21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2205)

83. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson:

Háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) hefir gert grein fyrir frv. af hálfu landbúnaðarnefndar, en mjer finst sú greinargerð tæplega nógu fullkomin.

Það er einkum kostnaðarhliðin, sem mjer finst, að þörf væri að gera sjer betri grein fyrir. Það mun vera áætlað, að verð baðlyfjanna einna mundi nema 150 þús. kr., og þar við bætist vitanlega mikill annar kostnaður. Í 3. gr. er svo ákveðið, að fjáreigendur skuli greiða 1/3 hluta baðlyfja og flutningskostnaðar innan sveitar, en að allur annar kostnaður greiðist úr ríkissjóði. Jeg verð að segja það, að jeg kynni nú betur við að hafa einhverja hugmynd um það, hvað mikill þessi kostnaður mundi verða, bæði fyrir bændur og ríkið. Það er ljóst, að kostnaðurinn verður æði mikill, en jeg mun þó fylgja þessu frv., ef næg rök koma fram fyrir því, að slík útrýmingarböðun sje nauðsynleg eða jafnvel óhjákvæmileg. Mjer skilst, að hv. nefnd hafi aðeins leitað álits dýralæknisins í Reykjavík um þetta, en mjer sýnist, þar sem um svo stórvægilegt mál er að ræða eins og þetta, að það væri ekki úr vegi að fá álit annara dýralækna hjer á landi um þetta. Hjer er um að ræða mál, sem varðar alt landið, og því finst mjer, að það hefði verið sjálfsagt að leita umsagnar, helst allra dýralækna á landinu, og ekki síst vegna þess, að till. dýralæknisins hjer í Reykjavík hafa mætt andúð utan af landi og jafnvel einnig hjer í þessari hv. deild.

En það var annað atriði, sem olli því sjerstaklega, að jeg stóð upp, og skal jeg nú víkja að því. Jeg vil mótmæla mjög eindregið þeim orðum, sem sögð eru í áliti dýralæknisins hjer í Reykjavík um þá menn, sem unnu að útrýmingarböðuninni 1903. Jeg vil láta það koma fram, að þingið vilji ekki á neinn hátt taka undir það, að sparkað sje í ágætismenn eins og Myklestad, sem áreiðanlega unnu mjög mikið og gott starf í þágu útrýmingarinnar á þessum árum. Jeg vil, að það komi fram frá hv. landbn., að hún mótmæli þeirri skoðun dýralæknisins, sem kemur fram í áliti hans, og fordæmi það, að kastað sje steinum að þessum mönnum. Dýralæknir leggur mikinn áhuga á það í sinni greinargerð, að lögin frá 1914 verði afnumin. þetta hefir nefndin ekki getað fallist á, auk þess getur nefndin þess, að einstakir nefndarmenn vilji ekki gera sum ummæli hans að sínum. Þetta finst mjer benda til þess, að nefndin vilji ekki skrifa undir þann áfellisdóm, sem dýralæknir kveður upp yfir aðgerðum þingsins í þessu máli og þeirra manna, sem unnu að böðuninni 1903–1905. Það var þetta, sem jeg vildi, að kæmi skýrt fram hjer í þinginu, að það mótmælti þessari tilraun dýralæknisins til þess að fá þingið til þess að sparka í Myklestad og samverkamenn hans, sem unnu áreiðanlega mikið og gott starf fyrir þetta mál á sínum tíma, þó að árangurinn yrði hinsvegar ekki fullur sigur.