04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

Eins og sjá má á þskj. 475, hefir okkur flm. frv. komið saman um að flytja brtt. við það. Eru sumar þeirra þannig tilkomnar, að við höfum verið að reyna að gera þeim mönnum til geðs, er ýmislegt höfðu við frv. að athuga við 1. umr.

Við 1. gr. höfum við gert breytingu sökum þess, að sumir fundu frv. það til foráttu, að 2 eða 3 menn gætu stofnað fjelagið. Nú er lagt til, að til þessa þurfi að minsta kosti 20 menn.

Þá var fundið að því við 1. umr., að ekki væri gætt nóg hagsmuna þeirra útgerðarmanna, er fást við síldarútgerð en salta ekki fyrir eiginn reikning. Þeim er nú samkv. brtt. gefinn kostur á að stofna fjelagið eða eiga þátt í því. Samkv. frv. gátu allir komist í fjelagið með því að leggja þar inn eitthvað af útflutningshæfri síld. En jeg hefi ekkert á móti því, að síldarútvegsmenn geti verið fjelagsmenn án þessa.

Þá er brtt. við 4. gr., að niður falli af enda greinarinnar orð, sem eru í raun og veru þýðingarlaus og óþörf.

Næst er brtt. við 5. gr. 2. málsgr. Er þar lagt til, að í lögunum sjálfum standi heimild fyrir því, að fjelagsstjórnin geti bannað síldarsöltun og kryddun á tímabilinu frá 15. mars til 25. júlí, í stað þess að í frv. er aðeins að ræða um reglugerðarheimild til þess að banna þetta fyrir 25. júlí ár hvert. Þessi breyting er lögð til sakir þess, að stundum veiðist síld í landnætur, net og með fyrirdrætti á þessu tímabili, sem mjög getur verið áhættusamt að salta eða krydda til útflutnings. En ákvæði frv. eru aðeins miðuð við herpinótaveiði. Þá þótti rjett að hafa nokkurn fyrirvara fyrir banninu, til þess að þeir, sem ætla að salta síld til útflutnings, vissu fyrirfram, hvort það væri leyfilegt eða ekki, og þykir eftir atvikum mega nægjast með mánaðar fyrirvara.

Þá er 4. brtt., er jeg tel skifta miklu máli. Hún tekur af allan efa um það, hvort fjelagsstjórninni sje heimilt eða ekki að selja síld innanlands til fóðurs eða í verksmiðjur. Er það alveg sjálfsögð heimild, enda var það meining okkar, að hún feldist í frv. Að öðrum kosti er ekki hægt að koma í veg fyrir of mikinn útflutning á erlendan markað.

Þá er 5. brtt. Í frv. er ákveðið, að verja skuli ákveðnum hluta af framleiðslu hvers árs til þess að leita að nýjum markaði. En þá síld hefir fjelagsstjórnin ekki heimild til að láta verka á neinn sjerstakan hátt og verja til þess fje úr fjelagssjóði. Hjer getur verið að ræða um sjerstakan síldarflokk, með sjerstöku verði, sem enginn einstakur maður þorir að gera tilraun með fyrir eiginn reikning og eiga þannig á hættu að fá aðeins það verð fyrir, sem sá flokkur fengi að lokum. Stjórninni þarf því að vera heimilt að verja fje til þessara tilrauna. Þeir, sem þekkja til á hinum erlenda markaði og vita, hversu mismunandi kröfur eru gerðar til verkunar síldarinnar í ýmsum löndum, ættu að geta skilið nauðsyn þessa.

Að síðustu er það brtt. við 13. gr., þannig að hverjum 200 tunnum fylgi eitt atkvæði, en ekki hverjum 300 tunnum, eins og nú er í frv. Einnig er hámark atkvæða, sem einn maður má hafa, fært úr 25 upp í 35. Þessar till. eru ekki frá mjer og jeg tel þær hvorki til góðs nje ills, og þess vegna læt jeg þær afskiftalausar.

Áður en jeg held lengra, ætla jeg að víkja lítillega að brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 479. Nefndin, eða meiri hluti hennar, hefir ekki haft tækifæri til þess að koma saman og athuga till. þessar og verður það, sem jeg segi um þær, að standa fyrir minn eiginn reikning.

Fyrri till. hv. þm. Borgf. útilokar alveg þá menn, sem hafa margra ára reynslu í þessum efnum, frá því að taka þátt í stofnun fjelagsins. Þeir einir, sem á þessu ári ætla að salta síld, eiga því að ráða. En þetta er alt of langt gengið. Er spurning, hvort ekki ætti að taka þá jöfnum höndum, en þá þarf að orða till. á annan hátt. Eins og hún nú er, er jeg algerlega á móti henni. Jeg vildi samt heldur óska þess, að flm. tæki hana aftur til 3. umr. Gæti ef til vill orðið samkomulag milli okkar um að rýmka hana nokkuð, svo að hún útilokaði ekki eldri menn og reyndari í þessari atvinnugrein. Þá er seinni brtt., um takmörkun síldveiðinnar. Um hana höfum við flm. mikið hugsað og vorum oft að því komnir að setja slíkt ákvæði í frv., en þó varð aldrei af því. Jeg hefi tekið fram áður ástæðurnar fyrir því, og get gert það nú aftur að nokkru leyti. Það er nefnilega ekki hægt að vita um það fyrirfram, hve mikið við fiskum og þó sjerstaklega ekki, hve mikið Norðmenn kunna að fiska fyrir utan landhelgi. Við getum ekki fengið vissu okkar í þessum efnum fyr en í fyrsta lagi í október ár hvert, þegar hinar norsku fiskiskýrslur koma út. Þetta yrði aðeins handahófsráðstöfun og gæti vel farið svo að hún yrði til tjóns. En ef hægt væri að áætla rjettilega, hve mikið fiskaðist, væri þetta auðvitað sjálfsagt ákvæði. En hvað mig snertir, geri jeg þetta ekki að neinu kappsmáli. Annars vildi jeg nú helst óska þess, að háttv. flm. (PO) tæki báðar till. sínar aftur til 3. umr. og reyndi að komast að samkomulagi við okkur. Hygg jeg ekki, að neitt sje því til fyrirstöðu, að það geti gengið.

Þá vildi jeg víkja örfáum orðum að hv. 2. þm. Eyf. (BSt), út af fyrirspurnum, sem hann gerði um undirbúning þessa máls. Reyndar fanst mjer honum að nokkru leyti vera svarað með ræðum sumra hv. þm. við 1. umr. Undirbúningur þessa máls er ekki lakari en undirbúningur slíkra mála er yfirleitt, og hafa verið teknir til greina hagsmunir allra þeirra, er hlut eiga að máli. Ef tekið er tillit til afstöðu þeirra útgerðarmanna, sem ekki hafa annara hagsmuna að gæta en íslenskra, þá má segja, að flestir þeirra hafa lýst velþóknun sinni yfir þessu frv. Reynt hefir verið að blása út símskeyti frá kjördæmi mínu, sem mótmælir þessu frv. Þess ber þó að gæta, að þar voru aðeins 10 menn að verki, og voru sumir þeirra ekki fjarri þeim flokki manna, er hafa annara hagsmuna að gæta en þeirra, sem frv. á að gæta, en það eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar. Á þessum fundi á Akureyri var feld með jöfnum atkvæðum, 5:5, traustsyfirlýsing til nefndarinnar, og einnig var feld þar með 7:3 atkv. vantraustsyfirlýsing og mótmæli gegn gerðum hennar. Á þessum 10 manna fundi voru þannig aðeins 3 menn, sem mótfallnir voru frv., og ef nöfn þeirra eru nefnd, býst jeg ekki við, að menn verði mjög undrandi yfir afstöðu þeirra til málsins. Hjer í Reykjavík hefir enginn útvegsmaður mótmælt frv., heldur hafa útgerðarmenn hjer þvert á móti mælt eindregið með því. Sama er að segja um Ísfirðinga. Jeg hefi ekki enn heyrt neitt frá Siglufirði, en hygg þó, að þar verði hið sama uppi á teningnum. Þannig er þá undirbúningur frv. Það hefir fengið góðan dóm þeirra manna, sem mest er að marka og sem hafa ekki annara hagsmuna að gæta en íslenskra. Að því á líka frv. að miða.

Áður en jeg hætti skal jeg geta þess, að sendimaður stjórnarinnar, sem utan fór í vetur til þess að opna nýjan markað fyrir síld, kom í dag. Jeg hafði þá ánægju að tala við hann, en samtalið varð þó ekki eins ítarlegt og jeg hefði viljað. En hann mun bráðlega leggja fram skýrslu sína og þær tillögur, er hann hefir. Hann hefir mikla trú á, að takast megi að útvega markað, ef rjettilega er að farið. Þá sagði hann, og er það mjög eftirtektarvert, að íslensk síld væri ekki nærri eins mikil „sæsons“-vara og hingað til hefir verið haldið. Hann fullyrti, að selja mætti síldina í Rússlandi, þó að hún væri búin að liggja lengi í tunnunum og væri jafnvel orðin að hálfgerðu mauki. Er búinn til úr henni sjerstakur rjettur, er rússneskir bændur borða mikið — Er enginn efi á því, að gera má góðan mat úr henni þótt ársgömul sje eða meira.

En málið þarf að komast í fast horf; það þarf ákveðið skipulag. Hjer dugir ekkert kák eða að hlaupið sje í eitthvað um stund og hætt svo þegar við það aftur. Þetta verður að reka með skynsemi og það þarf að haga sjer eftir óskum þeirra manna, sem síldina nota, og ekki fara eingöngu eftir hinni gömlu venju með verkun síldarinnar, og bundin er við aðeins einn markað, Svíþjóð.

Jeg ætla að víkja lítillega að símskeytinu frá Akureyri, vantraustinu, eins og eitt blaðið hjer kallar það. Þar er sagt, að það sje álit manna, að síldarmálinu sje með frv. okkar stefnt í tvísýnu. Mjer varð alls ekkert ilt við að heyra slíkt orð. Jeg tók það einmitt skýrt fram í minni fyrstu ræðu, að við legðum hjer á hæpið vað, en að það væri óverjandi að reyna ekki neitt, þegar voði stæði fyrir dyrum. Okkur flm. öllum var það líka ljóst, að þetta var hæpin leið og hættuleg, ef ekki væri rjett á haldið. Við höfum afarmikið um þetta hugsað, og jeg leyfi mjer að halda því fram, að þeir, sem hafa látið uppi skoðun sína um það utanþings, hafi ekki hugsað málið eins til hlítar. Jeg skal játa, að það getur verið nokkur tvísýna, hvort þetta leiði til bóta, en jeg tel þó alveg sjálfsagt að leggja út í þetta, úr því sem komið er. Og ef menn standa hjer einhuga saman og setja markið hátt, þá mun þetta ábyggilega verða leið til sigurs.