08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2016)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Björn Kristjánsson:

Þar sem hv. frsm. (ÁH) talar um, að sjer sje sárt um þessa vöru, þá lái jeg honum það ekki. Mjer er líka sárt um hana og verslun með hana. En jeg hefi sýnt fram á það, að hún fæst ekki með lægra álagi en 2%, hvort sem það er Búnaðarfjelag Íslands eða aðrir, sem umboð hafa fyrir verksmiðjuna. Og þetta sýnir það, að frv. hefir enga þýðingu.

Hv. 2. þm. Rang. (EP) talaði um það, að ekki þyrfti annað en að Nathan & Olsen slepti umboði sínu. Jeg verð að segja, að mjer þykir það ekki geðslegur viðskifta-„moral“, að neyða menn til þess að sleppa hluta af lífsframfæri sínu, og það er ekki hægt að segja, að það sje sanngjarnlegt gagnvart neinum að segja: „Láttu af hendi þitt umboð, annars set jeg lög, sem banna þjer að njóta þess.“ — Jeg fordæmi þann hugsunarhátt, og jeg endurtek það enn, að þó frv. þetta verði að lögum, fær landbúnaðurinn fyrir það alls ekki ódýrari vörur.