24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg verð að taka undir það, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði, að þetta nál. er eitt af þeim undarlegustu þskj., sem jeg hefi sjeð, og þá einnig brtt. landbn. Mjer virðist það koma dálítið í bága hvað við annað, að nefndin skýrir frá því, að Búnaðarfjelag Íslands hafi mist umboð, sem það hafði á áburðarefnum, en getur ekki gefið neinar skýringar á, af hvaða orsökum það er, ef það þá nokkurn tíma hefir verið umboð. Jeg hjelt það væri skylda landbn., þegar hún kemur með mjög miklar ásakanir á hendur búnaðarmálastjóra, að skýra frá því, af hvaða ástæðum þessu umboði hefir verið slept, ef það hefir átt sjer stað. Eftir því sem hæstv. atvrh. (MG) segir um skeyti frá Norsk hydro, hefir, að því er virðist, ekki verið um aðalumboð að ræða, eftir því sem hæstv. atvrh. (MG) sagði að sig minti, þá hefir ekki verið um neitt „Agenturforhold“ að ræða, en hins vegar hefir þó Búnaðarfjelagið verið einkainnflytjandi að þessum áburði um nokkur ár, og það getur stafað af því, að aðrir hafi ekki reynt til þess að flytja inn áburðarefni frá Norsk hydro. Það þarf ekki að hafa verið neitt umboð fyrir Búnaðarfjelagið, þó að svo hafi verið sem hjer er sagt. Þá er næst að athuga, hvað tapast hefir fyrir notendurna við það, að Búnaðarfjelag Íslands hefir ekki þetta umboð, sem það hefir álitið sig hafa, hvort áburðarefnin hafa orðið dýrari; á það er ekki minst hjer í þessu nál., sem þó ætti einmitt að vera fylsta ástæða til. Mjer skilst svo, að verð áburðarefnanna hafi verið sett í samræmi við Búnaðarfjelagið nú tvö seinustu árin, og á síðastliðnu ári, eins og áður, hafi Búnaðarfjelag Íslands ráðið því, við hvaða verði þessi vara var seld. Vil jeg biðja hv. frsm. nefndarinnar (JS) að skýra frá því, ef þetta er ekki rjett, því að þessa sögusögn hefi jeg eftir manni, sem þessu er vel kunnugur. Sje þessu þannig varið, að Búnaðarfjelag Íslands ráði verðinu, getur vel verið, að það sje enginn óhagur fyrir notendurna, þó að umboðið sje í höndum annara en Búnaðarfjelags Íslands, því að það er alls ekki víst, að umboðslaunin, sem Norsk hydro hefir gefið, hafi verið svo mikil, að það borgi sig fyrir Búnaðarfjelagið að halda mann, sem annast allar brjefaskriftir, og leigja sjer húsnæði og annað, sem þarf til verslunar með þessa vöru, þó í heildsölu sje, og það er heldur ekki alt af sjálfsagt, að það sje tap fyrir notendurna, þótt eitthvert verslunarfirma sjái um sölu á vörunni. Jeg fæ nú illa skilið það, sem sagt er hjer í nál., en sem þó er upplýst með svari hv. þm. Str., að stjórn fjelagsins geti verið dulin þess, hvað fjelagið framkvæmir í 1½ missiri. Jeg er hræddur um, að það þætti ónýt stjórn hjá litlu útgerðarfjelagi, ef framkvæmdastjórinn hefði getað framkvæmt nokkuð verulegt, sem stjórnin ekki vissi um, og hjer er um að ræða fjelag, sem fer með fje ríkissjóðs, um 200.000 króna árlegan styrk frá ríkissjóði“

Nefndin segir á einum stað, að hún telji eðlilegast, að Búnaðarfjelag Íslands hafi þessa einkasölu, en gengur þá jafnframt út frá því, að það hafi þá jafnframt á að skipa þeirri framkvæmdastjórn, er treysta megi til að sjá um, að einkasalan fari sæmilega úr hendi. Jeg veit ekki, við hvað er átt, nema svo sje, að landbúnaðarn. treysti hvorki stjórn Búnaðarfjelags Íslands nje þeim mönnum, sem fjelagið þá hefir á að skipa. Og ennfremur segir nefndin, að hún sje yfirleitt andvíg einkasölu-fyrirkomulagi, en telur að þeir atburðir, sem hafi gerst í þessu máli, að Búnaðarfjelagið hafi slept þessu umboði, rjettlæti þær till. nefndarinnar, að tekin sje einkasala á þessum vörutegundum. Nú skyldi maður ætla, að með þessu móti yrði eitthvað sjerstaklega unnið, en ef eitthvert firma, eitt eða fleiri, hafa umboð fyrir Norsk hydro, Dansk Gödnings-Kompagni, og fleiri áburðarefna-fjelög, hvað er þá unnið fyrir Búnaðarfjelag Íslands að taka að sjer söluna hjer á landi? Umboðsmennirnir halda að sjálfsögðu sínum umboðslaunum, hvort sem tekin er einkasala á þessum vörum hjer innanlands eða ekki. Jeg hefi aldrei sjeð sett í lög annað eins og það, sem stendur í 2. gr. þessara laga: „Heimild þessa skal ekki nota, ef Búnaðarfjelag Íslands hefir 1. jan. 1927 fengið aftur í sínar hendur einkaumboð hjer á landi fyrir sölu á Noregssaltpjetri eða öðrum jafngóðum kalksaltpjeturstegundum.“ — Jeg tel þetta svo ólíkt því, sem á að vera í lagasetningu, og svo hjákátlegt, að jeg get ekki með nokkru móti trúað, að hv. þdm. greiði því atkv. Nú skulum við setja sem svo, að þýsk áburðarefni reynist hjer betur en þau norsku, og að þau, eins og sumir álíta, útiloki sölu á áburðarefnum frá Norsk hydro, hvaða gagn er þá að því að hafa fengið einkasölu fyrir Norsk hydro, ef þau verða lítið notuð? Og að setja þetta í lög, finst mjer einkennilega hjákátlegt. Jeg skal ekki lengja umr. um þetta meira, skal aðeins láta það álit mitt í ljós, að jeg tel ekki, að þessar brtt. hv. nefndar, sem alveg kollvarpa grundvelli þess frv., sem hjer lá fyrir, eigi að samþykkja. Jeg hefði getað verið með frv. á þskj. 98, með lítilli breytingu.