24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (1981)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg bjóst ekki við því, að þurfa að taka aftur til máls í þessu máli. Jeg gat að vísu búist við, að eitthvað mundu verða dregin inn í umræðurnar þau tíðindi, sem gerst hafa í máli þessu og á er drepið í nál., en jeg bjóst ekki við að þurfa að tala. Jeg á ekki sæti hjer sem formaður stjórnar Búnaðarfjelags Íslands, heldur sem þingmaður Strandamanna. Jeg lít svo á, að jeg eigi að standa reikningsskap gerða minna sem formaður Búnaðarfjelags Íslands við hv. landbúnaðarn. það hefi jeg gert. Landbúnaðarn. hefir óskað eftir skýrslu frá mjer og meðstjórnendum mínum. Jeg hefi komið á fundi hjá landbúnaðarn. beggja deilda og látið í tje allar þær skýrslur, sem um hefir verið beðið. Jeg veit ekki til þess, að af hálfu nefndanna hafi verið gerðar nokkrar athugasemdir við skýrslur mínar nje meðstjórnenda minna, enda hefir þeim borið saman í einu og öllu. En nú hefir hæstv. atvrh. (MG). beint til mín fyrirspurn út af þessu. Jeg er satt að segja ennþá í vafa um, hvernig jeg á að svara. Formlega er það landbn., sem jeg á að gefa skýrslu, en ekki hjer. En af því að það er atvinnumálaráðherra, sem spyr, og jeg, sem formaður Búnaðarfjelags Íslands, vil hafa góða samvinnu við hann á því sviði, þá skal jeg gjarnan svara honum, ef hann æskir þess, þó að jeg hafi nú engin gögn í höndum til þess. (Atvrh. MG: Þm. hefir heyrt fyrirspurn mína). Hæstv. atvrh. spurði, hvað jeg hefði gert til þess að framfylgja ályktun Búnaðarþingsins frá því í fyrra, eftir að jeg varð formaður. Nú geri jeg ráð fyrir því, að hæstv. atvrh. hafi veitt því eftirtekt, að þessi tíðindi gerðust rjett um sama leyti og Búnaðarþingið stóð yfir í fyrra, sem sje í febrúar og byrjun mars 1925. En jeg man nú ekki, hvaða dag jeg var kosinn formaður, því að jeg hefi ekki gögn um það við höndina, en áreiðanlega hafa a. m. k. fyrstu sporin, ef ekki öll, til þess að afsala umboðinu, verið stigin áður en jeg varð formaður. Og það var, eins og margtekið hefir verið fram, gert algerlega á þak við Búnaðarfjelagsstjórnina. Rjett eftir búnaðarþing kemur að því að ráðstafa Noregssaltpjetrinum fyrir vorið 1925, þá komu á fund með Búnaðarfjelagsstjórninni stjórn Mjólkurfjelags Reykjavíkur og maður frá firmanu Nathan & Olsen. Stjórnin leit svo á, að stjórn Mjólkurfjelagsins væri rjettur aðili af hálfu notenda og vildi því, að þessi tvö firmu töluðust við um skipulag áburðarsölunnar um vorið. — Árangurinn af þessu varð sá, að stjórn Mjólkurfjelagsins varð ásátt um það við firmað Nathan & Olsen, hvernig þessu ætti að ráðstafa, og því litum við svo á, að vel væri fyrir sjeð. Stjórn Búnaðarfjelagsins vissi þá ekki annað en að hún hefði fullan ráðstöfunarrjett yfir áburðinum eins og að undanförnu. Hygg jeg, að það muni koma fram í fundargerðum fjelagsins.

Svo kom þetta ekki til aftur, fyr en átti að fara að kaupa áburð fyrir vorið 1926. — Jeg get þess nú um leið, að jeg átti oftar en einu sinni tal um þetta við búnaðarmálastjóra sumarið 1925, að við yrðum að skipa þessu máli forsvaranlega á þeim grundvelli, sem Búnaðarþingið hefði ætlast til, og ljet hann þess þá aldrei getið, að nokkur breyting hefði orðið frá því, sem áður var með þetta. — Svo var í haust seint fundur haldinn á skrifstofu Búnaðarfjelagsins, með stjórn Mjólkurfjelags Reykjavíkur, og gengum við þá út frá því, að við gætum haft öll umráð yfir sölu Noregssaltpjeturs hjer, eins og við þóttumst hafa haft 1925. Þá fyrst lætur búnaðarmálastjóri þess getið, að vafasamt sje, að við getum haft íhlutun um áburðarverslunina. Símaði jeg þá þegar, sem formaður stjórnarnefndarinnar, til Norsk hydro, og óskaði að fá pantað það af saltpjetri, sem við gerðum ráð fyrir að þyrfti. Fjekk jeg svar um hæl, að það gæti ekki tekist, því að Nathan & Olsen væru búnir að fá einkaumboð fyrir fjelagið. Sáum við þá, hvernig komið var. Kom það mjög til orða, að einn stjórnarnefndarmaðurinn, Vigfús Einarsson, sem er varamaður skrifstofustjórans í atvinnumálaráðuneytinu, yrði sendur út, til þess að reyna að kippa þessu í lag. En vegna veikinda skrifstofustjórans gat hann ekki farið, og aðrir stjórnarnefndarmenn gátu heldur ekki farið. Í stað þess var Norsk hydro enn símað um málið, og meðal annars svaraði það, að umboðið hefði gengið úr greipum Búnaðarfjelags Íslands í febrúar 1925. Með fyrstu ferð ritaði jeg Norsk hydro mjög rækilega um málið, og síðan var einn af ráðunautum Búnaðarfjelagsins, sem samhliða átti ferð fyrir höndum til útlanda, sendur til þess að túlka málið, og með umboð til þess að reyna að kippa því í lag. Síðan hefir þessi maður rannsakað málið ítarlega og sent ítarlega skýrslu um það, sem kom hingað í síðastliðnum marsmánuði og var afhent landbúnaðarnefnd, og síðan kom önnur skýrsla frá þessum manni, sem líka var afhent þeirri nefnd. Jeg ritaði öllum búnaðarþingmönnum um málið og óskaði að fá að heyra álit þeirra um það, hvað gera skyldi í þessu máli, en þessi svör frá búnaðarfjelögunum voru ekki komin í hendur stjórnar Búnaðarfjelags Íslands fyr en í marsmánuði, og þá leit jeg svo á, að það mundi geta komið til mála, að landbn. Alþingis ætti að kjósa menn í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, og vildi jeg að minsta kosti ekki, að neitt stæði í vegi fyrir því. Þess vegna var það ákveðið að leggja það í vald landbn. beggja deilda, hvort þær vildu kjósa nýja menn í stjórn Búnaðarfjelags Íslands, og það hafa þær ekki gert enn. Sem sagt, skýrslurnar eru ekki komnar til mín fyr en á að ákveða það, hvort landbn. eigi að kjósa menn í stjórn fjelagsins, og jeg vildi ekki gera neitt, sem varðaði framtíð fjelagsins, áður en það væri ákveðið, hvort jeg sæti í stjórn fjelagsins eða ekki. Jeg gerði ekki ráð fyrir því að fara að ræða þetta mál, af því að jeg taldi, að landbn. Alþingis hefði tekið á móti skýrslum í þessu máli, en mjer fanst það ekki rjett, þegar hæstv. atvrh. (MG) óskaði sjer

staklega eftir, að jeg skýrði frá því, hvað jeg hefði gert í þessu máli, að skorast undan að gera það. Vona jeg, að jeg geti haft fyllri gögn við 3. umr.