12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

110. mál, sala á síld o. fl.

Einar Árnason:

Það er svo að sjá, sem eigi að verða nokkuð hastarleg afgreiðsla þessa máls. Mig furðar á, að nefndin skuli svo fyrirvaralaust mæla með frv. Ef jeg man rjett, var málið hjer í deildinni til 1. umr. fyrir einum 5 dögum. Og sama dag og það var til l. umr. held jeg, að nefndin hafi gefið út nál. um málið. Hún hefir því ekki haft nema örlitla stund til þess að athuga það. Þetta væri nú sök sjer, ef málið væri búið að dvelja svo lengi í þinginu, að nefndin og þdm. hefðu getað haft tíma til þess að átta sig á því. En frv. kom fyrir stuttu fram í þinginu; það má segja, að það hafi komið eins og þjófur á nóttu.

Jeg held, að fáir eða engir af þeim mönnum, sem frv. snertir, hafi haft hugmynd um, hvað væri á seiði. Og jafnóvitandi munu þingmenn hafa verið um þetta mál.

Þegar frv. var svo tekið fyrir í hv. Nd., var það rekið áfram með afbrigðum frá þingsköpum. En undir þessari hröðu meðferð voru þó gerðar á því allverulegar breytingar. bæði við 2. og 3. umr. Eftir að málinu var lokið í hv. Nd., var það tekið fyrir hjer og sett í nefnd. Samdægurs kom svo nál., eins og jeg gat um áðan, þess efnis, að nefndin leggur til, að frv. verði samþykt óbreytt. Þar sem nú í Nd. þótti ástæða til að breyta frv. allverulega, gæti maður ætlað, eftir afgreiðslu þess þar, að það væri ekki svo fullkomið, að ekki mætti betur gera, og enn væru gallar, sem nauðsynlegt væri að laga. En sjútvn. leist þetta á annan veg.

Hv. frsm. (JJós) hefir nú gert nokkra grein fyrir afstöðu nefndarinnar til þessa máls. En jeg gat þó ekki betur fundið á ræðu hans en að honum væri óljúft að mæla með því. Aðalröksemd hans fyrir því, að rjett væri að samþykkja frv., var sú, að það kæmi í veg fyrir leppmensku. Ef svo væri, þá verður því ekki neitað, að frv. á rjett á sjer. En jeg geri mjer nú ekki mikla von um, að leppmenskunni verði útrýmt með því. Jeg held, að örðugt sje að gera sjer grein fyrir því, hverjir eru leppar og hverjir ekki. Mörkin eru ekki svo skýr, að hægt sje að greina þar á milli.

Háttv. frsm. tók það fram, að frv. væri aðeins heimild, sem ekki þyrfti að koma til framkvæmda, og virtist hugga sig við það, að ábyrgðin hvíldi á stjórninni. En jeg verð nú að segja það, að jeg held, að stjórninni verði enginn greiði gerður með því að fá málið þannig í sínar hendur. þegar svo allri skuldinni verður skelt á hana, ef óhönduglega tekst til.

Þá mintist háttv. frsm. á það, að mótmæli hefðu komið fram gegn frv., en heldur þótti honum þau þróttlítil og ekki á rökum bygð. Hann tók það fram, að í einu mótmælaskjalinu væri sagt, að síldarsölumálinu væri með frv. þessu stofnað í tvísýnu. Vildi hann álíta, að það, að stofna málinu í tvísýnu, væri betra en það ástand, sem nú er. Jeg held, að þetta sje nú alls ekki rjett útskýring á hugtakinu „að stofna í tvísýnu“. Jeg held, að það verði alment skoðað svo, að það, að stofna einhverju í tvísýnu, væri að gera ástandið verra en það er. Jeg get að minsta kosti ekki skilið það á annan veg.

Þó að þetta sje nú 2. umr., ætla jeg ekki að fara neitt út í hinar einstöku greinar frv., af því að engar brtt. liggja fyrir. Jeg vil þó aðeins drepa á stærstu drættina í málinu eins og það kemur mjer fyrir sjónir. En því er nú eins farið með mig og háttv. sjútvn., að jeg hefi ekki mikla sjerþekkingu á þessu máli, en jeg hefi kynt mjer ýmislegt, sem skrifað hefir verið um það, t. d. ýmsar uppástungur, sem nauðsynlegar hafa þótt til þess að koma fastara skipulagi á síldarverkun, síldarsöltun, sölu og útflutning. Mörgum þeirra, er við þessi mál hafa fengist, hefir fundist, að þessum hlutum sje ekki eins fyrir komið og þeir ættu að vera og hafa sjeð, að umbætur eru nauðsynlegar; en skoðanirnar eru mjög skiftar um það, hvernig ráðin skuli bót á því skipulagsleysi, sem nú á sjer stað í þessum efnum. Það er og ofur eðlilegt, að skoðanir manna um þetta sjeu skiftar; þetta eru mikil hagsmunamál fyrir mörgum, og hagsmunirnir eru ekki nærri alstaðar þeir sömu. Þetta er eitt hið mesta vandamál og mjög er erfitt að finna það skipulag eða koma því á, sem allflestum, er þessa atvinnu stunda, geti geðjast að eða orðið ánægðir með; en það er svo með þetta sem annað, að sá einn fjelagsskapur gengur vel, sem af viljugum er til stofnað.

Þá er eitt atriði viðvíkjandi þessu frv., sem jeg vil víkja að nokkrum orðum. Það er þátttaka útgerðarmanna í undirbúningi þessa máls og við samning frv. þessa. Jeg gat þess áðan, að þeir mundu fáir hafa komið þar að og yfir höfuð lítt verið kvaddir til ráða, en jeg álít, að það megi ekki gleyma útgerðarmönnunum í þessu sambandi, og allra síst smærri útgerðarmönnum, því útgerðin er þó og verður ávalt undirstaðan undir allri síldarverslun.

Það er greinilegt, að útgerðarmenn yfirleitt, og sjerstaklega á Norðurlandi, eru mjög andvígir þessu máli. Jeg ef því hræddur um, að afleiðing þess, ef frv. verður samþ., verði sú, að ýmsir menn sem áður hafa rekið útgerð og ef til vill hafa einnig ætlað að gera út í sumar, hætti algerlega við þennan atvinnuveg, og verða það sjerstaklega ýmsir hinir smærri útgerðarmenn. — Nú er þess að gæta, að þetta mál er svo seint fram komið, að allflestir, sem hugsa til útgerðar í sumar, eru þegar farnir til eða búnir að búa sig undir útgerðina á ýmsan hátt. Jeg get ekki í svipinn sjeð annað en að samþykt þessa frv. hljóti að koma í bága við ýmsa samninga, sem nú er líklegt, að þegar hafi verið gerðir, og geti orðið til þess að ókleift verði að halda þá. Því er svo varið með marga, sem fást við þessa tegund útgerðar, að þeir geta ekki fengið nægilegt fje til rekstrar útgerðinni hjer innanlands. Jeg veit, að margir hafa aðeins getað gert út með þeim hætti, að þeir hafa fengið að láni tunnur og salt gegn tryggingu í veiðinni; þó þannig, að þeir hafa verið frjálsir um alla sölu á síldinni.

Jeg get vel hugsað mjer, að öllum slíkum samningum yrði riftað, ef frv. verður að lögum og þeir útgerðarmenn, sem þarna eiga í hlut, verða að hætta við alla útgerð.

Þá er enn annað atriði, sem jeg vil minnast á. Það virðist ekki á neinn hátt vera trygt í frv., að þeir, sem láta af hendi síld til sölu geti fengið nokkurn hluta af andvirði síldarinnar um leið og hún er afhent, og þeir verða því að bíða lengi og um óákveðinn tíma eftir því að fá að vita, hvernig salan gengur, og þeim verður ókleift að greiða starfsfólki sínu vinnulaun eða að inna af hendi aðrar greiðslur, sem á útgerðinni hvíla, vegna þess að þeir hafa bundið alt sitt fje í henni. Jeg þori ekki að fullyrða, að fjelagið geti ekki aflað sje fjár til að greiða sitthvað af andvirði síldarinnar fyrirfram, en um þetta stendur ekkert í frv. En jeg geri ráð fyrir, eins og ástæður bankanna eru nú, að þetta muni ganga allerfiðlega. Þá gæti jeg trúað, að samþykt frv. gæti orðið til þess, að útgerð erlendra manna, sem stunda veiðar utan landhelgi, mundi aukast að mun, og við það mundi ríkissjóður missa mikilla tekna, og auk þess yrði þessi útgerð ekki síður til þess, að fylla um of síldarmarkaðinn en innlenda útgerðin.

Þar sem komið er svo nærri þinglokum, hefi jeg ekki getað sjeð, að það væri til neins að bera fram brtt. við frv.: annaðhvort verður það að samþykkjast í þeirri mynd, sem það nú er í, eða það gengur ekki fram að þessu sinni, og af því að jeg tel þetta mál hvorki hafa verið nógu vel athugað hjer í þinginu nje nógu vel undirbúið áður en það kom inn á þing, get jeg ekki greitt því mitt atkvæði eða mælt með því á neinn hátt, jafnvel þó að hugmynd sú, sem að baki því stendur, eigi nokkurn rjett á sjer. Þar sem flestir þeirra, sem frv. þetta tekur til, hafa haft tækifæri til að láta skoðun sína á málinu í ljós, legg jeg til, að málið verði afgreitt með svofeldri rökstuddri dagskrá:

Með því að mörgum þeim útgerðarmönnum, er stunduðu síldveiði á síðastliðnu ári, eða ætla að stunda hana á þessu sumri, hefir ekki gefist kostur á að taka þátt í undirbúningi þessa frv., og þeir hinsvegar hafa mælt eindregið á móti framgangi þess, og með því ennfremur, að svo fyrirvaralitlar ráðstafanir hljóta að kollvarpa ýmsum þeim ráðstöfunum og samningum, sem þegar kunna að hafa verið gerðar af hálfu ýmsra útgerðarmanna vegna síldveiða á þessu ári, þá sjer deildin ekki fært að samþykkja nú þetta frv., og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.