14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

110. mál, sala á síld o. fl.

Sigurður Eggerz:

Mjer skildist það helst á hv. þm. Vestm., að þetta frv. væri gert til þess að koma í veg fyrir leppa. En jeg sje ekki nokkurn skapaðan hlut í vegi fyrir því, að 20 leppar myndi fjelag með sjer og taki í sínar hendur alla síldarsöluna. Hvar er það útilokað? En ef þeir fá verslunina hvaða gagn er þá að frv.? Mjer sýndist líka svitadropar drjúpa af enni hv. þm., er hann talaði á móti frjálsri verslun. En þá er líka sannarlega betra að tala frá hjartanu og taka hreinni afstöðu. Ef vandræðin leysast altaf best með einokun, þá er betra að stíga sporið hreinlega og setja á stofn ríkiseinokun, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vill gera. Hv. þm. Vestm. sagði, að frjáls verslun væri bara orð. Það eru sannarlega lítil meðmæli með frjálsri verslun, þegar maður, sem altaf hefir haldið henni fram, segir, að hún sje bara orð, orð. Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Jeg skal bara geta þess aftur, að jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að útlendir leppar geti tekið í sínar hendur alla síldarverslunina samkv. þessu frv.