24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Klemens Jónsson:

Jeg ætla að feta í fótspor hæstv. atvrh. (MG) og beina nokkrum fyrirspurnum til hv. landbn. Jeg hefi nú verið nokkuð riðinn við Alþingi síðustu 30 árin full, en minnist þess ekki að hafa sjeð nál. svipað því, sem hjer er fram komið frá háttv. landbn. þar eru bornar sakir á utanþingsmann, framkvæmdastjóra Búnaðarfjelags Íslands, er telja má trúnaðarmann fyrst og fremst fjelagsins og þar næst Alþingis og stjórnarinnar í búnaðarmálum. Það er sagt um hann, að hann hafi „af ástæðum, sem ekki eru kunnar, slept, að því er virðist viljandi, þvert ofan í samþykt búnaðarþingsins, einkasölu þeirri, er Búnaðarfjelagið hefir haft á Noregssaltpjetri.“ Ennfremur er sagt, að hann hafi dulið fjelagsstjórnina þess nær hálft annað misseri. Nú vil jeg spyrja hv. frsm. landbn. (JS) að því, hvort ekki er hægt að fá að vita ástæðurnar, sem voru þess valdandi, að framkvæmdarstjórinn slepti þessari einkasölu úr höndum Búnaðarfjelagsins. Þetta hefir mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn íslenska. Það er ekki sama, hvort Búnaðarfjelagið eða kaupmaður hefir áburðinn í einkasölu. Það má gera ráð fyrir því, að Búnaðarfjelagið útvegi áburðarnotendum besta fáanlegt verð á áburðinum, en því sama er ekki hægt að búast við af kaupsýslumanni eða firma, og er heldur ekkert við því að segja. Það er ekki nema eðlilegt, þó það reyni að hafa einhvern hag af sölunni. Með því að jeg er fulltrúi fyrir landbúnaðarkjördæmi, þá finst mjer jeg eiga heimting á að vita, hvað gerst hefir í þessu máli, til þess að geta svarað spurningum frá kjósendum mínum um þetta efni, er jeg kem til fundar við þá. Jeg álít hjer komnar fram svo alvarlegar kærur á hendur framkvæmdastjóranum, að hann eigi að sæta viðurlögum, ef þær eru sannar, t. d. víkja honum frá. Jeg veit ekki, hvort orðin í nál. benda til þess, að slíkt sje í ráði, þar sem sagt er, að nefndin gangi út frá því, að Búnaðarfjelagið hafi fleiri framkvæmdastjórum á að skipa, er treysta megi. Sem sagt, ef hann er sannur að sök, þá á hann að bæta fyrir, en ef hann er saklaus, þá á hann að fá að koma vörnum fram og fá uppreist, og nefndin er þá skyld að veita honum hana. Jeg vil fá að vita eitthvað um þetta, og jeg hugsa, að það sjeu fleiri þm. hjer en jeg, sem hafa furðað sig á þessu og þyki þetta nokkuð illa upplýst. Jeg vil því mælast til þess, að hv. frsm. landbn. (JS) gefi þær upplýsingar hjer, sem honum þykir fært, en ef þær eru þess eðlis, að honum þyki ekki hlýða að koma með þær hjer opinberlega, þá fái þm. þó að minsta kosti að heyra þær af vörum nefndarinnar.