26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (2227)

83. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson:

Örfá orð út af því, sem hæstv. atvrh. (MG) og hv. frsm. (ÁJ) sögðu um mína till. á þskj. 421. Hæstv. atvrh. skildi hana þannig, að það þyrfti ekki nema eitt nei hjá einu búnaðarsambandi til þess að stöðva þetta alt saman. Mín hugsun er einmitt, að sú ætti ekki að verða útkoman; og þess vegna var það, að jeg nefndi ekki einungis búnaðarsambönd, heldur Búnaðarfjelag Íslands, sem er landsstofnun. Jeg ætlast til, að stjórnin geti haft í hendi sinni að skera úr um það, ef um einhvern smávægilegan ágreining væri að ræða. Hinsvegar get jeg fallst á það, að þessi till., sem maður hefir orðið að bera fram fljótlega í miklu annríki, sje ekki alstaðar greinilega orðuð, og mætti koma skýrar fram, að þótt orkað gæti tvímælis um einhvern stað á landinu um heyöflun, þá mætti það ekki stöðva framkvæmdir. Vil jeg því leyfa mjer að koma með skriflega brtt. og lesa hana með leyfi hæstv. forseta.

„Fyrir orðin: „Búnaðarfjelag Íslands og búnaðarsamböndin“ komi: „Búnaðarfjelag Íslands að fengnum umsögnum frá búnaðarsamböndunum.“

Með öðrum orðum, að það sje landsstofnunin, sem afli þessara upplýsinga og beri till. fram fyrir stjórnina. Hygg jeg, að það, sem hæstv. atvrh. (MG) setti fyrir sig, sje leyst með þessari brtt.

Þá hafa hæstv. atvrh. (MG) og hv. frsm. (ÁJ) talið, að þessi útreikningur, sem jeg kom fram með um heyeyðsluna, næði ekki nokkurri átt, eins og þeir orðuðu það, Mjer þykir það nokkuð hart að fella þann dóm um þetta, þar sem jeg gerði grein fyrir heimildum fyrir þessum útreikningi. Jeg geri ráð fyrir, að ekki margir á þessu landi hafi nánari þekkingu á, hvað þurfi að gefa skepnum undir þessum kringumstæðum. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá vil jeg ekki efa, að það sje rjett, að þessar þrjár baðanir hafi í för með sjer 30 daga innistöðu. Það gengur áreiðanlega nærri fjenu að baða það þrisvar í rykk. Víða þarf að vera talsvert mikill rekstur á fjenu, því að laugar eru ekki til á hverjum bæ. Ekki mun hægt að efa, að 600 þús. fjár sje á landinu, eða að kindin þurfi eitt kg. á dag, Og þá er útkoman 18 miljónir kg. Það, sem helst er vafasamt í þessari áætlun, er það, hvort eigi ekki að taka meira en helming frá. En jeg álít þetta nær lagi. Það er ekki einungis að líta á þessa 30 daga, sem gert er ráð fyrir, að fjeð standi inni, heldur líka, að það, sem eftir er vetrarins, verður fjeð mun óþolnara til beitar og óhraustara. Þessvegna vil jeg hiklaust halda mjer við þessa áætlun. Og þess vegna segi jeg: Það er um mikið að ræða, upp undir 1/6 af meðaltöðufeng ársins.

Hæstv. atvrh. (MG) ljet einhver orð falla um það, að komið væri annað hljóð í strokkinn hjá mjer viðvíkjandi þessu frv. Mjer fanst málið ekki nægilega undirbúið. Það held jeg fast við. En það hljóð, sem aðallega kom úr mínum strokk, voru mótmæli gegn þeim ásökunum í greinargerð frv. til þeirra mætu manna, sem stóðu fyrir böðunum 1903–5. En við fyrri umr. málsins var mín afstaða alls ekki á móti sjálfri megin-stefnu frv.