12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jónas Jónsson:

Af því jeg hafði lofað hv. 1. þm. G.-K. (BK) í umræðum um annað mál að drepa örlítið á eitt atriði skylt þessa máli, samvinnufjelagsskapinn, en þá var jeg „dauður“ í þeim umræðum, vil jeg nota þetta tækifæri til þess. Þegar samvinnulögin voru hjer á ferðinni um árið, sýndi þessi hv. þm. mikinn áhuga á því máli, enda var það frv. samþykt með öllum atkvæðum við aðra umræðu hjer í deildinni. (Forseti : Jeg vil biðja hv. þm. að halda sjer við það mál, sem er til umræðu). Jeg mun og gera það, en mál það, sem hjer er til umræðu, er einskonar samvinnufjelagsskapur, en þessi háttv. þm. (BK) hefir játað, að hann var með því máli við 2. umr. þess, þó hann hafi snúist í því síðar.

Jeg sá hæstv. fjrh. (JÞ) greiða atkv. í Nd. á móti samvinnulögunum 1921, aðeins til að standa við sitt „princip“, að vera móti öllu, sem ekki er hrein og bein samkepniskaupmenska. Hv. 1. þm. G.-K. hefir talið frv. þessu til gildis, að það væri samvinna. Hann mun því ætlast til, að þegar hann snýst þannig endanlega til fylgis við þá stefnu, sem hann af veikum mætti hefir hatað og ofsótt, verði samvinnumenn að styðja hann og fjelaga hans á hinni nýju dygðabraut. Munum við margir gera það, þó að margir annmarkar sjeu á þessu kjöltubarni samkepnismanna. Hjer er um að ræða sambland af einkasölu, hring og samvinnufjelagsskap og þó að þetta sambland sje ekki gott, er það þó spor í rjetta átt.

Jeg get fullkomlega tekið undir með þeim, sem styðja þessa tilraun, og játað, að ástand síldarverslunarinnar er ekki gott. Jeg sagði, að frv. væri spor í rjetta átt út úr því ástandi, sem nú er; hjer er ella völ á tvennu öðru, hvorutveggja illu — útlendri leppmensku eða skipulagsleysi meðal innlendra framleiðenda, sem svo eiga að keppa við erlenda síldarhringa, en eru algerlega vanmáttugir. Fyrirkomulag frv. er að vísu ekki gott, en þó játa jeg að þetta er góð tilraun, og ætla ekki að þessu sinni að tefja það með brtt.; annaðhvort verður nú þegar að samþykkja þetta frv. eða það dagar uppi. Þetta verður að þokast í þá átt með tímanum, að sem allra flestir atvinnurekendur taki þátt í þessum fjelagsskap, líkt og í samvinnufjelögunum. Þar sem þetta er tilraun til að brjótast út úr þeirri ófæru, sem þessi atvinnuvegur er kominn í, tel jeg, að það sje rjett hjá nefndinni að binda ekki leyfið við langan tíma.

Þessi fjelagsskapur hlýtur að verða með tilraunablæ fyrst um sinn, og getur verið, að það gangi illa að ná mönnum saman í fjelagið, þar sem margt þessara manna hefir áður átt í samkepni hverjir við aðra, og því getur verið erfitt fyrst í stað að fá þá til að sameina sig í eitt fjelag.

Jeg vil í þessu sambandi benda á, að það var hjer einu sinni einskonar einkasala á útfluttum fiski, og kom þá upp allmikil tortrygni gegn nefnd þeirri, sem sá um söluna, vegna þess að í henni átti sæti maður, sem var fiskkaupmaður. En þetta eru barnasjúkdómar, sem menn verða að vaxa upp úr. Mjer skilst, að frv. sje borið fram af útgerðarmönnum vegna þess að þeir hafi tapað á útgerðinni og telji þetta eina ráðið til bjargar, ef þeir eigi ekki að gefast upp eða sligast í samkepninni. Það hefir oft komið fyrir, að útlendir atvinnurekendur hjer og „leppar“ þeirra hafa selt sína síld með ágóða, en innlendir menn hafa ekki getað selt nema með stórtapi. Jeg hefi t. d. heyrt getið um einn mótorbátseiganda, sem var orðinn auðugur af mótorbátaútgerð, að hann hafi skaðast á síldarútgerð frá Siglufirði í fyrra um ca 40 þús. krónur. Þessi maður var í fyrstu mjög andstæður steinolíueinkasölunni, en þegar honum gekk illa í frjálsri samkepni með síldina, gerðist bann þar einkasölumaður.