21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2210)

83. mál, útrýming fjárkláða

Halldór Stefánsson:

Jeg hefði vart tekið til máls að þessu sinni, ef eigi hefðu fallið þannig löguð orð frá háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að jeg get eigi látið þau vera athugasemdalaus. Háttv. þm. sagði, að meira hefði jafnan orðið vart við fjárkláðann norðan Lagarfljóts en austan. Þetta er alveg öfugt við það, sem átt hefir sjer stað, að því er jeg best veit. Mjer er kunnugt um, að kláða hefir ósjaldan orðið vart í Hjaltastaðahreppi, austan Lagarfljóts, en norðan fljótsins veit jeg aðeins til, að hans hafi einu sinni orðið vart á Jökuldal, og hafði hann borist þangað með sauðfje, sem kom þangað austan yfir fljót með manni, sem fluttist þangað búferlum. — Þetta er að vísu smáatriði, sem ekki skiftir miklu máli, en úr því það bar á góma og jeg þóttist vita betur, hvað rjett var, þykir mjer rjett að taka þetta fram.

En úr því jeg nú stóð upp á annað borð, vil jeg með fáeinum orðum drepa á nokkur atriði málsins, sem fram hafa komið við umræður. það hefir verið fundið að því, að landbn. hefir ekki lagt fram neinar skýrslur um kláðann eða útbreiðslu hans á síðari árum. Þetta er að vísu rjett, en nefndin taldi, að sú almenna vitneskja ætti að nægja, sem þegar er fengin um það, að fjárkláðinn hefir breiðst allmikið út á síðari árum, og það taldi nefndin, að enginn mundi verða til að vefengja. En ef svo er, að kláðinn útbreiðist, þá vaknar sú spurning, hvort eigi að bíða eftir því, að hann útbreiðist ennþá meir, eða halda menn, að auðveldara verði að fást við vágest þenna, eftir því sem hann færist í aukana?

Þá er það kostnaðurinn við útrýmingarböðunina. Því er ekki hægt að neita, að talsverður kostnaður er þessu samfara, þó að ætlast sje til, að fjáreigendur greiddu aðeins 1/3 af baðlyfjakostnaði, yrði það þó allmikill kostnaður, sem fellur á fjáreigendur, vegna þess að á þá fellur alt af allmikill fóðurkostnaður, sem stafar af þríböðun fjárins. Þetta kemur harðast niður á hjeraðsbúum þeirra hjeraða, sem annaðhvort enginn fjárkláði er í eða aðeins lauslegur grunur hvílir á. Það var meðfram með tilliti til þessa, að nefndin leggur til, að fjáreigendur greiði 1/3 baðlyfjakostnaðarins, en ekki ½, sem einnig kom til athugunar í nefndinni. Sumir háttv. ræðumenn hafa gert alt of mikið úr þessum kostnaði við útrýmingarböðunina, t. d. að af henni leiddi alt að mánaðar innigjöf fjárins o. s. frv. þetta atriði er mjög komið undir veðráttu. Sje veðrátta mjög óhagstæð, getur þurft að gefa inni samfelt á meðan á böðununum stendur, en þá þyrfti að gefa mikið hvort sem er. Ef veðrátta þar á móti er góð, þarf ekki að halda fjenu lengi í húsi, en fóðureyðsla verður þó alt af nokkur.

Það hefir einna mest borið á mótmælum frá fulltrúum þeirra hjeraða, sem annaðhvort enginn eða lítill fjárkláði er talinn í. Jeg hefi skilið þá svo, að þeir telji að vísu ekki óþarft að útrýma kláðanum, en þeir vilja láta undanþiggja þessi hjeruð útrýmingarráðstöfunum. En ef alvara á að vera í því að útrýma kláðanum, má ekkert slíkt kák eiga sjer stað; annaðhvort á að láta fara fram allsherjarböðun á sauðfje eða alls enga.

Að útrýmingarböðunin skömmu eftir aldamótin (1903–5) mistókst, stafaði af því, að þá var látið nægja að baða aðeins einu sinni, þar sem álitið var, að kláði væri ekki. Þetta var það, sem var kákkent við þá útrýmingu, og svo mundi ekki síður fara nú, ef það yrði leyft, að undanþiggja hjeruð eða hjeraðshluta, þó ógrunuð væri talin. Það má benda mönnum á það, að fje gengur víðar saman nú en fyrrum, vegna þess, að stóraár hafa verið brúaðar, sem taldar hafa verið fullkomin hindrun fyrir samgöngum fjár. Auk þess er fje, einkum hrútar, nú alloft flutt milli hjeraða til kynbóta.

Í þessu máli sem öðrum verður að meta ástæðurnar með og móti. Það, sem mælir með því að ráðist verði í útrýmingarbaðanir, er hið mikla tjón, sem kláðinn veldur árlega. Það er ekki hægt að áætla þetta hjer nákvæmlega; það kemur fram í afurðatjóni og vanhöldum fjárins og álitshnekki ísl. varna, — lifandi sauðfjár, kjöts, ullar — sem veldur markaðsspjöllum á erlendum markaði. Þetta verður alt að metast á móti kostnaðinum við útrýmingu fjárkláðans. Menn verða að gera það upp í huga sjer, hvort þeir vilji heldur, að kláðinn fái að breiðast út og magnast og valda meira og meira tjóni, eða hvort á að ráðast í þann kostnað, sem því er samfara að losna við þenna leiða sjúkdóm.

Það, að menn efast um, að takast muni að útrýma kláðanum, vegur eigi þungt á metunum, er það er athugað, að erlendis hefir það tekist með einfaldari aðferðum en hjer eru í ráði.

En auk alls þess tjóns, sem kláðinn veldur, sem fer í vöxt með útbreiðslu kláðans, er skömmin að ala þenna leiða kvilla, eftir að það er alment vitað, að hægt er að útrýma honum alveg.

Jeg hefi reynt að tala þannig, að ekki þyrfti að vekja deilur, en hefi aðeins stuttlega fært fram ástæður mínar, og læt svo útrætt um málið.