10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (2326)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Sveinn Ólafsson:

Jeg bjóst ekki við því, að svo fljótlega mundi til atkvæða gengið um þetta mál, sem nú virðast horfur á. Jeg hafði afhent til prentunar brtt. við 1. og 3. gr. frv. En jeg sje fram á það, að þær verða tæplega komnar til útbýtingar, þegar atkvæðagreiðslan fer fram, ef hún dregst ekkert. En þessar brtt. mínar fela í sjer ráðstafanir, er nálgast nokkuð sömu niðurstöðu og dagskrá sú felur í sjer, sem fram er komin, en þó hefði jeg frekar kosið frv. samþykt með þeim breytingum en dagskrána, sem lítið tóm hefir fengist til að athuga. Jeg mun þó ef til vill geta sætt mig við dagskrána, ef ekki er um brtt. að ræða, af því að jeg tel litlar líkur til þess, að frv. verði afgreitt á þessu þingi, og jeg álít dagskrána betri en fall frumvarpsins.