06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg skal eigi lengja umræður úr hófi fram og hefi þó margt að athuga og mörgu að svara. Sumt má bíða ósvarað. Háttv. deildarmenn hafa og að líkindum þegar myndað sjer skoðun og munu eigi frá víkja, hvað sem sagt verður.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að meiri hl. vildi ekkert gera, en hann og minni hl. fara eftir reynslu erlendra þjóða og áliti hinna merkustu hagfræðinga. Nefndi t. d. Þjóðverja, Tjekka og Finna, sem hefðu stýft gjaldeyri sinn. Hvað Þjóðverja snertir, þá er þetta eigi rjett, heldur hafa þeir tekið upp gullmark, sem er að minsta kosti jafnhátt og fyrir stríð. Hinsvegar hafa Tjekkar og Finnar stýft, hinir síðarnefndu t. d. í 1/6 gullgildis. En jeg hygg óhætt að segja, að aðstæður allar þar og hjer hafa verið næsta ólíkar, alvarlegri miklu, vegna verðlagsbreytinga á útflutningsvörum.

Jeg held, að allir verði að játa,að erfitt sje fyrir eina þjóð að koma aftur upp í gullgildi peningum, sem fallnir eru niður í 1/6 fyrra gullgengis. 1920 var gjaldeyrir Finna kominn niður í 7–8%, síðan hækkuðu þeir hann upp í 13% og stýfðu þar. Ef taka ætti þetta dæmi og heimfæra upp á okkur, ættum við að geta hækkað okkar krónu upp í gullverð. Tjekkar hækkuðu gjaldeyri sinn um tæpan 1/3 eða 30% áður en þeir stýfðu. Háttv. þm. benti á reynslu þeirra, er hækkað hefðu upp í gullgengi, t. d. Englendinga, og taldi afleiðingar þess það, er nú er þar að gerast. Jeg efast um, að vandræði þessi stafi af þessu, og verður ekki sannað, að þeim valdi gjaldeyrishækkun. Kolanámudeilur Englendinga eiga sjer rætur eldri öllum gengisbreytingum. Síðan um 1874, að minsta kosti, hafa menn þar sífelt brotið heilann um, hvern veg mætti verða afstýrt verkföllum og öðru slíku í þessari miklu iðngrein Englendinga. Háttv. þm. sagði, sem og satt er, að búast mætti við verðfalli á landbúnaðarafurðum þegar á næsta hausti. En hið mesta óráð fyrir landbúnaðinn væri að krefjast lækkaðs gengis nú. Vörur mundu þá hækka í verði. Verkamenn fengju þá ástæðu til að krefjast kauphækkunar, sem væri hið versta bragð landbúnaði vorum. Þá sagði hv. þm. ennfremur, að lægi við borð, að togaraflotanum yrði lagt upp eftir 3 vikur til mánuð. Hygg jeg það rjett vera. En því verður ekki varnað með lækkun á gengi, þó að pundið færi t. d. upp í 24 kr. hefir það ekki þau áhrif, að hægt sje að gera skipin út, vegna verðlags á erlendum mörkuðum. Annars veltur alt á því, hvort hægt er að koma verðlagi innanlands (þar á meðal kaupgjaldi) í samræmi við gildi eða kaupgetu ísl. krónunnar eins og nú er. Margir hafa trú á, að þetta takist, og það áður langt líður, og þeir ráða ekki til stýfingar. En hinir, sem ekki hafa trú á slíku, vilja færa ísl. kr. niður í það gildi, sem er í samræmi við innlent verðlag.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) virtist tregur til að lofa að stuðla að því, að verðlag innanlands nálgaðist kaupmátt krónunnar. Virtist hann vilja miða kaupgjald við þurftarlaun, með hliðsjón af því, hve margar stundir verkamaðurinn fengi vinnu. En að miða við vinnudaga fjölda er ekki rjett, því að ef vinna er of dýr, verður ekki unnið nema hið allra nauðsynlegasta, en ef kaupgjald er í samræmi við innlent verðlag, ganga fyrirtækin vel, og þá er vinna mikil, það er heilbrigðara, að vinnulaun komist í samræmi við gengi krónunnar, svo að von sje til, að atvinnuvegirnir beri sig. Háttv. þm. sagði, að kaupgjald gæti eigi fylgt markaðsverði. Rjett er það. En það getur og á að fylgja gengi og innlendu verðlagi. Mjer hefir skilist, að hv. þm. hafi lagt til síðast liðið haust, að kaupgjald í hafnarvinnunni yrði kr. 1,25 um klukkutímann, þar með lækkað um 11 –12% frá því sem áður var. Ef þetta var lagt til eftir verðlagi í haust, mætti það nú vera 5% lægra. Ef kaupgjald á ekki að stjórnast af innlendu verðlagi og gengi, ætti það að vera jafnhátt, hvort heldur vísitalan er 160 eða 400. Slíkar kröfur valda því, að fleiri og fleiri komast á þá skoðun, að lækka beri gullgildi peninganna, þeir, er slíkum kröfum halda fram, hjálpa á besta máta þeim, er stýfa vilja. Dylst engum, að ef verðlag innanlands fæst ekki lækkað með hækkandi gengi, þá lendir það í stöðvun atvinnuveganna, og sá möguleiki verður einn fyrir hendi, að stýfa. Þessi möguleiki getur komið, og því vill meiri hl. ekkert ákveða, hvorki til nje frá nú sem stendur.

Hv. frsm. minni hl. (AA) sagði, að seðlabanki, sem færi með seðlaútgáfu, mundi haga sjer eftir ályktunum Alþingis, eða ætti undir öllum kringumstæðum að gera það. En um það er næsta erfitt að fullyrði nokkuð.

Jeg segi fyrir mig, og jeg býst við fleiri, að væri jeg bankastjóri og Alþingi hefði aðra skoðun en jeg áliti heilbrigða, mundi jeg heldur fara frá en láta segja mjer, hvað jeg ætti að gera.

Hv. þm. talaði um, að samræmis væri þörf á innlendum og erlendum gjaldeyri. En á hvaða grundvelli á það að vera? Á innlendu vöruverði eða erlendu? Honum þótti og undarlegt, að jeg sagði, að engar hlutlausar þjóðir hefðu stýft, og taldi hann, að það ætti ekki að koma ófriði við. En heimilt er talið þjóðum, sem lenda í annari eins styrjöld og þeirri, er nú er nýlega um garð gengin og ekki er af þeirra völdum, að þær lentu í henni, sem þær reyndar segja hver um sig, heimilt er þeim talið, þó þær hafi önnur tök á fjármálum sínum en aðrar, sem ekki hafa orðið fyrir því óláni, að lenda í heimsstyrjöld, En þær sögðu: Við höfum lent í vandræðum styrjaldarinnar, land okkar hefir eyðilagst, við getur ekki staðið við fjármálaskuldbindingar okkar. Við strikum yfir þær. Við það er látið sitja. En jeg hygg, að það hefði verið tekið fastara á hlutunum, ef Danir eða Svíar hefðu viljað gera slíkt hið sama. Í meðvitund allra fjármálamanna er mikill munur á því, hvort vandræðin stafa af annara ráðstöfunum eða eigin tilverknaði. Hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) segist ekki vera trúaður á það, að kaupgjaldið færist niður, þar sem verðvísitala innlendu vörunnar sje 306, en á aðfluttum vörum sje hún 234. því sje óhugsandi að fá kaupgjaldið niður. Nú er þess að gæta, að verðlag á allflestri innlendri vöru er sett einu sinni á ári, því að það er ekki nema ein kauptíð, haustið. Þessvegna stendur verðlagið venjulega heilt ár, hvort sem það er of hátt eða lágt. Á þeim tíma, sem landbúnaðurinn seldi vörur sínar undir gengisverði, þá stóð það eitt ár, og hann bar hallann, nú er selt hærra verði en gengisverði, og tekur hann þá ágóðann. Jeg tók það fram, að útreikningar mínir á verðlagi innlendrar og erlendrar vöru og kaupgjaldinu gætu ekki verið með öllu ábyggilegir. Þeir geta að einhverju skakkað, en munu þó fara nærri sanni. Háttv. frsm. minni hl. sagði, að við ættum að hafa líkt gengi og viðskiftalöndin. En það er nú ekki hægt, því að í sumum löndum er lággengi, en í öðrum hágengi. Ítalía hefir t. d. lágt gengi, en Svíþjóð hinsvegar hátt. Við bæði þessi lönd skiftum við. En þau lönd, sem við skiftum mest við, hafa hærra gengi en við, svo sem England og Danmörk. Þá fullyrti hann, að afleiðingin af því að stýfa krónuna eða festa hana, væri sú, að við losnuðum við verðbreytingar, kreppur og vinnudeilur. Ef það væri nú rjett, að við losnuðum við þessi óþægindi við stýfingu, en þau margfölduðust við hækkun, þá væri spurning, hvort við ættum ekki að stýfa. En við losnum ekki við þessi óþægindi, þótt við stýfum. Það hafa verið stórar verðbreytingar í löndum, þar sem gengið er fast. Einnig hafa orðið kreppur og harðvítugar vinnudeilur. Þótt það sjeu nokkrir erfiðleikar að fá kaupgjaldið niður, samfara hækkandi gengi, þá álít jeg ekki, að það eigi nú þegar að taka ákvörðun um stýfingu gjaldeyrisins,

Jeg skal játa, að mörg rök hníga að því, að ekki hefði þurft að hækka gengið eins mikið og gert var á síðastliðnu hausti. (TrÞ: þurfti þá nokkuð að hækka það?). Já, jeg álít, að það hefði verið hættulegt, ef genginu hefði verið haldið óbreyttu. (TrÞ: En nú eru bankarnir stórskuldugir ytra). Það mætti vera góður búskapur, ef bankarnir skulduðu ekkert nú, þegar ekkert er flutt út af afurðum vertíðarinnar, og mikið er eftir frá síðast liðnu hausti. Það er óvanalegt, að ekkert skuli vera selt af húsþurkuðum fiski frá þessari vertíð, og lítið af saltfiski. Þegar þar við bætist, að þessi vertíð er ein með lökustu vertíðum, sem komið hafa, þá er ekki við því að búast, að stórútgerðin standi í miklum blóma.