21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg ætla nú ekki að elta ólar við alt, sem sagt hefir verið hjer í dag. Það mundi taka of langan tíma og hindra það, að atkvæðagreiðsla geti farið fram áður en fundarhlje verður. Umræður hafa líka farið mjög fyrir ofan garð og neðan. Það hefir mikið verið þráttað um það, að mönnum virðist í greinargarð frv. vera sneitt að þeim mönnum, sem stóðu fyrir böðuninni 1903. En slíkt er alt bygt á misskilningi. Hv. þm. Str. (TrÞ) mintist á kostnaðinn, sem af þessu mundi leiða, og þótti ilt að fá ekki nánari upplýsingar um hann. Það er sjálfsagt, að nefndin tekur þetta atriði til athugunar til næstu umræðu, til þess að reyna að komast að einhverri fastri niðurstöðu með hann. Þá gat hann þess, að ekki hefðu komið fram óskir um þessa allsherjar útrýmingarböðun. Það er að vísu rjett, að slíkar kröfur hafa ekki komið fram í þingmálafundargerðum, en jeg hygg, að það eigi rót sína að rekja til þess, að menn hafi haft þá trú, að árleg þrifaböðun mundi nægja til þess að útrýma fjárkláðanum. Menn hafa alment ekki gert sjer ljóst, að þrifaböðin eru ekki nægileg. Þá áfeldi sami hv. þm. landbn. fyrir það, að hún hefði ekki leitað álits annara dýralækna en dýralæknisins í Reykjavík. En þar er því til að svara, að hann er reyndastur hjer í þessum efnum; hefir starfað hjer lengur en allir hinir, eða um 30 ára skeið, og skoðun hans hefir í aðalatriðunum reynst rjett, því er nefndin ekki ámælisverð fyrir það, þótt hún hafi snúið sjer til hans. En jeg er því ekki mótfallinn, þótt líka væri leitað álits dýralæknanna í Stykkishólmi og á Akureyri, og skal skjóta því til meðnefndarmanna minna. Jeg get ekki fallist á það, að sparkað sje í Myklestad, þótt sagt sje, að baðanir hans hafi ekki orðið að tilætluðum notum eða gert eins mikið gagn og æskilegt hefði verið. Menn voru alment þeirrar skoðunar þá, að ein böðun dygði, en það reyndist ekki rjett. Myklestad er ekki áfellisverður, þótt hann hjeldi fram ríkjandi skoðunum síns tíma og bygði á þeim.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) talaði alllangt mál, og hefir því flestu verið svarað áður. Hann beindi því til nefndarinnar, hvort ekki væri betra að ákveða tímann í árslok 1928 heldur en ársbyrjun 1929. Jeg skal skjóta því til nefndarinnar til athugunar.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) var á móti þessari útrýmingarböðun, einkum vegna Skaftfellinga, og tók í sama strenginn og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Hann sagði, að það hefði ekki orðið kláða vart í Skaftafellssýslu eftir baðanirnar 1903–5. Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú bent á, að þarna er nú komin samgöngubót, sem gerir það að verkum, að það er ekki lengur örugt, að kláðinn berist ekki inn í sýslurnar. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) bjóst við því, að kláðinn hefði borist yfir brúna á Lagarfljóti. Þá gæti hann eins vel borist yfir brúna á Jökulsá. Annars býst jeg við því, að Skaftfellingar sjeu svo góðir þegnar, að þeir snúist ekki gegn þessu þjóðþrifafyrirtæki, þótt lítill eða enginn kláði sje hjá þeim.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) kvað frv. þetta hafa komið nokkuð hastarlega og óvænt inn í deildina. Það er þó rúmur mánuður síðan því var útbýtt, svo það er ekki hægt að segja, að það beri mjög bráðan að. Þá vitnaði þessi sami hv. þm. í 3. gr. frv., og kvað það vera samkvæmt orðalagi greinarinnar, að ríkissjóður greiddi allan fóðurkostnað fjárins meðan það stæði inni milli baðananna. Nefndin hefir nú talið sjálfsagt, að fóðurkostnaðurinn yrði greiddur af fjáreigendunum sjálfum, enda hafa allir skilið það svo; svo að þetta er ekkert annað en útúrsnúningur og vífilengjur hjá þessum hv. þm., eins og hans er vandi. En úr því að farið er að fjargviðrast út af kostnaðinum, þá er best að það komi fram, að þessi aukna innigjöf mun ekki þurfa að vera nema svo sem vika. Jeg geri ráð fyrir því, að það þurfi að gefa fjenu inni svo sem 2–3 daga eftir hvert bað. Svo að þetta yrðu þá 6–9 dagar.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) gat þess, að þessi kostnaður væri ekki aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð, því að meðan kláðahættan væri yfirvofandi, væri hætt við því, að ríkissjóður yrði árlega að leggja fram fje til þess að koma í veg fyrir hann. Þetta er alveg rjett. Hjer er um það að ræða, hvort menn vilja leggja ofurlítið á sig í eitt skifti fyrir öll, til þess að útrýma þessum vágesti, eða hvort menn vilja hafa hann yfir sjer vofandi ár eftir ár. Þetta er kjarni málsins.