05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi við þessar tvær umr., sem liðnar eru um þetta mál, ekki tekið til máls. En þar sem skoða má þetta frv. sem svar við þáltill., sem jeg flutti snemma á þinginu, get jeg tæplega látið málið fara út úr deildinni án þess að segja örfá orð.

Jeg vildi þá fyrst þakka háttv. sjútvn. fyrir það, að hún vill reyna að greiða úr þessu máli, bæta úr þeim agnúum, sem verið hafa á þessum atvinnuvegi undanfarin ár. En jeg býst við, að þetta verði erfitt í framkvæmdinni og hæpið, að þetta verði til nokkurra verulegra bóta, eða geti orðið til þess að styðja þessa atvinnugrein eins og þörf væri á, gera hana tryggari og öruggari. Jeg lít svo á, að fullkomnar endurbætur geti ekki komist á nema gengið sje enn lengra í þessum umbótum. Jeg hygg, að ekki verði hægt að koma góðu skipulagi á þennan atvinnurekstur nema þjóðfjelagið eða fjelög kaupi síldarverksmiðjurnar. Meðan útlendir menn hafa öll ráð á rekstrinum, býst jeg ekki við, að þetta geti orðið að fullkomnu gagni. Það má vera, — og vona jeg það með hv. meiri hl. nefndarinnar, — að þetta sje spor í rjetta átt og bæti að einhverju leyti úr. En jeg vona það, ef önnur heppilegri leið verður fundin, þá verði hún undir eins tekin og alt gert, sem hægt er, til þess að ráða hjer bót á. Nefndin á þakkir skilið fyrir, að hún vill gera sitt til þess að koma betra skipulagi á síldarmálin. Mjer er það vel ljóst, að það er ekki hægt á stuttum tíma að koma hjer skipulagi á, sem að haldi má koma. Það tekur vafalaust nokkurn tíma að koma þessu í kring, með kaup á verksmiðjunum o. fl., hvort sem það er nú ríkið eða fjelag einstakra manna, sem gerir það. Og það myndi kosta mikið fje. En væri hægt að ráða fram úr þessum málum á annan hátt, teldi jeg það vel farið. En jeg verð að játa, að sú leið, sem hjer er lagt til, að farin verði, að jeg hefi ekki trú á, að hún komi að fullu haldi, en jeg vona þó, að hún bæti nokkuð úr mestu ókostunum á því skipulagi, er verið hefir og mönnum hefir lítt verið viðráðanlegt.

Jeg býst við, eigi gott skipulag að komast hjer á, að þá þurfi þeir menn, er mál þetta hafa til meðferðar, að hafa heimild til þess að takmarka síldarsöltunina og grípa inn í, ef nauðsyn þykir. Þó eigi sje hjer farin sú leið, er jeg benti á og sem jeg hefi mesta trú á, að að gagni megi koma, þá harma jeg það ekki svo mikið í sjálfu sjer í þetta sinn. Jeg vona, að hjer sje spor stigið í rjetta átt til frekari undirbúnings og fullkomnunar þessa atvinnuvegar. Með þetta fyrir augum ætla jeg að greiða frv. atkv.