24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get verið hv. þm. Str. (TrÞ) þakklátur fyrir, að hann hefir svarað þessari fyrirspurn minni. Mjer skilst af svari hv. þm. (TrÞ), að hann taki að öllu leyti undir það, sem í nál. stendur, og hefir hann þó, að mjer skilst, farið þó nokkuð lengra. Hv. þm. (TrÞ) kvaðst vera í vafa um, hvort hann ætti að svara þessari fyrirspurn. Jeg veit ekki hvers vegna. Jeg spurði, hvað hann hefði gert, og jeg skil ekki annað en að hverjum manni sje ljúft að skýra frá því, hvað hann gerir sem opinber starfsmaður, og það er rjett að gefa skýrslu um slíkt hjer á Alþingi, þar sem Búnaðarfjelagið hefir mikið fje til umráða, sem veitt er úr ríkissjóði. En jeg verð að segja það, að mjer fanst innihaldið í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ) vera það, að bera sakir á búnaðarmálastjóra, en af sjer. það, sem jeg vildi vita, var aðallega það, hversu skjótt hann hefði brugðið við, eftir að búnaðarþinginu í fyrra sleit, um að halda þessu sambandi við Norsk hydro. Mjer er kunnugt um það, að síðasta dag Búnaðarþingsins kom fram ágreiningur um það á fundinum, hvort Búnaðarfjelag Íslands hefði í rauninni þetta umboð eða ekki, og mjer er kunnugt um það, að búnaðarmálastjóri hjelt því þá fram, að Búnaðarfjelagið hefði það ekki, en aftur á móti mun hafa komið símskeyti frá Norsk hydro, þar sem það segir, — jeg man ekki orðin nákvæmlega —: „Intet Agenturforhold“, en búnaðarmálastjóri hafi eingöngu selt fyrir Norsk hydro undanfarið. Að svo vöxnu máli sje jeg ekki annað en að full ástæða hefði verið til að síma þegar í stað til Norsk hydro og biðja um, að fjelagið fengi að halda þessu sambandi áfram. Jeg man nú ekki upp á hár, hvaða dag Búnaðarþinginu var slitið, en mig minnir, að það væri 21. febr., og það hefði sennilega verið nægilegt að skrifa þá strax, en undir öllum kringumstæðum hefði verið nóg að senda símskeyti. Hv. þm. Str. (TrÞ) segir, að það hafi verið 7. mars, sem umboðið var látið af hendi til firmans Nathan & Olsen; jeg þori ekki að fullyrða neitt um það, því að jeg hefi ekki sjeð þessi skjöl, en mjer hefir verið tjáð, að þann dag hafi verið dagsett brjef til Búnaðarfjelags Íslands, frá Norsk hydro, um það, hvort Búnaðarfjelagið óskaði að halda áfram þessu umboði, en brjef hefi jeg sjeð frá Norsk hydro, dags. 7. mars, þar sem það segir, að firmað Nathan & Olsen hafi fengið þetta umboð, og 21. mars svarar það fyrirspurn hjeðan að heiman, með því að vísa til Nathan & Olsen, svo að þetta hefir þá gerst á tímabilinu frá 7.–21. mars. Jeg man ekki, hvenær hv. þm. Str. (TrÞ) var kosinn formaður Búnaðarfjelagsins, og það má vel vera, að það hafi ekki verið fyr en eftir þann tíma. En þar sem hv. þm. (TrÞ) átti sæti á Búnaðarþinginu, vissi hann auðvitað vel um alt, sem þar fór fram, og einmitt þetta, að hv. þm. Str. segir, að stjórn fjelagsins hafi, jafnvel í desember 1925, — tíu mánuðum eftir að Búnaðarþingið samþykti ályktun sína, — haldið, að alt stæði við það sama. Það sýnir einmitt, að hv. þm. (TrÞ) hefir aldrei skrifað Norsk hydro á þessum 10 mánuðum. Já, jeg veit það, að ef jeg hefði í mínu embættisstarfi dregið svo að framkvæma yfirlýstan vilja Alþingis, þá hefði hv. þm. Str. stokkið hátt. Enn fremur sagði hv. þm. (TrÞ), að vorið 1925 hefði stjórn Búnaðarfjelagsins staðið fyrir skiftum á áburði frá Noregi, og mjer skildist, að þar hefði alt fallið í ljúfa löð, en eftir því, sem mjer hefir sagt maður, sem er í stjórn Mjólkurfjelagsins, þá var hann mjög óánægður yfir því, hvað lítið Mjólkurfjelagið fjekk af áburði. Mjer finst þess vegna, sem hv. þm. (TrÞ) hafi sýnt, þangað til í desember, vítavert tómlæti í þessu máli. En það má vel vera, að eftir þann tíma hafi hann gert alt, sem unt var, en þó var það eitt atriði, sem hann hefði getað gert frekar en hann gerði: farið sjálfur utan til þess að leiðrjetta þetta, í staðinn fyrir að láta það bíða þar til ráðunautur frá Búnaðarfjelaginu átti erindi utan hvort sem var. Þetta varð til þess, að maður frá firmanu Nathan & Olsen fór utan á meðan á þessu stóð og gat á undan samið við Norsk hydro.

Út af kosningu í stjórn Búnaðarfjelags Íslands vil jeg segja það, að jeg lít svo á, að þessir tveir menn, sem kosnir voru af þinginu 1924, hafi verið kosnir til fjögra ára, og að breyting á lögum Búnaðarfjelagsins í fyrra geti ekki haft áhrif á þetta, en úr því að þeir menn, sem kosnir voru 1924, lýsa yfir því, að þeir sjeu fúsir til þess að samþykkja, að ný kosning fari fram, þá er náttúrlega ekkert við það að athuga, þótt kosið verði á þessu þingi, en mín fyrirspurn til hv. þm. Str. (TrÞ) átti ekkert skylt við það.