11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Þegar nefndin hafði athugað frv. þetta, komst hún að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera fullskjótráðið að lögskipa þegar allsherjar baðanir til útrýmingar fjárkláðanum. Svo að vitanlegt væri, höfðu ekki komið fram neinar óskir um þetta frá bændum, eða að þeir teldu þetta nauðsynlegt. Nefndin áleit því, að það væri sjerstaklega ástæða til að bera þetta mál undir bændur og aðra sauðfjáreigendur úti um land, áður en því yrði ráðið til lykta. Það er flestum vitanlegt og nefndinni vel kunnugt, að í sumum sýslum landsins verður fjárkláðans vart, án þess þó að hjer þurfi til skjótra ráða að taka, eins og sjest á því, að sauðfjáreigendur kvarta ekki. — Hinsvegar er það talið alveg víst, að í öðrum sýslum, einkum sunnanlands, finnist ekki fjárkláði. Þegar nú þannig er ástatt, þá virðist nefndinni nægur tími fyrir hendi til þess að leita nánari upplýsinga um þetta, áður en útrýmingarböðun er lögskipuð, og því vill hún fresta því, að minsta kosti til næsta þings. Eins og málinu nú horfir við, og tekið er fram í nál., telur nefndin rjett að leggja það til við háttv. þingdeild, að farið verði fram á það við hæstv. ríkisstjórn, að leita umsagnar 6 bænda út um land um þetta mál, fyrir næsta þing, er að sjálfsögðu mundi skipa þessu máli eftir því, sem þörf krefur og bændur alment óska. — Nefndin taldi því rjett að bera fram rökstudda dagskrá þess efnis, að stjórnin leiti umsagna hrepps- og sýslunefnda um þetta mál, áður en lengra verði farið.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta, en leyfi mjer fyrir mína hönd og meðnefndarmanna minna að óska þess, að málið verði afgreitt með dagskrá þeirri, sem er að finna á þskj. 532.