal það auðvitað gert. Kæmi þá til álita, hvort ráðherra gæti veitt öðru fjelagi þessa heimild. Hygg jeg, að það sje ekki hægt. Sje jeg, því ekki, að hjer sje neinn voði á ferðum.

Að síðustu ætla jeg að víkja örfáum orðum að hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að útgerðarmenn hefðu lítið gert til þess að útvega markað. Þeir tala mest um Ólaf konung, sem hvorki heyrðu hann nje sáu. Háttv. þm. er alls ekkert um þetta kunnugt. En það er altaf ljett verk að finna nóg rök, meðan maður rekur sig ekki á sker reynslunnar. Sannleikurinn er sá, að á fáum árum hefir markaður sjávarafurða tvöfaldast, og er það ekki venjulegt um útflutningsvörur annara þjóða, að þær ryðji sjer svo fljótt til rúms. Þetta er auðvitað ekki eingöngu að þakka hinum innlendu útgerðarmönnum, en sinn fulla hluta eiga þeir þó af því afreki. En ef frv. þetta verður samþykt, er aðstaðan enn betri til þessa að vinna nýjan markað.

Þessi háttv. þm. sýnist fyrir hvern mun vilja blanda blóði við okkur meðnefndamenn sína. En jeg færist undan því; við munum aldrei af því vaxa. Hjer er annarsvegar ákveðin ríkiseinkasala, með öllum hennar annmörkum, en hinsvegar lögvernd, til þess að snúa leppunum snöru. Lengur er sú lögvernd ekki nauðsynleg. Jeg játa manna fúsastur, að það er ágalli, að stjórn fjelagsins skuli skipuð af ríkisstjórninni fyrstu tvö árin. En þetta er nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja áhrif leppanna á framkvæmdir fjelagsins. Að tveim árum liðnum er þess vænst, að áhrifa þeirra gæti síður eða ekki. Hitt hljóta allir að skilja, að það er sitt hvað að una því, að sá ráðherra, sem maður ber fult traust til, skipi framkvæmdarstjórn fjelagsins til einna tveggja ára, og hitt, að einhver og einhver ráðherra, sem í þann svipinn fer með völd á hverjum tíma, ráði framkvæmdarstjórn, og þar með framkvæmdum fjelagsins, en svo yrði, ef frv. hv. þm. (JBald) yrði að lögum.

Í lok ræðu sinnar var hv. þm. fyndinn. Líkti hann „björtum sölum frelsisins“ við glerhús. Læt jeg honum fúslega eftir að gera þetta að gamni sínu, en það skil jeg til, að mjer sje þá heimilt að velja heiti hinum „dimma verustað einokunarinnar“. Nefni jeg hann gröf, því þar lendir sú stefna fyr en varir.