27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1991)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. þm. Str. hefir sjálfsagt fundið til þess, að hann hafði ekki svarað nógu vel fyrir sig við 2. umr. um þetta mál, því nú hefir hann viðað að sjer og komið með ýmisleg gögn í málinu, en jeg verð samt að segja, að hann hefir fátt dregið fram, er jeg eigi vissi um áður.

Hv. þm. (TrÞ) leggur fullmikið upp úr brjefinu frá 5/2 '25, til Búnaðarfjelags Íslands, því að jeg hefi hjer í höndum símskeyti frá Norsk hydro, dagsett 18/2 1925, sem hljóðar svo: „Norge-saltpeter godhedsfuldt henvend Dem Bunadarfelag“, svo að ekki hefir Norsk hydro þá álitið, að umboðið væri í höndum Nathan & Olsen. Jeg hefi fyrir satt, að Norsk hydro hafi sent brjef, dagsett 7. mars, hingað, viðvíkjandi fyrirspurn um betla, og hafi sett það skilyrði, að samið væri við Búnaðarfjelag Íslands, en það veit jeg ekki til að hafi verið gert. það er því ekki rjett, sem háttv. þm. Str. (TrJ) segir, að Nathan & Olseri hafi fengið umboðið í hendur þann 5/2 '25, enda kemur þetta berlega í ljós í niðurlagi brjefsins frá 5. febr., því að þar segir, að samþykki Búnaðarfjelags Íslands þurfi til þess, að Nathan og Olsen fái umboðið. En hvenær kom það samþykki? Hann vill hengja hatt sinn á það, að hann hafi ekki verið kosinn formaður Búnaðarfjelags Íslands fyr en 10. mars það ár, en hann var á fundi, þegar búnaðarþingið samþykti tillöguna um þetta, auk þess sem hann var, sem einn af stjórnendum fjelagsins, skyldur til að framkvæma vilja Búnaðarþingsins, enda beindi það þessari áskorun sinni til stjórnar Búnaðarfjelagsins í heild. Þetta var bláber skylda hans og ekkert annað, enda er í tillögunni ekki nefndur formaður fjelagsins á nafn, heldur er þar talað um alla stjórnina. Hinn 5. mars er svo haldinn fundur í Búnaðarfjelaginu, þ. e. stjórn þess, og rætt um skiftingu á saltpjetrinum milli Nathan & Olsen og Mjólkurfjelags Reykjavíkur, en þessi skifti urðu ekki sjerlega jöfn, að því er virðist. En jeg vil leyfa mjer að spyrja: Hvers vegna var verið að spyrja Nathan & Olsen um þetta eða það firma beðið um að samþykkja þessi skifti? (TrÞ: Það var ekki beðið um samþykki Nathan & Olsen). Hví var það firma kvatt til þessa skiftafundar, eða af hverju ljet hv. þm. Str. (TrÞ) sjer svo ant um, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur yrði ánægt með skiftin? Það lítur út fyrir, að Nathan & Olsen hafi þá verið búnir að fá einhvern rjett í sínar hendur og að hv. þm. Str. (TrÞ) hafi vitað um það. Skora jeg á hann að svara þessu skýrt og greinilega.

Hv. þm. Str. (TrJ) sagði, að jeg hefði ráðist á búnaðarmálastjóra, en tók þó alt til sín, sem jeg hafði sagt, og það var líka alveg rjett gert; jeg beindi öllu, sem jeg sagði, til hans sjálfs, en engu til búnaðarmálastjóra, og jeg endurtek það nú hjer, sem jeg sagði við 2. umr., að hv. þm. Str. (TrÞ) hefir sofið á málinu í 10 mánuði og ekki aðhafst neitt, en síðan hefir hann vaknað við þann draum, að Nathan & Olsen höfðu náð í umboðið.

Hv. þm. (TrÞ) sagði við 2. umr., að ekki hefði verið ástæða til að gera neitt í þessu máli, en jeg benti þá á, að þegar búnaðarmálastjóri segist ekki hafa það umboð, sem búnaðarþingið óskaði eftir, að Búnaðarfjelagið hefði í höndum, þá var vissulega ástæða til fyrir hv. þm. Str. (TrÞ) að hefjast handa strax, í stað þess að halda að sjer höndum í 10 mánuði.

Þá hljóp hv. þm. (TrÞ) alt í einu út í alt annað mál og fór að tala um sementskaup ríkissjóðs. Jeg man nú ekki, hvað langt er, síðan að núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) lagði niður landsverkfræðingsstöðuna; það eru varla minna en 10 ár síðan, og síðan hann varð landsverkfræðingur eru yfir 20 ár. Hv. þm. vill, að jeg fari að gefa skýrslu um það, hvort landsverkfræðingurinn Jón Þorláksson hafi á árunum 1905–1915 verslað við sjálfan sig með sement og aðra hluti, sem ríkissjóður þurfti til brúa- og vegagerða. Þetta finst mjer harla undarlegt, því að á þessum árum, 1905–1915, var jeg sumpart við nám í Kaupmannahöfn, sumpart aðstoðarmaður í stjórnarráðinu og sumpart sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, en alls ekki við stjórnmál riðinn. Þegar hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) hætti við landsverkfræðingsstöðuna, var jeg búsettur í Skagafirði og gat því ekkert vitað, hvenær hann byrjaði á að selja byggingarefni. Hv. þm. (TrÞ) getur því ekki búist við að fá svör við þessu hjá mjer, enda mun hann hafa gert þennan útúrdúr til þess að leiða athyglina frá hinni óverjandi deyfð sinni í áburðarmálinu, nema ef hann vill ásaka hæstv. fjrh. eitthvað sjerstaklega, en mjer er kunnugt um, að meðan jeg var í stjórnarráðinu sem aðstoðamaður árin 1907–1912 hafði hæstv. fjrh. (JÞ) mjög háa stjörnu hjá stjórninni, og mun hv. 2. þm. Rang. (KlJ) geta borið um, hvort það er ekki rjett.

Það er annars undarlegt, að hv. þm. Str. (TrÞ) gat ekki fundið annað til en þetta, er ráðist var á hann sjálfan. Jeg hefði getað skilið, að háttv. þm. (TrÞ) hefði hreyft þessu á eldhúsdeginum í stað þess að draga þetta inn í umræður um al-óviðkomandi mál. Ef hann sá ekki ástæðu til að koma fram með þetta í eldhúsdagsumræðum, gat hann borið fram fyrirspurn um þetta á þinglegan hátt, en hitt þarf hann ekki að hugsa, að jeg fari að svara þessu ítarlega nú í alóviðkomandi máli.

Um flestar af þeim byggingum, sem hv. þm. Str (TrÞ) spurði, er það að segja, að jeg hefi engin umráð yfir byggingu þeirra, og er því best fyrir hann að spyrja rjetta hlutaðeigendur. Jeg þykist vita, að sement muni því aðeins hafa verið keypt í þær byggingar hjá firmanu Jón Þorláksson & Norðmann, að það hafi verið ódýrast hjá því, og ræð jeg þetta af því, að starfsmenn ríkisins hafa stutta og gagnorða fyrirskipun að fara eftir, er þeir eiga að gera kaup fyrir hönd ríkisins, þ. e. að kaupa vörurnar þar, sem þær eru bestar og ódýrastar, þegar þeir hafa leitað sjer upplýsinga um verð og vörugæði.