24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla ekki að lengja umr., sem þegar eru orðnar nógu langar að minni hyggju.

Aðeins vildi jeg taka það fram út af þeim ummælum hv. þm. Str. (TrÞ), að nefndin hefði hneigst að einkasölu, þá er það eingöngu fyrir þá sök, að framkvæmdastjórn Búnaðarfjelagsins hafði mist tökin á þessu máli fyrir fjelagið, að nefndin leggur til, að horfið sje að þessu ráði. Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (MG) spurði um, hvort nefndin mundi halda fram einkasölu, ef samkomulag næðist um, að áburðurinn yrði seldur við vægu verði, þá veit jeg ekki um skoðun nefndarinnar í því efni, en býst þó eins við, að mjer muni óhætt að svara spurningunni neitandi. Nefndin tók þessa leið til þess að bjarga málinu í bili, svo að næst liggur við að skoða þetta sem bráðabirgðaráðstöfun. Það leiðir af sjálfu sjer, að það er ekki sagt af virðingarleysi fyrir málstað okkar, það sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, því að ef alt hefði verið óbreytt frá í fyrra, þá hefði hann ekki komið fram með frv. og afstaða nefndarinnar þá verið óbreytt.

Annars sje jeg ekkert á móti því, að allar upplýsingar, sem nokkru máli skifta, komi fram hjer í háttv. deild.

Hverjir hjer eiga mesta sök á, að komið er þessu máli í það óefni, sem kunnugt er, skal jeg ekki leiða neinum getum að, þótt jeg hinsvegar álíti, að stjórn Búnaðarfjelagsins hafi ekki beitt valdi sínu sem skyldi, en hv. þm. Str. (TrÞ) hefir nú gert grein fyrir því og á eftir að árjetta það betur við 3. umr., svo jeg ætla ekki að fara frekar út í það nú.