26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

83. mál, útrýming fjárkláða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg gleymdi að svara fyrirspurn hv. frsm. (ÁJ) um það, hvort ekki væri unt að fresta böðun, ef bændur hefðu heyjað illa.

Það er hægt að gera það með bráðabirgðalögum, en jeg býst ekki við, að nein stjórn grípi til þess, nema heyskapur hafi verið mjög slæmur á öllu landinu.

Hv. þm. Barð. (HK) sagði, að atvinnumálaráðherra gæti hvenær sem er látið fara fram útrýmingarböðun, og á hann þar víst við tilskipun frá 1870. En hún er eigi nóg heimild nema á grunuðum svæðum. Heimildin er ekki nærri því eins víðtæk og þetta frv., enda hefir jafnan verið litið svo á á þingi, að til útrýmingarböðunar þyrfti beina lagaheimild.

Þá spurði sami hv. þm. (HK), hvað hefði verið gert við kláðann í Barðastrandarsýslu. Jeg man ekki eftir því sjerstaklega, en jeg býst við, að fyrirskipaðar hafi verið tvær baðanir á þeim bæjum, þar sem kláði var, og á þeim bæjum öðrum, er samgöngur höfðu verið á milli síðan í haust.

Hv. þm. V-Sk. (JK) gat þess sem dæmis um varkárni Vestur-Skaftfellinga, að þeir böðuðu jafnan fje sitt, er því væri skilað úr fóðrum. En baða þeir þá tvisvar? (JK: Nei). Þá er það fje ekki trygt gegn fjárkláða.