06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Magnús Torfason:

Jeg hefi í öðru sambandi lýst skoðun minni, og skal því ekki vera margorður að þessu sinni. Jeg verð að líta svo á, að eins og ástatt er nú, hvert sem litið er, þá bendi alt til þess, að það hollasta fyrir okkur sje, að okkar króna haldist sem allra sveiflu minst. Og jeg játa fúslega, að það er ósk mín, að hún lækki ekki. Jeg mundi telja það mikla ógæfu, ef svo færi. Hinsvegar dylst mjer það ekki, að að því geti rekið, að við neyðumst til þess að lækka krónuna. En reki að því, þá verð jeg að leggja mikla áherslu á, að það verði ekki gert of seint, þess verði vandlega gætt, að lækka hana í tíma, en alt verði ekki látið reka stjórnlaust fyrir vindi og straumi.

En það, sem knúði mig til þess að standa hjer upp, var ein staðhæfing í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Hann lýsti því yfir og lagði á það mikla áherslu, að þetta frv. væri stýfingarfrv. Jeg vil mótmæla því, að hægt sje að kalla þetta stýfingarfrv. Meira að segja liggur það einmitt í orðum 1. gr. frv., sem hæstv. fjrh. (JÞ) taldi sanna sína staðhæfing. Í þeirri grein stendur, að það beri að stöðva gildi ísl. kr. með það markmið fyrir augum, að festa verðgildi peninganna. Og einmitt í orðinu markmið liggur það, að þetta er ekki stýfingarfrv. það er ekki meira en undirbúningur undir stýfingu, undirbúningur undir það, að unt verði að stýfa krónuna. En til þess að geta stýft, þarf ný ákvæði. Reynslan er sú, að til að undirbúa stýfingu, þarf langan tíma. Til þess að stýfa gjaldeyririnn á rjettum grundvelli, þá þurfa menn að hafa fengið fulla vissu um það, hver sje kaupmáttur krónunnar, og sú vissa fæst ekki nema á nokkuð mörgum árum, og sjeu þau ár heldur erfið heldur en hitt. Með öðrum orðum, þessi spurning, hvar stýfa skuli, verður að ganga gegnum eldraun reynslunnar. Það verður að vera reynslan, sem kennir okkur, hvar stýfa skuli. Og þess vegna er það, að stýfingarfrv. getur ekki legið fyrir þinginu að þessu sinni. Og hvað mig snertir, vil jeg ekki taka ákvörðun um hlut, sem hvorki þarf nje á að taka ákvörðun um fyr en eftir mörg ár. Jeg vil, að reynslan kenni okkur, hvað hollast er og rjettast í þessu efni sem öðrum, og þar á meðal þetta, hvort rjett sje að stýfa krónuna. Og það felst ekki annað í frv. en það, að opna leið til þess, að krónan geti orðið stýfð, ef reynslan sýnir, að það sje rjett, Og jeg verð að telja það óverjandi að loka þessari leið, allra helst nú, því hvað ætti til bragðs að taka, ef krónan hrapaði t. d. ofan í 60 aura? Þá hygg jeg, að engum mundi detta í hug að leita þess að koma henni í gullgengi. Engum mundi detta í hug að kemba upp á þá Bröttubrekku, sem tekið gæti ekki aðeins mörg ár, heldur marga tugi ára. það er af þessari ástæðu, sem jeg fyrir mitt leyti tel sjálfsagt að fylgja minni hl. fjhn.

En úr því jeg er staðinn upp, þá vil jeg leyfa mjer að benda á eitt fyrirbrigði í gengismálinu, og það er sambandið milli danskrar og íslenskrar krónu. Vjer vitum, að danskri krónu

var haldið of lengi. Það er enginn vafi á því, að land okkar hefir beðið stórkostlegt tjón af því, hvað lengi við höfðum danska krónu. Við athuguðum það ekki, að við áttum ekki að hafa danska krónu, heldur íslenska. Í fyrra vor var íslensk króna komin á hælana á danskri krónu, og stóð þá pundið í ca. 26 kr. En hvað skeður? Krónan er látin halda áfram að standa í stað án nokkurrar nauðsynjar, sökum þess, að það þótti ekki hæfa, að íslensk króna færi upp fyrir danska krónu. En þegar danska krónan fór að fara upp, þá er hún elt á harðastökki. Jeg er viss um, að ef danska krónan hefði farið hægar upp, þá hefði okkar króna líka farið hægar, og þá værum við ekki komnir í fult eins mikið öngþveiti og nú er raun á orðin, hvað snertir afkomu atvinnuvega vorra.

Nú vil jeg benda á það, að það sje mjög hættulegt að elta útlendan gjaldeyri svo sem gert hefir verið. Jeg vil benda á það, að við eigum ekki að hafa danska krónu og ekki heldur laundanska krónu, heldur íslenska krónu með verðgildi, sem miðað er við íslenskt ástand. Þetta vil jeg taka fram hjer vegna þess, að það hefir ekki áður verið gert nógu greinilega. Jeg vil alvarlega vara við því að líta til annarar handar í þessu þýðingarmesta og merkasta máli þjóðar vorrar.