21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2202)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Árni Jónsson):

Það hefir verið ráðist hjer á landbúnaðarnefnd alveg að ástæðulausu. Nefndin leit svo á, að þetta mál væri svo náskylt því máli, er hjer er næst á undan á dagskrá, að hún taldi eigi þörf á því að halda um það langa framsöguræðu af nefndarinnar hálfu, það því fremur sem háttv. þdm, hafa haft nægan tíma til þess að átta sig á hinni ítarlegu greinargerð, sem frv. fylgir.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) var efablandinn um það, hvort rjett hefði verið að flytja frv. og hvern árangur það mundi bera. Hann vitnaði í það, að útrýmingarböðun hefði farið fram fyrir 22 árum, en þrátt fyrir það væri kláðinn lifandi enn, þetta er alveg rjett. En það sannar einungis það, að útrýmingarböðunin, sem hann vitnaði i, var ekki framkvæmd á rjettan hátt. En það, sem einkum olli því, að sú böðun kom ekki að fullum notum, var það, að menn stóðu þá í þeirri villutrú, að nægilegt væri að einbaða fjeð. Nú vita menn betur. Vil jeg leyfa mjer að benda á, að það er skoðun dýralæknis hjer og allra dýralækna, að fjárkláða verði ekki útrýmt með einni böðun. Má í því sambandi einnig vitna í handbók fyrir bændur, sem Coopers-verksmiðjan hefir gefið út. Þar er það skýrt tekið fram, að allar kláðakindur skuli baða tvisvar, með 15 daga millibili. — Hjer hefi jeg með höndum enskt kláðarit, og er þar mælt svo fyrir, að baða skuli tvisvar, og sje nokkur grunur, þá hið þriðja sinn. Þetta er það sama og hjer á að gera. Í frv. er farið fram á 3 baðanir, ekki af því að 2 sje ekki nægilegt, ef rjett er að farið, heldur til þess, að vera viss um að hafa gengið af hverjum einasta kláðamaur steindauðum. Þá kvartaði hv. þm. A.-Sk, (ÞorlJ) undan því, að eigi lægju fyrir nákvæmar skýrslur um útbreiðslu kláðans. Það er náttúrlega alveg rjett, en bæði mætti eflaust fá nokkrar skýrslur með litlum tilkostnaði, og auk þess vitum við, að kláðagemlingar eru um land alt eða svo að segja. Því verður ekkert örugt nema almenn landhreinsun. Þessi sami hv. þm. (ÞorlJ) hjelt því fram, að halda mætti kláðanum í skefjum með þeim aðferðum, sem nú tíðkast. Þetta kann nú að að vera rjett að nokkru leyti, En það er alveg víst, að þegar til lengdar lætur, verður það gróðafyrirtæki að útrýma kláðanum öllum í einu, enda þótt það kosti nokkuð í bili. — Þá var hv. þm. (ÞorlJ) að tala um, að ekki væri hægt að framkvæma þetta nema bændur hefðu trú á, að það mætti takast. Jeg verð nú að segja það, að mjer finst hálf-kindugt að sjá hvern Framsóknarmanninn af öðrum standa upp og vitna um það, hve lítið traust þeir hafi á sínum marglofuðu og ágætu bændum. — Jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi átt við, að kláðinn yrði læknaður með trúlækningum einum, þó að það væri raunar ágætt ráð að fá þennan mikla Eyjafjarðarlækni í kláðann. Hann hefir víst sjeð það svartara stundum heldur en einn kláðagemling, ef trúa má sögunum, sem annað framsóknarblaðið hefir sagt af honum.

Þá talaði hv. þm. A.-Sk, (ÞorlJ) um, að hjer yrði miklu fje á glæ kastað, því að kostnaður af böðunum yrði svo gífurlegur. Það er nú gert ráð fyrir, að baðlyfin kosti 150 þús. kr., og á ríkissjóður að greiða af því 2/3 hluta, eða 100 þús. 1/3 skulu bændur sjálfir greiða.

Vitanlega yrði við þetta ýmislegur annar kostnaður, en frá þessu má einnig í raun og veru draga það, sem hvort sem er fer í hin árlegu böð, og það er ekki lítið fje. Hv. þm. (ÞorlJ) hjelt, að mánaðar innigjöf þyrfti, ef þrisvar skyldi baða. Það held jeg að sje nokkuð hæpið. Enginn lætur fjeð standa inni 10 daga við eina böðun, og jeg fæ ekki sjeð, að það þurfi að vera meira en þrisvar sinnum lengri innigjöf við 3 baðanir.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) þótti það hart fyrir kláðalaus hjeruð að þurfa að baða sitt fje þrisvar sinnum. Það er náttúrlega satt og rjett, en hve lengi verða þessi hjeruð kláðalaus? Jeg hugsa, að kláðinn gæti hæglega borist til hans kjördæmis úr Suður-Múlasýslu. (ÞorlJ: Er kláði þar?) Þar var hann a.m.k. árið 1911, því að þá kom þaðan kláðagemlingur og smitaði Norður-Múlasýslu, og eins getur líklega komið fyrir, að óþverrinn berist þaðan suður á bóginn til Skaftafellssýslu. Hv. þm. vildi helst sleppa þeim hjeruðum, sem álitin væru kláðalaus. En enginn veit, hvar kláðinn getur leynst. Má því ekkert heimili og engin sveit komast hjá böðuninni. Kláðaskoðun er ónóg trygging, og getur hann vel leynst þrátt fyrir hana, Jeg get nefnt hjer eitt dæmi, sem Gísli gerlafræðingur sagði frá á fundi í haust. Hann hafði keypt kláðagemling ofan úr Kjós, til þess að gera tilraunir með hann. Þegar Gísli eignaðist gemlinginn, var hann alveg útsteyptur í kláða. Nú var hann alinn í nokkurn tíma, og fór þess fljótt að sjá merki. Gemlingurinn fitnaði og varð sællegur, — og kláðinn hvarf. Þá fór Gísli aftur að draga úr fóðrinu, og hvað skeður? — Gemlingurinn steyptist út í kláða að nýju, svo að hann var aldrei ljótari. Af þessu má ráða það, að fóðrunin er mikið atriði og að skoðun er altaf óviss.

Hv. þm. Str. (TrÞ) virtist vera hálfsnakillur í garð nefndarinnar fyrir það, hvernig hún hefir borið mál þetta fram, og fann hann mjög að greinargerðinni. Jeg vil geta þess, að greinargerðin er ekki frá nefndinni, heldur frá dýralækni. Þar með er ekki sagt, að nefndin ímyndi sjer, að hún hefði samið betri greinargerð, þvert á móti. Enginn ætti að vera þessum málum kunnugri en einmitt dýralæknirinn. En þess er getið í innganginum, sem nefndin skrifaði, að ýms ummæli standa algerlega á reikningi dýralæknis sjálfs. Og þótt einstakir nefndarmenn vildu ekki ganga inn á sjerskoðanir dýralæknis í öllum atriðum, þá vildum við þó flytja frv. Það er raunar álit mitt persónulega, að dýralæknir hafi alveg rjett fyrir sjer um a. m. k. eitt atriði viðvíkjandi þessum Myklestad, sem hv. þm. Str. (TrÞ) var svo ant um. Það er það, að Myklestad ljet ekki baða grunað fje nema einu sinni. En einmitt þetta gæti hafa valdið því, að kláðanum varð eigi útrýmt þá. — Magnús Enarsson dýralæknir hefir frá upphafi haldið fram þessari kenningu. T. d. hefir hann skrifað um þetta í bækling frá 1911, sem jeg hefi með höndum. — Þar segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En í því er skaðlegasta villa hr. Myklestads fólgin, að hann taldi eitt bað nægja, til þess að lækna kláða á „grunuðu“ fje.“*

*Undirstrikað af M. E.