30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

Það hefir nú verið talað lengi og ítarlega um þetta mál. Eftir öllum kringumstæðum er jeg ánægður og þakka þær góðu undirtektir, sem þetta stórmál hefir fengið. Það hafa komið fram ýmsar athugasemdir, en mjer finst flestar þeirra vera bygðar á misskilningi að meira eða minna leyti. Þeim hefir nú flestum verið svarað, og nenni jeg ekki að elta ólar við þær frekar, en ætla þó að víkja að einstökum atriðum. Jeg ætla fyrst að svara hv. þm. Borgf. Honum virðist, — og sömuleiðis þeim hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Eyf. — að hjer sje einkum verið að hlynna að útflytjendum síldar. Jeg hefi ekki nógu sterk orð til að mótmæla þessu svo sem þyrfti. En þetta er tvímælalaust hinn fáránlegasti misskilningur. Annars vita þeir, sem kunnugir eru þessum atvinnurekstri, að það er oftast eða jafnvel altaf skynsamlegt fyrir útgerðarmenn að salta einhvern hluta aflans fyrir eiginn reikning, þótt þeir selji megnið af honum nýtt. Ef lítið aflast, verður hagnaður af því, sem saltað er. Ef hinsvegar aflast mikið, gætir þess lítið þó tap verði á því, sem saltað er fyrir eiginn reikning. Æskilegast gæti kannske talist, að útgerðarmenn söltuðu allan afla sinn fyrir eiginn reikning og hefðu enga milligöngumenn. En til þess þarf mikið fje og þetta er venjulegast mikið áhættuspil. Milliliðirnir geta þess vegna verið nauðsynlegir til þess að dreifa áhættunni, enda hafa þeir venjulegast betri aðstöðu til þess að gera síldina að góðri vöru. Ástandið, sem nú er, verður að bera saman við það ástand, sem æskilegt þykir að skapa. Nú er valdið á þessu sviði í höndum manna, sem engra hagsmuna hafa að gæta fyrir Íslendinga, heldur hugsa mest um það að græða sjálfir fje. Það hefir verið talað um, að þetta frv. væri seint á ferð og gæti komið í bága við þá, sem þegar væru búnir að gera samninga um söltun eða sölu síldar. Þetta getur vel verið. En að svo miklu leyti, sem mjer er kunnugt, væri það ísl. umboðsmönnum hreinn og beinn hagur, ef þessum samningum væri riftað. Sannleikurinn er sá, að þeir undirbjóða hver annan þar til verðið er orðið óhæfilega lágt. Jeg held það væri hreint og beint góðverk að leysa þá frá samningum sínum, sem útvegað hafa stórkaupmönnum í Svíþjóð þessa ódýru síld. Það er enginn hægðarleikur að lyfta verðinu þegar búið er að bjóða það niður úr öllu viti.

Hv. þm. Borgf. talaði um, að þetta frv. gæti orsakað leppmensku. Jeg verð nú að segja, að jeg geri yfirleitt lítinn mun á þeim, sem lána aðeins nafn sitt útlendum mönnum, og hinum, sem reka atvinnuna með útlendu lánsfje og selja jafnframt síldina fyrirfram fyrir framleiðsluverð. Þetta er nokkuð svipað og tíðkaðist hjer áður, þegar menn töldu sig reka íslenska verslun, en voru svo háðir útlendum lánardrotnum, að þeir voru í raun og veru ekki annað en þjónar þeirra. Sami hv. þm. talaði um að takmarka veiðina. Jeg held, að þeir, sem til þekkja, sjeu allir sammála um, að þetta sje enginn hægðarleikur. Síðan við fengum núgildandi fiskiveiðalöggjöf veiða Norðmenn utan landhelginnar og salta á skipum úti, og við vitum ekkert, hvað afla þeirra líður, fyr en eftir dúk og disk. Okkur vantar því öll skilyrði til þess að vita í tíma, hvenær við eigum að hætta. Það er líka besta síldin, sem veiðist síðast, og á henni þurfum við að halda til þess að ryðja nýjum markaði braut.

Hv. 3. þm. Reykv. var að hnýta í okkur fyrir það, að við hefðum lítið gert til þess að útvega nýja markaði. Háttv. 2. þm. Reykv. hefir svarað því að mörgu leyti rjettilega. Til slíkra hluta sem markaðsleitar þarf meira en lítið fje og mikið áræði. Við vitum aldrei fyrirfram, hvenær sjerstök þörf er á nýjum markaði, því sum árin aflast of lítið til þess að fullnægja þeim markaði, sem fyrir er, önnur ár aflast of mikið, en þá er of seint að hefjast handa. Jeg hefi ekki trú á því, að „privat“-menn sjeu þess megnugir að hefja markaðsleit. Jeg get fullyrt, að það er ekki í þeirra þágu, sem nú hafa aðaltökin á þessari verslun, að útvega nýjan markað. Jeg býst við, að í hvert skifti, sem Íslendingar reyndu að koma síld á framfæri á nýjum markaði, mundu koma samkepnistilboð frá síldarkaupmönnum í Svíþjóð.

Það getur verið, að jeg hafi gleymt einhverju, sem jeg vildi segja, en það verður þá að bíða. Jeg endurtek þakklæti mitt fyrir þær góðu undirtektir, sem þetta frv. hefir fengið.