11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2249)

83. mál, útrýming fjárkláða

Ágúst Helgason:

Hv. meðnefndarmenn mínir eru þegar búnir að lýsa vel og rækilega afstöðu nefndarinnar til þessa máls, en jeg vil taka fram það, sem einkum vakti fyrir mjer. Jeg er ekki viss um, að þörf sje á svona mörgum útrýmingaböðum. Kostnaðurinn er líka gífurlegur við þrefalda böðun. Og hugsum okkur t. d. sveitir í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Langanesi og Melrakkasljettu, þar sem fje gengur sjálfala. Bændur þeirra hjeraða yrðu neyddir til að fella niður fje sitt, ef fyrirskipaðar eru þrefaldar baðanir. Jeg held, að þar sem nú er búið að gefa baðlyfjaverslunina frjálsa, og bændur geta nú notað það lyf, sem reynst hefir þeim best og sýnt hefir, að hægt er að læknafjárkláðann, geti menn verið vongóðir um, að ef bændur vilja lækna kláðann, geti þeir það án útrýmingarbaðana. Í mörgum sýslum hefir tekist að útrýma kláðanum alveg, með því að þríbaða, þar sem grunur hefir verið um fjárkláða. Þetta er ekkert smámál og mjög viðurhlutamikið að skella þessum þreföldu útrýmingarböðunum á bændur, án þess að gefa þeim kost á að láta uppi álit sitt.