06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

* það var aðeins af því að jeg kann ekki við, að umræðum þessum verði lokið, án þess að jeg tæki þar til máls, en að öðru leyti hafði jeg ekki hugsað mjer að skifta mjer af þeim ágreiningi, sem kominn er upp milli hv. meiri og minni hl. fjhn., því að jeg tel þá fullfæra til að eigast þar við. Mál þetta var talsvert rætt frá almennu sjónarmiði við 1. umr. þess og síðan hefir það alloft borið á góma í sambandi við ýms önnur mál.

Það er svo komið, að mjer skilst, að báðir nefndarhlutarnir viðurkenni; að verðlag á útlendum vörum sje í samræmi við hið núverandi gildi peninganna í viðskiftum landsmanna, og nærri mun láta, að á standist inn- og útflutningur úr landinu. Þessvegna fela viðskiftin það í sjer, að landsmenn fá jafnmikið af útlendum varningi fyrir útfluttar vörur hjeðan og þeim ber að fá. Það er þá ekki um það að ræða, að þjóðin tapi á núverandi gengi, samkvæmt skoðun nefndarhlutanna. Allir erfiðleikarnir nú af undanfarinni gengishækkun hljóta því að stafa af því, að við komum okkur illa saman um að skifta á milli okkar þeim verðmætum, sem til falla í þjóðarbúskapnum, t. d. er kaupgjaldið eitt af deiluatriðunum. Það er viðurkent, að verðlag á innlendum vörum er of hátt, en það mun lagast, ef kaupgjaldið kemst í samræmi við núverandi gengi á peningunum. En af þessu draga nefndarhlutarnir mismunandi ályktanir; og vill minni hl. stýfa peningana.

Hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) vill ekki láta tala um stýfingu fyrst um sinn, heldur festingu, og hann er að leitast við að sýna fram á, að báðir sjeu jafngóðir, festingarmenn, sem vilja verðfesta krónuna í 80 aurum, og þeir, sem vilja hafa hana í 100 aurum. Að hv. þm. (ÁÁ) vill ekki nefna þá verðfestingu, sem hann ræðir um, stýfingu, ber vott um fremur slæma samvisku, er hann vill ekki nota orð, sem er búið að fá fullkomna festu í málinu og er hin besta og fullkomnasta lýsing á því hugtaki, sem hjer ræðir um.

Það er fúslega viðurkent, að kaupgjaldið sje að krónutali of hátt á ýmsum sviðum, en síðan er þetta tilfært sem ástæða til að þjóðin gripi til þeirra óyndisúrræða að stýfa gengið.

Þjóðin hefir ávalt búið við miklar og margvíslegar verðlagssveiflur, því verðlag á útfluttum vörum hefir verið mjög breytilegt. Það hefir ýmist verið há- eða lággengi á afurðunum. Þegar verðlagið hefir fallið að mun, hefir kaupgjaldið orðið of hátt, svo að afrakstur framleiðenda hefir orðið of lítill til að standast framleiðslukostnaðinn, og það er ekkert útlit fyrir annað en þetta sama ástand haldi áfram í framtíðinni.

Ef á að stýfa peningana nú, vegna þess að kaupgjaldið sje of hátt, getur orðið að gera það aftur eftir 5–7 ár og oftar. Það er því hin mesta villa að halda því fram, að með festingunni verði hægt að reikna út fyrirfram alla hluti í ókominni framtíð. (ÁÁ: Þó það sje ekki alveg hægt, er þó meiri vissa). Það er ekki fremur hægt þá, því það yrði aðeins enn meiri óvissa; næsta stýfing væri altaf yfirvofandi.

Þeir, sem vilja stýfa nú vegna kaupgjaldsins, verða að búast við því, að það þurfi oftar að gera en í þetta eina skifti, því það verður ekki hægt að losna við verðlagssveiflur með þeim hætti. Jeg er ekkert hræddur við að sú kauplækkun, sem við nú þörfnumst, komi ekki. Kaupgjaldið fer eins og annað eftir framboði og eftirspurn, og það er engin hætta á, að þetta eðlilega lögmál viðskiftalífsins fái ekki beitt sinum venjulega krafti til að koma þeim jöfnuði á, sem þarf. (ÁÁ: Hvaða lögmál er þetta?). Jeg get vísað hv. þm. á allar venjulegar skóla- og kenslubækur í hagfræði, og getur hann þar lært það, sem þar er sagt, um þetta alviðurkenda lögmál viðskiftanna, um framboð og eftirspurn.

Það var aðeins eitt atriði af því, sem hv. þm. (ÁÁ) sagði, sem jeg ætla að nefna hjer. Hann kom með einhverja nýja skýringu, og óljósa þó, um dýrtíð, hvað væri dýrtíð. Hann virtist eitthvað tala um þetta sem hlutfallið milli vöruverðs og kaupmáttar peninganna, en þó var þetta alt hálf-þokukent hjá hv. þm. það er dýrtíð, þegar minna fæst af vörum fyrir sömu peninga en áður, eða fleiri peninga þarf til að kaupa sama vörumagn. þetta er dýrtíð, sem þó er ekki jafn-tilfinnanleg fyrir alla, en orsakar þó ýmislega röskun í þjóðfjelaginu, sem getur orðið all-tilfinnanleg á mörgum sviðum. Samkvæmt skýringum hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á dýrtíðinni og eðli hennar, vill hann endilega, ef dýrtíð skellur yfir, láta lögfesta hana þegar í stað. Hún má ekki ganga sinn eðlilega gang og hverfa aftur fyrir þeim kringumstæðum, sem rás viðburðanna gefur tilefni til. Nei, heldur á að grípa til ýmislegra óvenjulegra ráðstafana til að takast mætti að lögfesta dýrtíðina í landinu.

Jeg hefi þegar áður tekið fram það, sem jeg hefi að segja gegn stýfingu að nauðsynjalausu, og þarf því ekki að fara lengra út í það að þessu sinni. En af því hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) lagði svo mikla áherslu á, að það gætu komið þær kringumstæður, að engin mundi mæla gegn stýfingu, þá vil jeg segja aðeins það, að það geta stundum komið fyrir atvik, sem gerðu það að verkum, að meira rjettlæti væri í því að leyfa það, sem lögin ella banna eða refsa fyrir. Það gæti t. d. staðið svo á, að það væri meira rjettlæti í því, að leyfa bændum að svíkja vinnufólk sitt eitt árið, um tiltekinn hluta af kaupi þess, í stað þess að láta lögin neyða þá til að inna þær greiðslur af hendi, eða leyfa hjúum að stela af húsbændum sínum. En ekkert þjóðfjelag leyfir þegnum sínum að fara út á þær brautir, eða að fara út fyrir þau siðferðislegu takmörk, sem nauðsynleg eru til, að sambúð þegnanna verði viðunandi. Stýfing er ekki annað en lögleiðing þess, að annar helmingur landsmanna, skuldunautarnir, megi svíkja hinn helminginn, lánardrotnana. (ÓTh: Þetta er þveröfugt.). Sje það svo, eru það hrein mismæli, sem auðvelt er að leiðrjetta. það yrði að vera mjög rík nauðsyn, sem ekki væri unt að komast undan, ef það yrði talið forsvaranlegt að taka til slíkra óyndisúrræða.

Það er ekki hægt að ábyrgjast, að genginu verði haldið föstu, nema gerðar sjeu einhverjar sjerstakar ráðstafanir, og meiri hluti gengisnefndarinnar lýsti því, hvaða ráðstafanir það væru. Það er fyrst og fremst það, að ríkisstjórn taki þátt í áhættunni af gjaldeyrisversluninni með lántökum eða ábyrgð á lánum og þeim halla, sem verða kynni af notkun slíks láns. Jeg skil nál. meiri hlutans svo, sem það sje ekki hans skoðun, að það eigi að beita ríkisábyrgð á gengistöpum eða styrk úr ríkissjóði, því að meiri hlutinn segir sem svo, að svo lítil hætta sje samfara gjaldeyrisversluninni, að ekki þurfi til ríkisábyrgðar að koma. Jeg skil þessi ummæli og sambandið á milli þeirra þannig, að látin sje í ljós mjög eindregin ósk um, að gengið haldist óbreytt til næsta þings, en að meiri hlutinn vilji ekki gera tillögur um ráðstafanir til þess, að stjórnin leggi ríkisfje í áhættu. Jeg verð að játa, að þetta verður dálítið óljóst, eftir því á hvora málsgreinina í nál. er lögð meiri áhersla. Ef þetta er ekki rjett skilið hjá mjer, vænti jeg, að hv. frsm. (JAJ) leiðrjetti það.

Viðvíkjandi sjálfri tillögunni finst mjer, að þetta, sem jeg var að segja, felist einnig í sjálfri dagskrártillögunni, en það kynni þó að orka tvímælis um orðalagið á upphafi hennar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Neðri deild Alþingis lítur svo á, að ha1da beri núverandi gengi íslenskrar krónu föstu til næsta þings.“ Ef þetta er tekið eftir orðanna hljóðan, er það svo, að ef beri að halda því föstu, er hjer tiltekin skylda, sem hvílir á einhverjum, en í tillögunni er engin bending um, að það sje tilætlunin að leggja þetta sem skyldu á neinn. Gengið á erlendum gjaldeyri er ákveðið eftir framboði og eftirspurn. Jeg geri ráð fyrir, að samkvæmt till. líti neðri deild Alþingis svo á, að æskilegt sje, að núverandi gengi verði haldið föstu til næsta þings. Með þessum skilningi skal jeg ekki hafa á móti dagskránni. En jeg vil taka það fram, að

það er misskilningur hjá hv. frsm. minni hl. (ÁÁ), þegar hann heldur, að það þýði fult traust til fjármálaráðherra og stjórnarinnar um, að farið verði öðruvísi að en á síðasta ári. Jeg verð að segja um mig, að jeg veit ekki, í hverju jeg ætti að fara öðruvísi að en á síðasta ári. (ÁÁ: Ef eftirspurnin verður mikil, hvað gerir hæstv. fjrh. þá?). Það eru ekki þær kringumstæður fyrir hendi nú, sem voru fyrir hendi síðast liðið ár. Jeg get sem sagt fallist á rökstuddu dagskrána, ef hún er þannig skilin. En ef meiningin er að leggja skyldur á einhvern, þætti mjer æskilegt að fá að vita, hvort þær skyldur á að leggja á stjórnina. Ef þingið vill heimta eitthvað af stjórninni, verður það að leggja henni í hendur tækin og valdið til að framkvæma það.

*Ólesið af ræðumanni.