26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (2226)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Árni Jónsson):

Hæstv. atvrh. (MG) hefir talað um þessar brtt., sem komið hafa frá hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og hv. þm. Str (TrÞ), svo að jeg get verið stuttorður. Hæstv. atvrh. gat þess, að kláðinn væri að aukast, og væri þess vegna tímaspursmál, hvenær hann kæmi á sum svæði landsins. En till. hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) byggjast ekki á því, að óþarft sje að baða, þar sem kláða hefir orðið vart. Hv. þm. hafði orð á því, að honum þætti háskalegt að skylda menn til að baða á þeim stöðum, sem kláða hefir ekki orðið vart á seinustu árum. Og hann gat þess jafnframt, að ef það sýndi sig við þessa skoðun, sem hann gerir ráð fyrir, að kláðinn væri svo að segja um land alt, þá myndu menn fá meiri áhuga fyrir böðunum en ella. Nú hafa stjórnarráðinu borist skýrslur um þetta úr flestum sýslum landsins. Hefir þó — eins og hæstv. atvrh. (MG) gat um — eflaust ekki verið getið um öll þau tilfelli, sem upp hafa komið. Jeg hefi hjer í höndum útdrátt, sem sýnir, hve kláðinn var útbreiddur 1922–25. þá gerði kláðinn vart við sig í Húnavatns-, Suður-Múla-, Borgarfjarðar-, Eyjafjarðar-, Norður-Ísafjarðar-, Skagafjarðar-, Stranda- og Rangárvallasýslu og dálítið í Árnes-, Snæfellsnes-, Barðastrandar- og Norður-Múlasýslu. (HK: 1925 í Barðastrandarsýslu?). Líklega heldur á þessu ári, og þá er hann þar nú sem stendur. Það eru þá örfáar sýslur á öllu landinu, þar sem ekki hefir orðið kláða vart þessi árin. Það eru Skaftafellssýslur og Þingeyjarsýslur. Að minsta kosti eru þær ekki á þessari skýrslu, og mjer vitanlega liggja ekki fyrir skýrslur í stjórnarráðinu um kláða í þessum sýslum. Hinsvegar er ómögulegt að fullyrða, að þær sjeu fríar við hann. Fje gengur saman milli AusturSkaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, svo að vel getur kláðinn borist á milli. Það er auðsætt, að kláðinn er svo víða, að þessvegna ættu menn að hafa fullan áhuga að útrýma honum. Býst jeg við, að hv. þm. A-Sk. (ÞorlJ) snúist hugur, þegar hann hefir fengið þessar upplýsingar.

Hv. þm. hjelt, að kláðinn hefði ekki verið á Austurlandi síðustu árin, eða ekki frá Jökulsá til Skeiðarársands. Því miður hefir fundist kláði í báðum Múlasýslum á síðustu árum.

Þá kvaðst hv. þm. (ÞorlJ) halda, að það mætti halda kláðanum niðri með núgildandi lögum. Í núgildandi lögum er fyrirskipað eitt bað árlega. En eins og margbúið er að taka fram, er eitt bað ekki nægilegt til útrýmingar. En það var dálítil mótsögn í því hjá hv. þm., þegar hann var efablandinn um það, að þessar baðanir mundu nægja. Mjer fanst hann vonlaus um, að hægt væri að útrýma með þremur böðunum, þó hann teldi alls ekki vonlaust um það með einni böðun.

Hv. þm. Str. (TrÞ)) hefi jeg fáu að svara. Mjer þykir vænt um að heyra, að hann er orðinn eindreginn stuðningsmaður þessa frv., og það því fremur, sem mjer fanst blása heldur kuldalega úr þeirri átt við síðustu umr. málsins. Hann talaði um, hvað sjer hefði fundist óviðurkvæmilegt af mjer að kasta rýrð á þá, sem stóðu að kláðamálinu eftir aldamótin. Jeg get ekki gengið inn á, að svo hafi verið. Jeg gat þess við 2. umr. og held fast við það, að það er ekki hægt að kasta rýrð á menn fyrir þetta. Þeir gerðu sitt besta og framkvæmdu böðunina eftir þeirra tíma þekkingu. Nú er komin frekari reynsla á þessi mál. Það er þegar búið að sýna sig, að þessar ráðstafanir hafa ekki dugað, og þá er eðlilegt, að frá þeim sje vikið. Með því er alls ekki verið að kasta neinni rýrð á þessa menn.

Hv. þm. (TrÞ) gat þess, að ef nægilegur vilji og festa hefði fengist frá bænda hálfu, þá hefði mátt vinna bug á kláðanum. Honum þótti ummæli mín í sinn garð koma úr hörðustu átt. Jeg vil þá segja, að á eftir þeim traustsyfirlýsingum, sem hann hefir í tíma og ótíma gefið íslenskum bændum, þá virðist mjer þessi ummæli hans koma úr hörðustu átt, Og jeg býst við, að yfirlýsing hv. þm. um það, að hann væri ekki trúaður á, að þessar ráðstafanir myndu drepa síðasta maurinn í landinu, hún byggist á því, að hann hafi ekki nægilega trú á þeim, sem hlut eiga að máli, til þess að fylgja þeim reglum, sem settar verða í þessu efni. Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að jeg hefi þá trú á íslenskum bændum, að þeim takist að útrýma fjárkláðanum með þeim ráðstöfunum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Þótt hv. þm. (TrÞ) sje hlyntur frv., var hann að tala um það, að nauðsynlegt væri, að fram færi frekari undirbúningur, svo sem skoðun. Eins og jeg hefi tekið fram í umr. um þetta mál, þá er þessi skoðun óskaplega stopull grundvöllur til þess að byggja á, vegna þess að kláðinn getur leynst svo, að varla sje mögulegt að hafa upp á honum. En það er þegar sýnt, að kláðinn er í hjer um bil öllum sýslum landsins. Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú svarað nokkru um þann þunga skatt á bændum vegna heygjafar meðan á böðun stendur. það er náttúrlega rjett, að þetta verður til að auka heygjöfina að nokkru. En jeg held þessi útreikningur sje nokkuð hár. Þar sem jeg þekki til, þarf alls ekki að gefa inni meira en 2–4 daga við hverja böðun. Hitt getur ekki borið sig, að þetta alment skoðað þurfi að leiða af sjer mánaðar innistöðu; nema þá í þeirri tíð, sem fje er alls ekki beitt. En þá kemur alt í sama stað niður. þessi útreikningur hv. þm. Str. (TrÞ) er svo fáránlegur. (TrÞ: Það er ekki minn útreikningur). Að vísu er það rjett, að hv. þm. hefir þetta eftir Halldóri á Hvanneyri, en enginn vandi er að komast að þessari niðurstöðu um heyeyðsluna, þegar gengið er út frá mánaðar innigjöf, en það held jeg sje algerlega skakt.

Hv. þm. sagði, að 1/6 af öllum töðufeng á landinu færi í þetta. Mjer finst það ekki geta náð nokkurri átt, að stofnað verði til almenns heyleysis með þessu.

Hvað viðvíkur till., sem hv. þm. Str. (TrÞ) ber fram, þá kom hún fyrst til útbýtingar á þessum fundi, svo að nefndin hefir ekki getað tekið neina afstöðu til hennar enn. En þetta hefir borið á góma á nefndarfundum, hvort þyrfti að vera sjerstakt ákvæði, ef svo illa tækist til, að alment heyleysi væri um land alt. En nefndinni fanst ástæðulaust að setja um þetta ákvæði í frv., vegna þess að hún taldi víst, að fresta mætti að framkvæma lögin, og hver stjórn mundi gera það, ef sjerstaklega illa stæði á. Vil jeg skjóta því til hæstv. atvrh., hvernig hann fyrir sitt leyti lítur á þetta.