06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það lætur að líkum, að jeg sje mjög ósammála hv. meiri hl. um ýms atriði þessa mikla máls. Jeg verð að segja það, að það sje alveg ósannað mál, að hjer sje best að hafa litlar umr., vegna þess að skoðanir manna og umr. sjeu hjer fyrirfram bundnar. Þetta er yfirleitt rangt, og þó einkum hvað snertir slíkt mál sem þetta. Umr. hjer hafa tvennskonar tilgang. Fyrst og fremst hvað snertir afgreiðsluna á þessu þingi og ennfremur afdrif málsins í framtíðinni. Og jeg held, að umr. nú muni ekki eiga lítinn þátt í því að skýra málið og á þann hátt fá þýðingu fyrir endanleg úrslit þess, þó síðar verði.

Þetta er eitt af þeim málum, sem þarf mörg þing til að útkljá, og jeg fæ ekki betur sjeð af sögu gengismálsins, alt frá árinu 1922, en að það hefir þegar unnist mikið að því, er snertir skilning þingmanna á gengismálinu, þó að aldrei hafi verið tekin föst stefna í því. Og mjer virðist alt benda til þess, að þó að þetta þing láti undir höfuð leggjast að afgreiða málið með þeim eina hætti, sem þinginu sómir, þá vona jeg samt, að málið fái á sínum tíma, þó síðar verði, heppilegan enda, og því sje jeg ekki eftir því, þótt nokkurar umræður standi uni það, og einkum þar sem nú er viðbúið, að þetta verði síðasta umr. um málið að sinni. Ávextirnir af umræðunum verða að koma eftir á.

Hv. frsm. meiri hl. (JAJ) lagði mjer ýmsar skoðanir í munn, sem jeg hefi aldrei látið í ljós, og spurði mig meðal annars um það, hvort samræmið, sem eigi að verða í gengisskráningunni, ætti, að því er mjer skildist, að grundvallast á íslensku vöruverði eða á útlendu. Þetta er fávíslega spurt, því að auðvitað á gengisskráningin, samkvæmt nál. minni hl. nefndarinnar, að fara eftir hvorutveggja. Gengið á að skrá með tilliti til hlutfallsins milli innlenda verðlagsins og verðlagsins í viðskiftalöndunum. Þetta er svo einfalt og ljóst, og raunar aðallögmálið um skráning allrar pappírsmyntar, að jeg fæ ekki skilið, hvernig hv. frsm. meiri hl. fjhn. (JAJ) fer að koma með slíka spurningu.

Hv. frsm. meiri hl. (JAJ) gat og um það, að ófriðurinn mikli kæmi þessu máli við að því leyti, sem utanaðkomandi ástæður hefðu ráðið verðlækkun peninga í ófriðarlöndunum, en í landi, sem var fyrir utan styrjöldina, sje það eigin ráðstöfun, sem veldur öllu verðlagi, og því sje skömmin að meiri, ef þarf að verðfesta gjaldeyrinn lægra en var fyrir ófriðinn. Nú vil jeg benda hv. frsm. meiri hl. (JAJ) á það, að það eru einmitt utanaðkomandi áhrif, sem valdið hafa verðbólgnuninni í okkar landi. Við stóðum í svo nánu sambandi við önnur lönd, að við lentum inni í hringiðunni og gátum ekki losnað þaðan. Þetta verður altaf okkar afsökun, en hitt kann líka að verða nokkur afsökun fyrir okkur, að við höfðum ekki ráð og þekkingu til að varast afleiðingarnar af heimsstyrjöldinni, því að þetta gjaldeyrismál er nýtt viðfangsefni fyrir okkar þjóð síðan við urðum sjálfstæðir; það er í fyrsta skiftið, sem þetta mál varð aðkallandi hjá okkur, og við nutum ekki þeirrar reynslu, sem aðrar þjóðir höfðu eftir. Napóleons-styrjaldirnar, bæði vegna þess, að við miðuðum ekki viðskifti við peninga í þá daga nema að litlu leyti, eins og aðrar þjóðir, og svo líka af því, að við vorum hluti af öðru ríki. En þær þjóðir, sem áttu aðra eins menn eftir Napóleonsstyrjaldirnar eins og Ricardo og Schweigaard, lentu í kreppu, og tel jeg, að ekki þurfi að ásaka okkur, þótt við höfum lent í viðskiftaöngþveitinu líka að þessu sinni. Okkar skömm er ekki meiri en annara, sem hafa þurft að verðfesta gjaldeyri sinn, og þegar sú breyting er á undan gengin, sem knýr til að taka þessa föstu ákvörðun; þá er það engin lítilmenska og engin undansláttur í því fólgin að taka fasta ákvörðun og hefja fasta stefnu; það þarf karlmensku, dugnað og heilan hug til að leiða festinguna til lykla á heppilegan hátt.

Hv. frsm. meiri hl. (JAJ) sagði, að jeg hefði haldið því fram, að við ættum að hafa lágt gengi eða hátt, alt eftir því sem viðskiftaþjóðirnar höguðu sjer. En mjer hefir aldrei dottið í hug að segja slíkt. Vitanlega getum við ekki miðað okkar gengi við það, sem er hjá öðrum þjóðum, sjerstaklega ef það væri stundum hágengi og stundum lággengi. Jeg sagði, að við ættum að miða gengið við hlutfallið milli verðlagsins hjer og í viðskiftalöndunum. Þetta vil jeg ekki þurfa að margendurtaka. Í slíkum misskilningi á mínum orðum liggur töluverð vanþekking eins og þegar hv. frsm. meiri hl. (JAJ) sagði, að jeg hefði fullyrt, að gengisbreytingar ættu að verða einu sinni á ári; það hefi jeg aldrei fullyrt, jeg hefi aðeins sagt það, að ef það þyrfti að verða gengisbreyting, þá á jeg bágt með að skilja, að okkar seðlabanki geti ekki framkvæmt þær á þeim tíma, sem honum er heppilegast, þannig, að hann sjálfur verði ekki fyrir tapi, og ráðið gengisbreytingar við sig að nokkru leyti fyrirfram og til sem lengsts tíma. Hjá hinu verður aldrei komist, að viðskiftamenn hans verði fyrir tapi af hækkunum, bankinn sjálfur getur nokkuð valið tímann, ef hann gerir sjer ljóst fyrirfram, hvaða stefnu skuli hafa á árinu. Og þar sem svo hagar til eins og hjer, með miklum viðskiftasveiflum, þá virðist mjer, að slíkt sje nauðsyn, að hafa einhverja áætlun um, hvað gera skuli, en láta ekki alt ráðast og breyta kannske genginu, þegar verst gegnir fyrir alla og jafnvel bankann sjálfan. Nei, það hefi jeg aldrei sagt, að það ætti að gera gengisbreytingu einu sinni á ári, því að það er mín skoðun, að gengisbreyting eigi aldrei að verða, þ. e. a. s., að það eigi engin breyting að verða á hinu raunverulega gengi, sanngenginu, þótt það að vísu til þess að byrja með verði að færa hið skráða gengi til móts við sanngengið. Það, að halda föstu genginu, verður altaf áhættuminst. þá er ekki boðið heim neinni spákaupmensku, og þó að lítið sje um hana í okkar landi, þá hljóta þó þeir, sem vilja leggja áherslu á þá hættu, að viðurkenna, að fast gengi hlýtur að draga úr henni, eða öllu heldur gera út af við hana.

Auk þess vildi jeg spyrja hv. frsm. meiri hl. (JAJ), hvort hann sjái ekki nú ástæðu til að taka dagskrá sína aftur, þar sem hann hefir lent í deilum við þann mann, sem hann þyrfti helst að hafa samkomulag við, samkvæmt sínu nál., en það er hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Þeirra samkomulag í deildinni lofar engu góðu, þegar út í kaupdeilur er komið, og þegar hæstv. fjrh. (JÞ) hefir tekið svona í dagskrána, eins og hann hefir gert, og þegar stjórn Landsbankans hefir óskað leiðrjettingar á því, sem haft er eftir henni í nál. Þegar þetta kemur alt saman, fæ jeg ekki betur sjeð en að eina ráðið sje að taka hina „rökstuddu“ dagskrá aftur og annaðhvort fylgja ákveðinni hækkunarstefnu eða ákveðinni festingarstefnu í þessu máli.

Til þess að ljetta undir með hv. meiri hl. og gera honum ljósara, hvert hann stefnir, vildi jeg leggja tvær spurningar fyrir hæstv. fjrh. Fyrri spurningin er sú, hvað hann muni gera, eða að hverju hann muni stefna, ef þessi dagskrá verður samþykt og að því kæmi um líkt leyti og í fyrra, að innieign Landsbankans erlendis yrði 200 þús. sterlingspund. Síðast liðið haust þótti ekki fært að hafa áhættuna af að halda genginu föstu, eftir að innieignin var orðin svo mikil, en í dagskránni er engin ábyrgðarheimild, enda ekki hægt að fela slíkt í dagskrá, og sje jeg heldur ekki, að fyrir liggi nein sú ábyrgð, ef málið er afgreitt með rökstuddri dagskrá. Þessvegna vildi jeg spyrja, að hverju hæstv. ráðh. (JÞ) muni stefna í gengismálinu, ef á næsta hausti verður sama innieign á sama tíma og á síðasta hausti, þegar gengisbreytingin varð. Í öðru lagi vildi jeg spyrja um það, hvaða stefnu hæstv. fjrh. (JÞ) myndi hafa á sínum tíma, ef skuldir beggja bankanna við útlönd fara hærra upp eða lengra niður — hvort heldur sem á að segja — heldur en í 200 til 300 þúsund sterlingspund. Jeg óska að fá að vita, hvaða áhrif hæstv. fjrh. (JÞ) vill leyfa framboðinu að hafa á gengið, og hvaða áhrif hann vill leyfa eftirspurninni að hafa, ef núna fæst engin ábyrgð fram yfir það, sem til var á síðasta ári. þessar fyrirspurnir ber jeg að vísu fram nokkuð mín vegna, en þó ekki síður vegna háttv. meiri hl. í nefndinni, sem hefir láðst að koma með þær.

Þá vil jeg snúa mjer að hæstv. fjrh. það var nokkur ágreiningur okkar á milli um notkun tveggja orða; jeg hafði óskað eftir að „festing“ væri notað um það að festa gjaldeyrinn, og „stýfing“ um það að breyta myntlögunum, til þess að hafa ákveðin, „verðföst“ orð, svo að merking orðanna þurfi ekki að valda misskilningi. Nú þótt hæstv. ráðh. (JÞ) neiti að nota orðin í þessari merkingu, hann um það, ef hann gerir jafnan ljóst, um hvað hann er að tala. Jeg nota orðin í þessari merkingu, og þessvegna nota jeg ekki orðið „stýfing“ um frv. það, sem hjer liggur fyrir. En því verður ekki neitað, að frv. stefnir að því, að hægt verði að stýfa, síðar meir, ef tilganginum verður náð.

Svo var það annað orð, sem jeg hafði notað í nokkuð annari merkingu en ráðh. líkaði, sem fjekk mjög óblíðan dóm hjá honum. það var orðið „dýrtíð“. Hæstv. ráðh. (JÞ) segir, að þetta orð tákni aldrei annað en það, að minna fáist af vöru fyrir sama gjaldeyrismagn. Jeg vil ekki taka undir þennan skilning hæstv. ráðh. (JÞ). Þegar við segjum, að dýrtíð fari vaxandi, þá eigum við venjulega ekki við þetta í daglegu tali, heldur að vöruverð fari hækkandi meðan að kaupið standi í stað. Og þegar sagt er, að dýrtíðin fari minkandi, á allur almenningur við það, að vöruverð fari lækkandi, en kaupið standi í stað. Um þetta hygg jeg, að ekki sje hægt að deila, og því er það rjett, sem jeg sagði áður, að dýrtíð sje: óhagstætt hlutfall milli launa og vöruverðs. Þessa merkingu ætti að „verðfesta“. Í slíkum málum sem þessum þarf þess oft með að skilgreina orðin, og stundum þarf þess við að nota gömul orð í nokkuð nýrri merkingu, og er ekki við því að amast. En orðið „dýrtíð“ nægir að nota í þeirri merkingu, sem tíðkast, en það sjest best á ummælum hæstv. ráðh., að ekki er vanþörf á að gera sjer grein fyrir, hver hún er. Það á ekki að nota það í þeim veiðihug, sem hæstv. fjrh. (JÞ) og flokksmenn hans nota það. Þeir segja: við viljum ljetta dýrtíðinni af almenningi. Og svo skilur allur almenningur það þannig, að vöruverð eigi að lækka, en kaupgjaldið að standa í stað. Nei, það á að nota orðið í rjettri merkingu og ekki að villa menn með slíkum flugum sem þessum. Það, sem um er að ræða, þegar talað er um dýrtíð, er ekki krónufjöldi, heldur kaupmáttur dagsverksins, það, hvað fæst fyrir eins dags kaup. Það er það, sem skiftir máli, en ekki hver krónufjöldinn er, margar smáar, eða fáar stórar krónur. Ef hæstv. ráðh. (JÞ) og hv. meiri hl. fjhn. vill tala svo, að almenningur skilji, þá eiga þeir ekki að segja: við viljum minka dýrtíðina, því að það verður misskilið, heldur eiga þeir að segja: við viljum hækka kaupmátt dagsverksins. En það skilst mjer, að hæstv. ráðh. (JÞ) ætli ekki að gera, en það er aftur stefna hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Nei, þessi notkun orðanna á ekki heima í þingsal, og ekki er heldur rjett að nota þau í kosningabaráttu, þó að slík beita gæfi þar kannske nokkur atkvæði, því að þegar það svo á að skiljast þannig, að það eigi bæði að lækka vöruverðið og kaupið, þó ekki sje haft orð á því, þá er hætt við, að kjósendurnir fari að tala um, að þessir menn, sem eru svo hræddir við svikinn gjaldeyri, sjeu ekki eins hræddir við svikin orð.

Hæstv. ráðh. (JÞ) tók undir með nefndinni um það, að verðlag á erlendum vörum væri nú að miklu leyti komið í samræmi við núverandi gengi, en svo bætir hann við, að afleiðingin sje sú, að við fáum jafnmikið fyrir okkar útflutningsvörur eins og okkur beri eftir framleiðslukostnaði. En þetta er ekki rjett, því að framleiðslukostnaðurinn er háður hinu háa verði á öllum innlendum vörum og vinnu, ekki síður en verðlaginu á erlendu vörunni. En það er öllum vitanlegt og líka margsagt, að hið innlenda verðlag er miklu hærra en sem svarar genginu. Atvinnurekendurnir, sem þurfa að láta sína reikninga vera í jafnvægi, þeir fá ekki það, sem þeir þurfa að fá til að komast hjá tapi, jafnvel þótt verðlag hinnar innfluttu vöru sje komið í samræmi við gengið. Út af þessu sagði svo hæstv. ráðh. (JÞ), að deilan sje í rauninni ekki um annað en það, að við eigum erfitt með að koma okkur saman um, hvernig skuli skifta því andvirði, sem við fáum fyrir okkar útflutningsvörur. En þetta er heldur ekkert smáræði. Jeg veit ekki betur en að það sje stærsti þátturinn í allri innanlandsbaráttu okkar, einmitt þetta, hvernig skuli skifta andvirðinu fyrir okkar framleiðsluvörur. Það er hægt að segja, að deilan sje „ekki um annað“ en þetta eina, en það er nú einmitt það, sem mestu máli skiftir.

Hæstv. ráðh. (JÞ) virtist undrast það stórlega, að við kæmum nú fram með kröfu um verðfesting gjaldeyris, þegar við hefðum ekki aðra ástæðu fram að færa en þá, að kaupið væri heldur hátt, miðað við núverandi gengi, og þótti það heldur rýrar ástæður til að byggja á það, sem hann kallar „gífurlega röskun á öllu“. En er það ekki einmitt svo, að það er kaupgjaldið og verðlagið á innlendu vörunum, sem veldur mestu um framleiðslukostnaðinn, og á þá og að ráða mestu um gengið? Það má segja eins um þetta, að það sje ekki annað en „þetta“, en þetta er enginn hjegómi, heldur aðalatriðið. Að segja þetta „ekki annað“ í sambandi við alla örðugleika, er „ekki annað“ en að loka augunum fyrir þeim. En hjer þarf annars við. Hjer þarf að horfast í augu við örðugleikana, en það er dygð, sem hækkunarmenn iðka ekki, að játa fullkomlega, hvaða örðugleikar sjeu á þeim vegi, sem þeir eru að leggja út á.

Hæstv. ráðh. (JÞ) hefði ekki þurft að verða svona hissa á því, að við leggjum aðaláhersluna á innlenda verðlagið og kaupgjaldið í landinu, því ef hann hefði litið í bók, sem heitir „Lággengi“, á bls. 152, þá hefði hann sjeð, að „sjerhverri gengishækkun verður að fylgja tilsvarandi verðlagslækkun.“ Þetta kemur okkur öllum saman um, og um að erlenda varan lagast tiltölulega auðveldlega eftir genginu, og að verð útfluttu vörunnar verður líka að lagast eftir genginu, þótt menn hafi ekki efni á að selja hana eins lágt og hið hækkaða gengi heimtar. Öll reynsla og skynsamleg athugun sýnir einmitt, að erfiðast er að fá þá lækkun á kaupi og innlendum afurðum, sem þarf til þess að gengishækkunin geti staðist. En nú er einmitt mestur hluti framleiðslukostnaðarins fólginn í kaupi. Segir prófessor Cassel, að kaupgjaldið verði ætíð „þýðingarmesta atriðið, þegar til lengdar lætur („det alldeles överväganda momentet“) til ákvörðunar á gildi gjaldeyris þjóðanna í millilandaviðskiftum“. Það er enginn nýr sannleikur, sem við flytjum, og jeg býst við, að hæstv. ráðh. (JÞ) hafi gert sjer þann sannleik ljósan manna fyrstur á þessum síðustu og verstu tímum. Nei, það eru þessvegna mjög „billeg“ rök, sem mjer finst vera hæstv. ráðh. ósamboðin, að halda því fram, að frá okkar sjónarmiði verði heimtuð stýfing, eins og hæstv. ráðh. (JÞ) orðar það, í hvert skifti sem nokkurt ósamræmi kemur á milli kaupgjalds og verðlags á útfluttum vörum. Þetta eru alt of ljettvæg rök, þar sem það er viðurkent, að kaupið er of hátt, miðað við gengið og við það kaup, sem var 1914. Og ef við samt eigum að hækka gengið óðar en jafnvæginu er náð, úr 80 aurum, upp í 85, 90, 95 og alt upp í 100 gullaura, þá er þetta ekki nein venjuleg kreppa, heldur samanhangandi röð af kreppum, þar sem má líkja hverju fyrir sig við eðlilega kreppu á venjulegum tímum. Þetta myndi kosta mörg ár og taka mjög mikið af arði atvinnuveganna. Á síðasta ári hækkaði gengið eitthvað um 20%; atvinnuvegirnir borguðu 8% af lánum sínum. Til þess að geta borið sig, hefðu þeir átt að hafa 28% í arð, en það er nokkuð mikill ágóði, og ógætilegt að reka gengispólitík á þeim grundvelli, að þeir geti þolað slíka blóðtöku ár eftir ár.

Hæstv. fjrh. (JÞ) lagði áherslu á, að það væri misskilningur hjá minni hlutanum, að við losnuðum við kreppur og verðfall, ef við festum. Og hv. frsm. meiri hl. tók mjög ánægjulega undir þennan vísdóm. En jeg hefi aldrei sagt þetta, hvorki viljandi nje óviljandi, eða heyrt annan segja það. Skilningur hv. frsm. meiri hl. á orðum mínum er bara ekki meiri en þetta. Jeg hefi aldrei sagt annað en það, að við losnuðum við allar kreppur, sem að öðrum kosti myndu stafa af gengishækkuninni. Það, að vilja ekki losna við slíkar kreppur af þeirri ástæðu, að aðrar kreppur geti dunið yfir, er líkt og ef læknir, sem ætti að laga fótbrot á gigtveikum manni segði: „Það er til lítils að gera við fótbrotið; gigtin batnar ekkert fyrir það.“

Jeg býst ekki við, að hv. meir hl. fari út í þær ógöngur, að halda því fram, að kreppa fylgi ekki gengishækkunarpólitík, og til þess að vara hann við að fara lengra út í þá sálma, vil jeg lesa dálítið upp úr „Lággengi“ Jóns Þorlákssonar. Á bls. 54 stendur: „það hafði þannig tekið 32 ár, frá 1813 til 1845, að koma fullri lögun á peningamálin, og þó hafði verðfall seðlanna móts við silfur á því tímabili numið meira en 33%. Allan tímann, sem seðlainndrátturinn stóð yfir, hafði þjóðbankinn mjög haldið að sjer hendinni um útlán. Verðhækkun peninganna á þessu tímabili leiddi af sjer verðfall á eignum og afurðum; innstæðumenn fengu sína eign hækkaða í verði fyrirhafnarlaust, en athafnamenn báru byrðina, arðsvonir þeirra brugðust sí og æ vegna lækkandi verðs. Fullyrt er, að þessi hjöðnun (Deflatio) eða eyðing verðlagsbólgunnar, með þeim sífeldu vonbrigðum fyrir athafnamennina, framsóknarmennina, sem henni fylgdu, hafi gert þá kynslóð svartsýna í öllum efnum, sem hafði lifað æskuár sín á þessu tímabili.“

Hjerna er mjög ljós lýsing á því, hvaða áhrif hækkunin hefir, og þessi lýsing er ekki gerð í hita baráttunnar, heldur er hún gerð á rólegum tímum, þegar hæstv. fjrh. (JÞ) af vísindalegum áhuga liggur yfir þessu viðfangsefni.

Hirði jeg svo ekki um að lesa upp fleiri lýsingar, en þeir, sem vilja kynnast þessu nánar, geta lesið um það á bls. 33–34 í „Lággengi“.

Það er alveg rjett hjá hæstv. ráðherra, að þau lögmál eru til í viðskiftalífinu, sem munu valda verðlækkun, ef haldið er til langframa óeðlilega háu gengi. Viðskiftalífið læknar sig jafnan sjálft — en með þjáningum. Þegar hæstv. ráðherra sagði þetta, greip jeg fram í fyrir honum. Vísaði hann mjer þá að kynnast þessu í einhverri byrjunarbók í hagfræði. Jeg var alls ekki að spyrja hann um lögmálið sjálft. Heldur hefði mjer þótt gaman að fá hann til að útskýra verkanir þess, því að það er aðalatriðið, hvernig slík lögmál verka. Og jeg kann betur við, að hækkunarmenn dragi ekki upp eintóm köld „abstrakt“ lögmál, heldur dragi upp fyrir okkur myndir af veruleikanum, því að það talar til skynsemi og tilfinninganna að auki. Viðskiftalífið læknar sig sjálft, en með slíkum harmkvælum, að engin huggun er að því að vita af lögmálunum, ef þekkingunni er ekki beitt til að afstýra hættunni.

Orðalag hæstv. ráðherra er altaf þetta sama, að hann sje mótfallinn stýfingu gjaldeyrisins „að nauðsynjalausu“. Þarna býr hann sjer ti1 dyr til þess að smjúga út um. Hann er ekki búinn að brenna skip sín eða rífa brýrnar. Þessar dyr eru ekki lokaðar. En það hefir þær afleiðingar, að hann má ekki tala um „svik“ í þessu sambandi eins mikið og hann gerir. (Fjrh. JÞ: Jú). Nei! Því þá leiðir af því, að það megi svíkja, ef nauðsynlegt þykir.

Það er þjóðarhagur að því að festa gengið. Þeir einu, sem geta haft tap af því, eru þeir fáu innstæðueigendur, sem eiga fje frá fornu fari. En það væri mögulegt að bæta þeim mönnum upp, sem fyrir mestu tapinu verða, t. d. þeim, sem eiga peninga frá 1914, þó að það hafi kostað mikið umstang á Frakklandi á sinni tíð, þá efast jeg um, að það sje óframkvæmanlegt á okkar litla landi. Er jeg því ekkert á móti því, að þetta sje rannsakað, og þessum mönnum sje veitt linkind, ef kleift þykir.

Það var mjög harðorð setning hjá hæstv. ráðherra, og honum ekki samboðin, að segja, að festing væri sama og leyfa skuldunautum að svíkja lánardrottinn sinn. (Fjrh. JÞ: Jeg sagði stýfin). Það er sama, því festing er leið til stýfingar. En úr því hann sagði stýfing, þá skal jeg fletta upp í „Lággengi“, þar standa á bls. 148 þessi orð: „þetta eru svik, sem þjóðfjelagið getur ekki leyft sjer, ef aðrar færar leiðir eru, segja hækkunarmenn. Óneitanlega væri verknaðurinn hinn sami sem sviksemi fyrri tíma í peningamálum, en hvort verknaðurinn með rjettu verður nefndur sama ljóta nafninu, ef hann er framkvæmdur opinberlega með lagasetningum, það er annað mál.“

Jeg fæ ekki skilið þessi orð öðruvísi en hæstv. ráðherra finnist þetta ljóta nafn óviðeigandi. Og að þetta mál heimti önnur orðatiltæki en þau, sem freistast er ti1 að nota, þegar afla á kosningarfylgis.

Úr því jeg er með „Lággengi“ í höndunum, þá vil jeg fletta upp á „kúrantseðlunum“ dönsku, sem stóðu einu sinni í „pari“, en voru stýfðir. Á bls. 52 stendur: „það er fljótsjeð, að handhafar gömlu „kúrantseðlanna“ urðu ekki fyrir neinu ranglæti, þó verð seðlanna væri með lögum fært niður í námunda við hið raunverulega verð þeirra á sama tíma.“

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að ráðherrann sjálfur hefir látið gefa út ríkissjóðsseðla, sem ekki eru trygðir með gulli og engin innlausnarskylda fylgdi. Og með þeim seðlum hefir hann látið greiða innstæðueigendum fyrir seðla, sem þeir hafa lagt inn og staðið hefir á, að væru innleysanlegir í gulli. Ef það orð ætti við í þessu sambandi, eru þarna svik. En að ráðherrann leyfir sjer þetta og enginn kvartar, stafar af því, að í þessu sambandi er ekki hægt að tala um svik. Því að seðlar eru ekki venjuleg skuldabrjef, og gjaldeyririnn er fyrst og fremst reikningseining.

Ef við getum orðið sammála um, að gera mun á venjulegum skuldabrjefum og gjaldmiðli, þá þurfum við ekki að nota orðið „svik“ í þessu sambandi. Ef um svik er að ræða í þessu efni, þá er marga búið að svíkja. Þannig eru það þá alt af svik, í hvert skifti sem maður borgar skuld, sem stofnuð er fyrir stríð, með lággengisseðli, og ef stýfingin á að heita svik, þá er Cassel, okkar ágæti lærifaðir, foringinn í þessu svika og þjófafjelagi, sem fyrir verðfestingunni berst.

Hjer á landi er kannske sjerstaklega óviðeigandi að tala um svik í þessum málum, því að þegar Íslandsbanki var settur á stofn, var honum ekki falin sjerstaklega sú skylda, að halda föstum gjaldeyrinum, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) hefir bent á í „Lággengi“. Aðeins óbeint, að því er fólst í innlausnarskyldunni. En þegar hún fjell burtu, var ekkert lagaákvæði eftir, sem skyldaði bankann til að halda gjaldeyrinum föstum. Við höfum hingað til verið eins og óvitar í þessum efnum. Við vissum fyrst ekki af því, þegar gjaldeyririnn okkar fjekk sjálfstætt gildi erlendis, hvernig á því stóð, að hann fjell. Menn kendu þetta jafnvel dönskum selstöðukaupmönnum. Og þegar verðlagshækkunin var hjer sem mest, heyrðist ekkert talað um, að hún gæti verið hættuleg, en svo hlaut þó að fara, að hún leiddi af sjer verðfall peninganna.

Jeg get svo endað ummæli mín á því, sem jeg byrjaði þau, að okkur er ekki eingöngu minni svívirðing í að festa okkar peninga en öðrum þjóðum, heldur er okkur líka meiri vorkunn. Því að við höfðum ekki vit á þessum málum fyr en of seint. Og fullorðinn maður getur ekki borið ábyrgð á því, sem hann gerði, meðan hann var óvitabarn.