21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

83. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg verð að segja líkt og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að mjer þykir mál þetta bera einkennilega að. Nú er komin önnur umr., en ekkert nál.

Það er rjett hjá hv. þm. (ÞorlJ), að til eru stór hjeruð hjer á landi, þar sem þessi vágestur, kláðinn, hefir aldrei komið. Skal jeg ekki dæma um, hvort það er af hepni eða hreinlæti, en hvort heldur er, eiga þau hjeruð ekki að gjalda þess.

Dýralæknir ætlast nú til þess, að Alþingi lýsi yfir vanþóknun sinni á þeim mönnum, sem rjeðu fyrri böðuninni 1903, en því vil jeg mótmæla kröftulega. Það má ef til vill segja, að verk Myklestads hafi ekki orðið svo góð sem skyldi, en jeg vil ekki kasta steini að honum fyrir það, heldur að dýralækni landsins, sem ekki rækti þá sitt starf svo vel sem skyldi. Starf Myklestads bar góðan árangur, og jeg vil ekki vera með í því að sparka í hann eða þá menn, sem unnu með honum.