27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (1999)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af rökstuddri dagskrá hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vil jeg taka það fram, að jeg mun ekki geta greitt henni atkvæði, og það af þeim ástæðum, að jeg sje ekki, að stjórnin geti hindrað það, samkvæmt því sem á undan er gengið, að áburður verði seldur við of háu verði. Meira ætla jeg ekki um það að segja, enda eru umr. orðnar óþarflega langar, og vil jeg ekki lengja þær úr þessu.

Þó kemst jeg ekki hjá því að segja fáein orð við hv. þm. Str. (TrÞ), þó að jeg sje svo brjóstgóður, að jeg geti ekki fengið af mjer að fara hart í sakir við hann, þar sem hann er nú orðinn svo auðmjúkur og illa kominn, að hann hefir ekki getað annað en viðurkent það, að rjett væri að draga dár og spottast að hinum 10 mánaða svefni hans í formannsstóli Búnaðarfjelags Íslands. Og úr því að hann hefir nú játað, að draga megi dár að sjer fyrir vanrækslu þessa, þá er þar með játað, að aðfinslur mínar hafi verið á rökum bygðar.

Hann var eitthvað að tala um, að það væri óheppilegt af mjer að ráðast á sig, eða eins og hann sagði „irritera oppositionina“. En jeg þori vel að segja háttv. þm. Str. (TrÞ) það er mjer list, og jeg veit ekki til, að „oppositionin“ sje friðhelg.

Mjer fanst hv. þm. Str. (TrÞ) seilast nokkuð langt til lokunnar, er hann ræðst á embættisbróður minn, hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir það, sem jeg hefi fundið að starfi hv. þm. (TrÞ) sem formanns Búnaðarfjelagsins. það virðist þó hafa legið öllu nær að ráðast á mig, úr því að hv. þm. Str. (TrÞ) hafði svo mjög í huga að gjalda auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En hann gerði það ekki, heldur ræðst hann á hæstv. fjrh. (JÞ), en hefir ekkert við mig að segja.

Hann vill að vísu neita því nú, að um árás hafi verið að ræða frá hans hendi, hann kveðst aðeins hafa spurt; það er satt, en hann spurði á þá leið, að engum gat dulist, að um dylgjur væri að ræða í garð hæstv. fjrh. (JÞ). Og svo kvartar hann um, að jeg hafi ekki svarað því, sem hann spurði um. Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir nokkuð til mikils mælst, að jeg eigi að svara fyrir stjórnina eða segja, hver afstaða landsverkfræðings hafi verið til hennar á þeim árum, er jeg var námsmaður í Kaupmannahöfn, aðstoðarmaður í stjórnarráðinu eða sýslumaður norður í Skagafirði. Þó get jeg upplýst það, sem raunar er mörgum kunnugt, að á meðan jeg var aðstoðarmaður í stjórnarráðinu, hafði þáverandi landsverkfræðingur háa stjörnu hjá stjórninni, og var mikið tillit til hans tekið sem trúnaðarmanns stjórnarinnar um allar verklegar framkvæmdir. Þetta man jeg sjerstaklega, en efist hv. þm. Str. (TrÞ) um það, getur hann eflaust fengið frekari sannanir hjá hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem þá var landritari og þessum málum mjög kunnugur.

Jeg get ekki skilið, að það hafi verið alvara fyrirspyrjanda, að jeg ætti að svara fyrir þessi ár, eða því, sem skeð hefir fyrir mörgum árum, en frá hinu get jeg skýrt, að síðar, er jeg varð atvinnumálaráðherra, hefir jafnan verið fylgt þeirri reglu að safna tilboðum, og þegar þau hafa verið athuguð, þá hefir verið verslað þar, sem lægst er og ódýrast. En svo hefir á seinni árum tíðkast mjög að láta ýmsar byggingar í akkorðsvinnu. T. d. eru gerðir samningar við smiði um að skila veggjum, steyptum eða hlöðnum eða uppkomnum, fyrir ákveðna upphæð innan ákveðins tíma; er þá ekkert skift sjer af, hvar efnið er keypt eða hvaða verði.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara frekar út í málið; jeg get endurtekið það, sem jeg sagði við 2. umr., að eins og málið horfir við, mun jeg greiða frv. atkv. út úr hv. deild.