26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra(JÞ)*:

Þessar umr. gefa mjer ekki ástæðu til langra andmæla. Þær hafa að mestu leyti snúist um það, sem liðið er og um garð gengið, en það sje jeg ekki ástæðu til að rifja upp, nema þá að því leyti, sem það snertir það, sem fram undan er. Það hefir líka í því sambandi skotið upp ýmiskonar misskilningi á þessu máli, sem jeg verð að telja, að sje hættulegur fyrir framtíðina, ef hann fengi að festa rætur, og það er um það, sem jeg ætla að tala.

Jeg ætla þá að byrja á því, að mótmæla þeirri staðhæfing hv. flm. (TrÞ), að fleiri till. hefðu komið úr gengisnefnd til stjórnarinnar en sú eina, sem hann telur í greinargerð sinni og umr. hafa nú snúist um að nokkru leyti. Jeg sagði það líka um daginn, að stjórninni hefði ekki borist önnur tillaga en sú, frá hv. flm. (TrÞ) um stöðvun íslensku krónunnar, þegar sterlingspundið var skráð á 24 krónur. Hinsvegar gat jeg þess þá, að tillagan hefði legið á því sviði, að stjórnin hefði ekki sjeð sjer fært að sinna henni.

Nú bætir hv. flm. (TrÞ) við annari till., sem hann segir einnig komna til stjórnarinnar úr gengisnefnd, en það er ósk hans sjálfs eða tilmæli um, að stjórnin kveðji saman aukaþing, til þess að taka endanlega ákvörðun um, hvaða verði íslenska krónan skuli skráð. Þetta get jeg ekki undir neinum kringumstæðum skoðað sem tillögu gengisnefndar, þó að hann sjálfur, einn síns liðs og atkvæðislaus í gengisnefndinni, láti þá ósk uppi við stjórnina, að líklegasta lausnin á gengismálinu sje sú, að kveðja saman aukaþing. Hjer er um alt annað mál að ræða og annars eðlis. Það er heldur ekki mitt að svara því, hversvegna stjórnin varð ekki við því, að kveðja til aukaþings, þótt 2–3 þm. ljetu þá ósk uppi, að með því mundi málinu bjargað.

Þessvegna held jeg mjer við það, sem jeg hefi áður sagt, að stjórninni hefir aðeins borist ein till. úr gengisnefnd, eins og hv. flm. (TrÞ) tekur rjettilega fram í greinargerð sinni.

Þá hefir því verið haldið fram af hv. flm. (TrÞ) og árjettað frekar af hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að reynslan hafi nú sýnt, að áhættulaust hefði verið fyrir bankana að halda áfram að kaupa erlendan gjaldeyri, er hann bauðst, með ákveðnu verði. Þetta er rökstutt með því, að komast megi hjá öllum óþægindum þessa peningastraums inn í landið, með því að leggja innstæðuna í banka erlendis, lána ekkert út, en geyma fjeð vaxtalaust í bókum bankans. Þegar svo að útlendingarnir kalla eftir skuld sinni, þá sje innstæðunni skilað, aðeins á þann hátt, að færa hana á milli í bókum bankans.

Því er síst að neita, að þetta lítur vel og sakleysislega út, svona við fyrstu sýn, en sá er galli á, að svona gengur það ekki í veruleikanum.

Jeg skal þá fyrst minnast á, að ef erlendur maður á hjer innstæðu í banka, þá er um tvo aðilja að ræða, eigandann og bankann. Bankinn verður að greiða þá vexti af innstæðunni, sem útlendingurinn gerir sig ánægðan með og taka tillit til þeirra, er hann lánar fjeð út. Hitt, að halda fjenu vaxtalausu í bankanum, getur því aðeins átt sjer stað, að báðir málsaðiljar komi sjer saman um það. En fyrir því mun varla þurfa að gera ráð. Allir vilja hafa vexti af peningum sínum, og þá sem hæsta, þessvegna mundi vandalaust fyrir útlendinginn að ávaxta peninga sína einhversstaðar annarsstaðar, enda meiri freisting fyrir hann að leita út fyrir bankann, eftir því sem vextir þar eru lægri. Og jeg vil bæta því við, að sú eftirspurn hefir verið, og er, eftir lánsfje, að það mundi ekki reynast sjerstaklega erfitt þessum erlendu innstæðueigendum að finna þá menn hjer innanlands, sem mundu fúsir til þess að hjálpa þeim að ávaxta fje sitt með góðum vöxtum.

Nú er viðurkent, að bankarnir hafa ekki verið örlátir á lánsfje, og ekkert fje runnið frá þeim til neinna muna út í atvinnulífið síðast liðið haust. Hefir því valdið varkárni bankanna, eins og þegar hefir verið tekið fram.

Og hver er þá niðurstaðan. Háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) tók af mjer ómakið að svara því. Hann sagði, að bankarnir ættu erlendis um 20 þús. sterlingspund eða tæpa ½ miljón ísl. króna, og að innstæða erlendra manna í bönkum hjer mundi nema um 3½ miljón króna. Hvað er þá orðið um mismuninni, 2½–3 miljónir kr. Ekki er sú upphæð geymd í kassa bankanna, nei, hún er runnin út í atvinnulífið eins og háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) tók rjettilega fram. Við verðum að greiða þessa upphæð af andvirði þeirrar vöru, sem flutt verður út á fyrra helmingi þessa árs.

Nei, það er falskenning að halda því fram, að engin takmörk sjeu fyrir því, hvað veita megi miklu flóði erlends gjaldeyris inn í landið, og það er sú falskenning, sem steypir fjármálum hvaða þjóðar sem er, og hlýtur að leiða til þess fyr en síðar, að stýfing verði óhjákvæmileg. (TrÞ: Þetta var ekki í till. þeirri, sem kom frá gengisnefnd). Hv. flm. (TrÞ) lagði þó áherslu á það í till., að hættulaust væri að veita móttöku innstæðu innlendra manna, en þetta hefir verið betur árjettað af hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), eins og jeg veit, að hann mun kannast við. (ÁÁ: Jeg kannast við það). Viðskiftalífið er það víðtækt, að við getum ekki skotið okkur undan því, að fylgja þeim varúðarreglum, sem af öllum víðsýnum fjármálamönnum eru taldar sjálfsagðar.

Jeg hefi ekki mikla tilhneiginu til að rökræða við hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um bók mína „Lággengi“, þó jeg hinsvegar þakki honum fyrir að draga hana hjer inn í þingsalinn með lofsamlegum ummælum. En einu atriði í því sambandi verð jeg þó að svara lítilsháttar.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að það stæði einhversstaðar í „þessari ágætu bók“, eins og hann orðaði það, að allar gengissveiflur ættu rætur í atvinnulífi þjóðarinnar, en þær væru þó komnar undir framboði gjaldeyris, og fanst honum þetta ósamræmi.

En þetta er ekkert ósamræmi, enda er því hvergi haldið fram, þar sem talað er um framboð gjaldeyris og áhrif þess á gengið, að í því sje annað fólgið en að nokkur hluti af afurðum atvinnureksturs þjóðarinnar hafi farið fram hjá bönkunum. Og jeg vil benda á það, að síðasta sumar átti slíkt framboð sjer stað í atvinnulífinu. (ÁÁ: Er ráðherrann þeirrar skoðunar, að slíkt gengisbrask hafi átt sjer stað?). Jeg get svarað hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) því, að allir þeir, sem stóðu að gengismálinu, höfðu gætur á því, hvort slíkar „spekulationir“ ættu sjer stað í stórum stíl. (ÁÁ: Og hver varð niðurstaðan?). Ja, menn geta rifist um það mikið eða lítið, sem „spekúlerað“ var með framhjá bönkunum, en hinu mun enginn halda fram, að slík „spekúlation“ hafi ekki átt sjer stað.

Nokkur hluti hinnar útlendu innstæðu hefir orðið innlyksa í atvinnurekstri vorum. Það er hægt að sýna það reikningslega, að útlendingar, sem keyptu gjaldeyri, hefðu eignast að minsta kosti 1 miljón íslenskra króna meira, ef haldið hefði verið áfram með óbreyttu gengi. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) spurði, hvort jeg hjeldi, að framboðið hefði takmarkast af hinu hækkandi verði íslensku krónunnar. Já, það er sannfæring mín, að straumurinn hefði haldið áfram og meira verið „spekúlerað“, ef við hefðum ekki varist þess með hækkandi gengi, eða lækkandi tilboðum á erlendum gjaldeyri. Jeg þarf ekki að ræða mikið við hv. þm. um möguleikana á því að reikna út eða finna kaupmáttarjafngengið. Vegna mikilla breytinga hjer síðan 1914 er mjög erfitt að framkvæma þá útreikninga. Jeg gerði tilraun til þess í bók minni „Lággengi“, en hefi ekki talið, að jeg gæti gert það, svo að ábyggilegt væri. En þetta er verulegt atriði, vegna þess að þetta frv. byggir annað höfuðákvæði sitt á því, að slíkt sje mögulegt. Það verður ekki fundið hlutfallið milli peningagengis og verðgildis peninga innanlands, nema haldið sje föstu genginu svo lengi, að verðgildið komist í samræmi við það.

Þetta hefir verið gert, þar sem gengið hefir verið stöðvað. Í Finnlandi var því haldið föstu í 3½ ár áður en þeir lögfestu hjá sjer gengið. Sama var gert í Svíþjóð, og þessi aðferð hefir yfirleitt verið notuð alstaðar.

Þá vil jeg leiðrjetta það, sem háttv. þm. sagði um „egaliseringssjóð“ Dana. ........*

*Hjer vantar í ræðuna frá hendi skrifarans

Út af því, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, að komið hefði fram hjer í umr., að kreppa sjávarútvegsins væri sjálfskaparvíti, þá held jeg, að enginn hafi komist svo að orði, eða að minsta kosti hefi jeg ekki látið nein kaldyrði falla um þennan atvinnuveg, og jeg held, að þetta sje í fyrsta sinn í mörg ár, sem ekki hafa fallið kaldyrði í hans garð hjer á Alþingi, er um hann hefir verið rætt. En það er eðlilegur gangur hlutanna, að eftir uppgangstíma komi krepputímar. Á uppgangstímum kemur of mikið af framleiðslu á markaðinn, markaðurinn þrengist, verðið lækkar. Þetta er aðeins venjulegur gangur. Mjer telst svo til, að fáanlegt verð fyrir stórfisk sje nú ¼ lægra en það ætti að vera borið saman við verðlag fyrir stríðið. Fyrir stríð var verðið 80 kr. fyrir skippundið. Því ættum við að fá 160 kr. nú, ef kaupendur ljetu jafnmikið verðmæti af hendi, en markaðurinn gefur ekki vonir um hærra verð en 120 kr. Þetta er mikið verðfall og hörð kreppa, þegar þar við bætist erfiðleikar og hörð framleiðsluskilyrði vegna undanfarandi gengishækkunar. En jeg er ekki hræddur við þá hlið, sem háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) lýsti, afstöðu bankanna út á við. Jeg efa ekki, að þessi kreppa dregur mjög úr innflutningi, svo hann verður minni en í fyrra, en þá var hann mjög blómlegur. Jeg get tekið undir það, að mest ríður á því hjer nú, að taka saman höndum um það, að koma dýrtíðinni niður, þetta tekur til margra: kaupmanna, almennings, sem skiftir við þá, verkafólks, sem fengið hefir kauphækkun vegna gengislækkunarinnar, sem auðsjeð er, að atvinnuvegirnir geta ekki borið. Þetta er langþýðingarmesta atriðið, að minka dýrtíðina. Það hafa skeð atburðir í Danmörku, sem sýna, hve liðlega þetta getur gengið, þegar allir leggjast á eitt. Danir hafa orðið fyrir meiri gengishækkun á krónunni en við, en verð innanlands var rannsakað í febrúar, kom það í ljós, að verðlagið var komið niður, fullkomlega í samræmi við gengishækkun þá, sem orðin var. Enda var það svo, að ekki var hægt að taka sjer danskt blað í hönd, án þess að finna í því hvatningarorð um að koma dýrtíðinni niður. Þeir voru vel vakandi, og átti það eflaust mestan þátt í því, að svona fór. Þeir hafa trygt sjer til frambúðar þá gengishækkun, sem orðin er.

*Ólesið af ræðumanni.