30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

110. mál, sala á síld o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skildist á háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) að hann óskaði, að stjórnin ljeti til sín heyra um þetta mál. Það er varla von, að stjórnin hafi látið hjer uppi álit sitt, þar sem frv. er ekki flutt fyrir hana og þar sem þetta er aðeins 1. umr. málsins. En af því að hann spurði, er sjálfsagt að svara honum.

Fyrsta atriðið var um skilning 1. gr. Hann spurði, hve marga þyrfti til þess að mynda þetta fjelag. Jeg verð að segja, að eftir greininni þarf í rauninni ekki nema 2 menn, ef uppfylt eru önnur skilyrði. Heimildin er svona víð, en reyndar skil jeg ekki hv. flm. þannig, að 2 menn sjeu nóg, heldur er það tilætlun þeirra að leggja málið að þessu leyti á vald stjórnarinnar. Það er þó ekki gott, að stjórnin fái of víða heimild. Vil jeg þess vegna skjóta því til hv. flm., að þeir þrengi þetta dálítið.

Þá spurði háttv. þm. (JakM) um það, hvort gerðir samningar um sölu og söltun á síld yrðu ógildir, ef frv. yrði samþykt. Þessu er því að svara, að í 2. gr. felst það óneitanlega, að samningarnir geti orðið ógildir. Stjórnin getur ákveðið svo, að fjelagið selji alla síld. En auðvitað er henni líka heimilt að láta slíka samninga standa. En hjer er aftur atriði, sem gæti sett stjórnina í vanda. Mundi oft erfitt að sjá, hvaða samningar væru raunverulegir og hverjir „pro forma“. Allir gætu líka sagt, að þeir væru búnir að semja. Þá er og ekki gott að greina milli skriflegra og munnlegra samninga, því að skriflegir samningar eru heldur ekki alveg tryggir.

Þá virtist hv. þm. halda, að sala fjelagsins hlyti að halda áfram meðan fjelagið lifði. Það er rjett, að engin ákvæði eru um þetta í frv. En eins og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, ættu að koma ákvæði um þetta inn í sjálf fjelagslögin, og á hvern hátt ætti að uppleysa það o. s. frv. Annars lít jeg svo á, að stjórninni sje leyfilegt að veita þessa heimild til ákveðins árabils.

Jeg held, að háttv. þm. hafi ekki spurt um meira, og ætla jeg því ekki að blanda mjer neitt í frv. að svo stöddu. En það er rjett, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að ákvæðin í 3. og 4. gr. eru mjög óskýr. Eðlilegast er, að fjelagið taki yfir alla þá, sem fást við þessa sölu, ef þeir vilja, en undarlegt, ef á að neyða menn til að ganga í það. Það er nóg að skylda menn til að selja í gegnum það. Mjer finst rjett, að menn sjeu ekki lengur í fjelaginu en þann tíma, sem þeir fást við þessa atvinnu. Fjelagið sje þannig með breytilegri fjelagatölu. Ef menn hætta við þessa atvinnu, eiga þeir ekki að geta verið lengur í fjelaginu.