04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

110. mál, sala á síld o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Jeg ljet þá skoðun í ljós við 1. umr. þessa máls, að þessi fjelagsstofnun mundi ekki koma að fullum notum nema því aðeins, að hún hefði allmikið fylgi þeirra, sem hlut eiga að máli. Jeg spurði því hv. nefnd. hvað þessu liði. Nú hefir hv. frsm. nefndarinnar (BL) svarað þessu að nokkru, en fullnægjandi svar hefi jeg þó ekki fengið.

Hv. frsm. hjelt því fram, að þetta mál hefði eindregið fylgi þeirra manna, sem hefðu aðeins innlendra hagsmuna að gæta í þessari atvinnugrein. En nú hefir hann sjálfur játað, að erfitt geti verið að vita, hverjir það eru, sem svo er ástatt um, og hverjir hinir, sem að einhverju leyti hafa útlendra hagsmuna að gæta. En úr því svo er, að erfitt er að greina þarna á milli, þá hygg jeg, að hv. frsm. geti heldur ekkert fullyrt um það, að fylgi við málið byggist á þessu.

Hv. frsm. sagði, að á Siglufirði mundi vera tiltölulega fátt þeirra manna, sem aðeins hefðu innlendra hagsmuna að gæta. Jeg veit ekki vel, hvað hv. þm. á við með þessu. Jeg leyfi mjer að halda því ákveðið fram, að útgerðarmenn á Siglufirði sjeu alls engir „leppar“ útlendinga, enda bar hv. frsm. það ekki á þá. En hvað átti hann þá við?

Jeg veit, að margir hafa tilhneigingu til að kalla það „leppmensku“, þegar síldarútgerðarmaður fær tunnur og salt frá útlöndum gegn væntanlegum síldarafla. En er það rjett, þegar atvinnan er að öðru leyti rekin á eigin ábyrgð? Jeg hygg ekki.

Eins og frv. sjálft er orðað, þá er það ómótmælanlegt, að samkv. því geta aðeins 2 menn stofnað þetta fjelag, sem ætlast er til, að fái einkasölu á allri síld. Fyrir því yrðu allir hinir, sem þennan atvinnuveg stunda, að beygja sig, hvort sem þeim væri það ljúft eða leitt. En nú hefir hv. nefnd tekið þau mótmæli til greina að nokkru leyti, sem fram komu gegn þessu, og flytur nú tillögu um, að ekki færri en 20 þeirra manna, er á síðastliðnu ári fluttu út síld eða gerðu út skip á síldveiðar, þurfi til að stofna fjelagið, ef það á að fá einkasölu. Jeg skal fúslega játa, að þessi tillaga er til bóta frá því, sem er í frv., en jeg álít þó, að hún gangi ekki nógu langt. Jeg hefi fengið upplýsingar um, að þeir, sem söltuðu og fluttu út síld í fyrra, hafi verið um 100, og svo bætast við margir, sem gerðu út skip til síldveiða. Ef einir 20 af þessum mönnum eiga að geta kúgað alla hina til að ganga í slíkt fjelag sem þetta, þá þykir mjer það nokkuð hart. Mjer finst, að ekki hefði mátt minna vera en að krefjast meirihlutafylgis, því að kúgunin kæmi þá a. m. k. niður á færri mönnum, þó um kúgun væri að ræða.

Eftir þeim frjettum að dæma, sem jeg hefi enn fengið um undirtektir síldarútgerðarmanna og annara, sem þetta mál varðar mest, þá virðast þær ekki vera neitt góðar. Jeg get ekki haft sama skilning á samþykt útgerðarmannafjelagsins á Akureyri eins og hv. frsm. Samkv. símskeytinu er fjelagið að vísu þakklátt hv. sjávarútvegsnefnd fyrir áhuga hennar á þessu máli. Undir þau orð geta sjálfsagt allir tekið. Jeg fyrir mitt leyti efast líka ekkert um, að nefndinni hefir gengið gott eitt til að flytja þetta frv., hvort sem hún hefir hitt heppilegustu leiðina eða ekki. En hvað sem því líður, get jeg ekki sjeð, að símskeytið frá Akureyri sje meðmæli með þessu máli. Þar stendur, að samþykt þessa frv. mundi tefla atvinnuveginum í tvísýnu. Eru það meðmæli? Og fjelagið ræður þinginu beinlínis frá að samþykkja þetta frv. Það finst mjer miklu fremur mótmæli en meðmæli. Hv. frsm. játaði, að með þessu frv. væri farið út á hæpna leið og að það væri tvísýnt, hvernig þetta mundi gefast. En hann taldi samt ekki áhorfsmál að leggja út í þessa tvísýnu, til þess að gera tilraun til að komast út úr því öngþveiti og ógöngum, sem þessi atvinnuvegur væri nú kominn í. En úr því sjálfur aðalflutningsm. telur þetta hæpið og tvísýnt mál, — er þá nokkur furða, þó að við hinir sjeum ofurlítið hikandi?

Þá skal jeg víkja að nokkrum atriðum í frv., sem jeg vil vekja athygli hv. nefndar og annara þm. á.

Í fyrsta lagi skal jeg benda á það, að í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að þetta fyrirhugaða fjelag eigi að hafa umráð yfir öðru fje en andvirði seldrar síldar, þegar að því kemur. Í byrjuninni, eða áður en nokkur síld er seld, er því ekki hægt að sjá, að fjelagið eigi að hafa nokkurt rekstrarfje undir höndum. Jeg get þó ekki annað skilið en fjelaginu sje nauðsynlegt að hafa umráð yfir einhverju starfsfje frá upphafi. Mjer finst t. d. líklegt, að fjelagið muni þurfa að senda mann eða menn til útlanda þegar á fyrsta starfsári, til þess að greiða fyrir sölu síldarinnar o. s. frv. Ýmsar fleiri ráðstafanir mun fjelagið þurfa að gera, sem kosta peninga. En hvaðan á að taka þessa peninga í byrjun, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að fjelagið eigi neinn sjóð eða fái neitt annað fje til umráða en andvirði síldarinnar?

Í 8. gr. frumvarpsins er svo ákveðið, að heimili og varnarþing fjelagsins skuli vera á Akureyri. Jeg tel víst, að Akureyri hafi verið valin vegna þess, hvað hún er nærri síldveiðunum. En jeg vil leyfa mjer að benda á, að annar bær er ennþá nær og það er Siglufjörður. Þar er miðstöð þessa atvinnuvegar og þar ætti því heimili og varnarþing fjelagsins að vera. Vona jeg að hv. nefnd taki þetta til athugunar.

Þriðja atriðið, sem jeg ætla að drepa lítillega á, er það, að þó þetta fjelag verði stofnað og þó það fái einkasölu á saltaðri síld, sem aðalvandræðin eru með, þá þyrfti einkasalan ekki að vera eins víðtæk og frv. gerir ráð fyrir. Hv. nefnd ætti að taka til athugunar, hvort ekki mætti undanskilja einkasölunni kryddsíld og aðra síld, sem verkuð er á alveg sjerstakan hátt, t. d. sykursaltaða síld, flatta og linsaltaða síld, sem ætluð er til reykingar, o. s. frv. Jeg hygg, að ekki sje bein þörf að taka þessar tegundir í einkasölu. Jeg flyt ekki nú neina till. um þetta atriði, en jeg óska, að hv. nefnd taki þetta til athugunar.

Þó jeg hafi ýmislegt við þetta frv. að athuga, þá hefi jeg þó ekki flutt neinar brtt. við þessa umr. Ástæðan til þess er einkum sú, að jeg er enn mjög í efa um, að rjett sje að afgreiða lög um þetta á þessu þingi, eins lítinn undirbúning og málið hefir fengið. En ef málið gengur ekki fram, er þýðingarlaust að vera að flytja brtt. við það. En ef jeg hinsvegar sje, að málið hefir svo mikið fylgi í hv. deild við atkvæðagreiðslu þá, sem hjer fer fram að þessari umræðu lokinni, að búast megi við, að það gangi fram, þá má vera, að jeg flytji brtt. við frv. til 3. umr.