06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Halldór Stefánsson:

Þessi dagskrá er svo einkennileg og þannig orðuð, að út lítur fyrir, að enginn skilji hana til hlítar, því bæði þeir, sem ætla að fylgja þessari dagskrá fram og stjórnin sjálf, sem dagskráin er stíluð til, hafa orðið að gefa orðmargar skýringar á henni, en þó svo ónákvæmar og óskýrar, að engu er enn um bættara. Nú vil jeg óska þess, að hæstv. stjórn gefi þegar skýringu, sem hún leggi skjallega fram, áður en gengið er til atkvæða, svo að menn geti áttað sig á þessu áður og ekki verði um það deilt eftir á, hvað menn hafi samþykt.