04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

Þessar síðustu ræður, ræður þeirra hv. 2. þm. Eyf. ( BSt) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), hafa báðar gefið tilefni til margra orða. En jeg ætla í þetta sinn að fara sem fljótast yfir sögu. Hv. 2. þm. Eyf. taldi sig ekki hafa grætt mikið á mínum svörum um undirbúning málsins. Jeg get ekki frætt hv. þm. meir. Það má undarlegt heita, ef margir af þeim mönnum, sem ekki hafa sjerstakra hagsmuna að gæta, en eru á móti frv., hafa ekki látið til sín heyra. Það hefði mátt búast við mótmælum, en þau hafa ekki komið.

Hv. þm. (BSt) gat þess, að það mundi erfitt að ákveða, hverjir þarna ættu eigin hagsmuna að gæta og hverjir annara, og þetta er satt. En þó að við tækjum alla þá, sem síldveiðar stunduðu, eða um 200 manns, eftir því sem hv. 3. þm. Reykv. hefir komist næst, tel jeg það undrun sæta, ef óánægja væri mikil, að andmæli hafa komið aðeins frá örfáum mönnum. Á Akureyri var haldinn fundur af 10 mönnum og þar voru mótmæli gegn frv. feld með 5:3 atkv. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa hjer upp símskeyti frá stjórn útgerðarmannafjelags Akureyrar:

„Fundurinn lýsir ánægju sinni yfir viðleitni Alþingis til þess að reyna að bæta úr þeim vandkvæðum og skipulagsleysi, sem nú er á síldarútgerð og síldarsölu, sem kemur fram í fyrirliggjandi frumvarpi, og treystir því, að við meðferð málsins á þingi takist að bæta úr göllum þeim og agnúum, sem á því eru. Sjerstaklega vill fjelagið benda á nauðsyn þess að skipum, er hafa rjett til að veiða í landhelgi og nota sjer þau rjettindi, sje bannað að hagnýta sjer veiðina annarsstaðar en í landi: ennfremur telur fundurinn nauðsynlegt, ef unt sje, að takmarka söltun og kryddun síldar. Tillagan feld með 5 atkvæðum gegn 5, næsta tillaga feld með 5 atkvæðum gegn 3. Útgerðarmannafjelag Akureyrar tjáir sig eindregið mótfallið hinu framkomna frumvarpi sjávarútvegsnefndar um einkasölu á síld, en er því meðmælt, að bönnuð verði söltun herpinótarsíldar fyrir 25. júlí ár hvert, ennfremur að reynt verði að útiloka sölu Norðmanna á síld til söltunar og kryddunar í landi — “ o. s. frv.

Fyrri tillagan er hrein og bein traustsyfirlýsing og er aðeins feld með jöfnum atkvæðum. Jeg hefi ekki enn orðið var við, að það væru aðrir, sem hafa hreyft andmælum. En það er einkennilegt, að þeir, sem krefjast þess, að það þurfi meira en helming útgerðarmanna til þess að stofna þetta fjelag, en vilja svo ekki sinna frv., þegar aðeins 3 menn eru á móti því. Það er lítið samræmi í þessu. Það hefði ekki undrað mig, þó að 30 menn hefðu mótmælt, því að þetta er stórmál og eðlilegt, að margir sjeu hikandi við að stíga slíkt spor.

Þá er þess og að gæta, að hagsmunir Sigufjarðar eru fyrst og fremst þeir, að þar sje veidd og söltuð síld, og sá kaupstaður gæti ekki staðið árinu lengur, ef síldveiðin liði undir lok. Hitt skiftir Siglufjörð minna máli, hverjir það eru, sem síldina veiða, því að hann græðir altaf á því, að útgerðinni sje haldið áfram. Það er nú að vísu svo, að á Siglufirði eru fáir menn búsettir, er salta nokkuð að ráði fyrir eiginn reikning, og þar eru fáir útgerðarmenn. Hagsmunir hans liggja fyrst og fremst í verslun, bryggju- og hafnargjöldum og útsvörum, sem lögð eru á aðkomumenn. Þess vegna tek jeg minna mark á þeim röddum, er þaðan heyrast í þessu máli, heldur en áliti manna annarsstaðar, enda veit jeg — og það er ekkert efamál. — að Siglfirðingum var meinilla við það, er Norðmönnum var bannað að salta síld í landi. Þeir töldu sjer meiri hagsmuni að síldveiðum Norðmanna heldur en Íslendinga.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) gat um það, að það væri stór agnúi á þessu einkasölufyrirkomulagi, að fjelagið hefði ekki neitt handbært fje í byrjun. Það er rjett, að þetta getur verið slæmt, en þó hygg jeg ekki, að sú ástæða ætti að verða frv. að falli. Að sjálfsögðu verða fjelagslögin þannig, að þau heimila stjórn fjelagsins að taka lán upp á væntanlegan síldarafla.

Þá er og hitt aukaatriði, sem deila má um óendanlega, hvar fjelagið eigi að hafa heimilisfang, á Akureyri, Siglufirði, Ísafirði eða í Reykjavík. En þeir, sem virkilega bera heill atvinnuveganna fyrir brjósti, ættu ekki að láta þetta atriði verða að sundrungarefni.

Þá sagði hv. þm. (BSt) að einkasalan yrði of víðtæk. Nefndin hugsaði mikið um þetta atriði og jeg var sjálfur lengi þeirrar skoðunar, að einkasalan ætti ekki að ná til kryddsíldar. En eftir því, sem jeg hugsaði betur um málið sá jeg, að ekki varð hjá því komist. Ef frv. þetta verður að lögum og fjelagið á að geta leyst hlutverk sitt vel af hendi, þá verður það að ráða yfir allri síld, hvernig sem hún er verkuð.

Okkur háttv. þm. Borgf. (PO) ber ekki mikið á milli, en þó var eitt atriði í ræðu hans, er ekki var rjett. Hann áætlaði sem sje, að Norðmenn veiddu 2/5, hluta allrar síldar hjer við land. Það er hæpið að áætla slíkt. Norski flotinn, sem síldveiðar stundar hjer, er misjafnlega stór frá ári til árs. Hann er auk þess meir háður vindi og veðri heldur en íslensku skipin, sem leggja afla sinn á land. Það er því engin leið að áætla fyrir lok síldveiðatímans, hve mikið Norðmenn muni veiða, nje hvert hlutfall er milli veiðar þeirra og Íslendinga. Og þetta verður enn erfiðara vegna þess, að ómögulegt er að fá nákvæmar skýrslur um það, hve mörg skip fari frá Noregi hingað til síldveiða, fyr en eftir vertíðarlok.

Við ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefi jeg margt að athuga. Hann endurtók það nú, að upphaflega frv. hafi ekki að neinu leyti haft fyrir augum hagsmuni veiðimanna, heldur aðeins „spekulanta“. Þessu mótmæli jeg algerlega, því að það hlýtur að verða beggja hagur, að síldin hækki í verði. Það getur að vísu komið fyrir, að fyrsta árið verði ekki jafnmikil eftirspurn eftir nýrri síld til söltunar og verið hefir, en þá er líka síður hætt við, að of mikið verði saltað og allir tapi fje. En verði frv. þetta ekki samþykt, geta örfáir útlendingar skamtað síldveiðimönnum verð úr hnefa, og jeg álít, að þótt verðið sje í fyrstu lágt hjá innlendum mönnum, þá sje það betra heldur en láta útlendinga gína yfir gróðanum, enda mun verð á nýrri síld hækka á næsta ári, ef sæmilega gengur með fjelagsskapinn, enda er þetta einn aðaltilgangur með frumvarpinu.

Þá talaði sami hv. þm. (JakM) mikið um það, að allir útgerðarmenn, þ. e. a. s. þeir, sem gera út skip til veiða, hafi ekki atkvæði í fjelaginu. Þetta finst mjer ekki skifta svo miklu máli, enda ekki hægt að koma því svo við, að í lagi sje. Og mjer finst ekki nein sjerstök ástæða til þess að láta t. d. 20–30 útgerðarmenn, sem aðeins veiða síld til bræðslu, hafa atkvæðisrjett í fjelagi útflytjenda. Þeir ættu þá aðallega að hafa atkvæðisrjett um verð á nýrri síld, en mikið efamál, hvort það væri rjett, því að verð á henni gæti þá farið upp úr öllu valdi, enda þótt verð á saltsíld væri fyrir neðan allar hellur.

Í byrjun verða allir að vera samtaka um það að gera síldina svo ódýra, að hún geti verið samkepnisfær á erlendum markaði. Af þeirri ástæðu má því fyrir mitt leyti samþykkja það, að útgerðarmenn hafi líka atkvæðisrjett í fjelaginu, og sje það eitt nægilegt til þess að útiloka ágreining um málið hjer, þá skal jeg greiða því atkvæði.

Þá skal jeg minnast á undirbúning þessa fjelagsskapar. Hv. 3. þm. Reykv. hneykslaðist mjög á því, að við hefðum ekki safnað saman helmingi þeirra manna, er við síldveiðar og verslun fást. Það er erfitt að gera það í einu hendingskasti, en ekki er útilokað, að það verði gert. Frv. er ekki komið í gegnum þingið ennþá, og verður hægt að ná til fleiri manna áður en það verður að lögum, og eins má safna mönnum í fjelagið á eftir. Þó er í þessu efni eitt athugavert atriði. Samkvæmt núgildandi löggjöf eru Danir og Færeyingar jafnrjettháir og Íslendingar og hafa stundað hjer þessa atvinnu síðastliðið ár og ætla sjer að gera það í sumar. Ef á að leita til allra, sem uppfylla skilyrðin fyrir því að ganga í fjelagið, áður en það er stofnað, yrði þá líka að leita til þessara manna, en það getur tekið tíma að smala þeim saman.

Jeg er þakklátur háttv. 3. þm. Reykv. fyrir það, að hann játaði, að fyrir okkur mundi ekki vaka annað en umhyggja fyrir þeim mönnum, er þessa atvinnu stunda. Því að það hefði að sjálfsögðu mátt gera okkur getsakir, og eins og umr. fara stundum hjer á hinu háa Alþingi, megum við vera þakklátir fyrir það að hafa sloppið enn brigslyrðalaust.

Jeg get fullvissað háttv. þm. (JakM) um það, að við sjáum nú sem stendur engin önnur ráð en þetta til þess að bjarga íslensku síldarútgerðinni. Og þótt nú sje kvartað um fólksleysi í sveitunum, þá ber þess að gæta, að allur þorri þess fólks, sem síldaratvinnu stundar, er algerlega óvanur sveitavinnu og getur því ekki horfið að henni, ef síldarvinnan bregst. En þótt svo væri ekki, gæti ekki helmingurinn af síldarvinnufólki fengið atvinnu í sveitunum, skyldu síldveiðarnar leggjast niður. Og reynslan hefir sýnt, að ekki er í annað hús að venda fyrir þetta fólk, því að um síldveiðitímann er mjög örðugt að reka nokkra aðra útgerð. Þess vegna verður að neyta allra bragða til þess að bjarga síldarútveginum frá kaldakoli.