26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

83. mál, útrýming fjárkláða

Þorleifur Jónsson:

Þegar þetta mál var hjer til umr. síðast, skaut jeg því til landbn., hvort hún vildi ekki breyta frv. þannig, að fram fari kláðaskoðun um land alt, áður en hafist væri handa um böðun. Nefndin hefir ekki tekið þetta til greina, og því ber jeg fram brtt. í þessa átt ásamt tveim öðrum þm. Mjer finst hastarlegt, að Alþingi fari að setja lög um útrýmingarböðun, áður en fengin sje vitneskja um, hve mikil brögð eru að útbreiðslu kláðans. Jeg hefi ekki í umr. hjer heyrt neina skýrslu eða fengið neinar upplýsingar um, hve útbreiddur kláðinn er nú. Um það er ekkert í skjölum frá nefndinni, og hv. frsm. (ÁJ) hefir ekki gefið um það neinar upplýsingar. Mjer finst því eiga að renna hjer nokkuð blint í sjóinn. Mjer hefir verið sagt, að nú væri minni kláði fyrir austan fjall en verið hefði fyrir nokkrum árum. Í Mýrasýslu er hann sagður upprættur. Ef þetta er rjett, bendir það í þá átt, að lækna megi kláða, ef honum er tekið tak, þar sem hann er. En til þess að ganga úr skugga um, hvar kláðinn er, sje jeg ekki annað ráð en fyrirskipuð verði kláðaskoðun um land alt, eins og brtt. okkar fer fram á. Þessi skoðun ætti að fara fram undir eftirliti dýralækna og sveitarstjórna og yrði að vera sem öruggust í alla staði. Skoðunarmenn yrðu skipaðir af dýralækni, og gætu þeir jafnframt kent mönnum að þekkja kláðann. Ef í ljós kæmi, að kláðinn væri mjög útbreiddur, gerir till. okkar ráð fyrir, að atvrh. verði falið að láta fara fram útrýmingarböðun á þann hátt, sem lýst er. Ef svo reyndist, að kláði væri ekki nema í 4–5 sýslum eða svo, og kannske á örfáum bæjum, væri viðsjárvert að láta fara fram útrýmingarböðun um land alt, því kostnaður, fóðureyðsla og ýms óþægindi yrði ekki lítilsháttar. Það er engum vafa bundið; að á ýmsum svæðum hefir verið kláðalaust í mörg ár, eða svo er álitið. Reyndist svo, að kláðinn væri útbreiddari en búist er við, yrðu menn fúsari að vinna að málinu og öllum framkvæmdum.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir komið fram með brtt. á þskj. 421, við brtt. okkar þm. Borgf. (PO) og þm. V.-Sk. (JK), á þskj. 420, þess efnis, að útrýmingarböðun skuli því aðeins fara fram, að Búnaðarfjelag Íslands og búnaðarsamböndin telji, að heyafli hafi orðið svo mikill, að áhættulaust sje að láta böðunina fara fram þessvegna. Jeg er samþykkur þessari brtt., því að það er ákaflega hæpið að binda böðunina við eitt tiltekið ár, t. d. áramótin 1928–29, því vel getur árferði næsta sumar á undan orðið þá svo slæmt, að bændur megi ekki við því að ala fje aukreitis vegna baðananna.

Þá kem jeg að 2. brtt. okkar á þskj. 420, um nýja 2. grein inn í frv., þess efnis, að það megi undanskilja almennri böðun þau hjeruð eða landshluta, sem kláða hefir ekki orðið vart í, að því tilskyldu, að dýralæknir samþykki það. Jeg skal í þessu sambandi taka það fram, að jeg veit ekki til, að kláða hafi orðið vart í Austur-Skaftafellssýslu um langan aldur, og jeg held helst, að kláði hafi aldrei verið þar, hvorki fyr nje síðar, og jeg hygg einnig, að hans hafi alls eigi orðið vart á síðari áratugum í Vestur-Skaftafellssýslu, og yfir höfuð hafa litlar sögur farið af kláða á Austurlandi á síðari árum, og er þó venja, að slíkir hlutir spyrjist, ef mikil brögð eru að. En ef svo er, að stór svæði á landinu eru ef til vill alveg laus við þenna sjúkdóm, tel jeg rjett að undanþiggja þau ákvæðum þessara laga, einkum ef um litlar samgöngur fjenaðarins er að ræða. Það er því aðeins óþarfa kostnaður, að baða fje þrisvar sinnum, þar sem fjeð er alheilbrigt og kláða hefir alls ekki orðið vart í mörg ár. Ef t. d. enginn kláði finst á svæðinu frá Jökulsá á Fjöllum að Skeiðarársandi, verð jeg að segja, að þetta svæði alt er svo vel takmarkað frá náttúrunnar hendi, að hættulaust ætti að vera að undanþiggja þessi hjeruð algerlega almennri útrýmingarböðun. Þetta á þó aðeins að ske að því tilskildu, að dýralæknir samþykki, og ber ríkisstjórninni að leita hlutaðeigandi dýralæknis um þetta. Telji dýralæknir agnúa á því að undanþiggja einstök hjeruð útrýmingarböðuninni, skal skylt að fara eftir tillögum hans. En jeg tel æskilegt, að þessi undanþáguheimild komist inn í lögin. 4. brtt. b-liðurinn er um það, að auk hluta andvirðis baðlyfja og flutningskostnaðar á hafnir greiði ríkissjóður einnig skoðunar- og eftirlitskostnað allan við böðunina. Jeg skal ekki fjölyrða um þetta atriði, en vil þó taka það fram, að þetta er sjálfsagt, að skoðanirnar sjeu einnig greiddar úr ríkissjóði og eftirlitið með þeim.

Í raun og veru er það mesta neyðarúrræði, að verða að skipa fyrir almenna útrýmingarböðun, því að ef almennur áhugi er vaknaður á því að lækna fjárkláðann og eftirlit af hendi dýralækna og ríkisstjórnar er mjög öflugt, tel jeg það beinan klaufaskap, ef ekki er hægt að halda kláðanum í skefjum, að minsta kosti meðan hann er ekki orðinn því magnaðri. Jeg tel og mjög hæpið, að það takist að hafa svo hendur á hverri kind á landinu, að hægt verði að segja, að nú hafi síðasti kláðamaurinn á landinu verið drepinn. Jeg hygg, að það verði seint hægt alveg að fullyrða, að öllum kláða hafi verið útrýmt. Það ber t. d. oft við, að fje gengur úti til fjalla allan veturinn og kemst ekki undir manna hendur fyr en næsta haust þar á eftir, og ef eitthvað af þessu fje hefir verið sjúkt, getur kláðinn þannig sloppið við tortýminguna. En svona tilfelli um útigangsfje eru ekki sjaldgæf. Mjer finst málið vera svo stórt, að ekki sje rjett að ana út í útrýmingarböðun, fyr en sannprófað er, hve mikið fjárkláðinn er útbreiddur, og þessvegna þurfa skoðanir að fara fram, áður en ráðist er í slíkt.

Ef það kemur í ljós við skoðanirnar, að kláðinn er mjög útbreiddur, þá myndi jeg ekki setja mig á móti því, að rækileg tilraun væri gerð til þess að útrýma honum með því að fyrirskipa þrjár baðanir.