10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg verð að segja, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) var í mjög dularfullu ástandi, þegar hann flutti sína síðustu ræðu. Hann endaði með því að segja, að gengið væri komið undir persónulegri skoðun og hugarfari Landsbankastjórnarinnar og hæstv. fjrh. Ef svo er, að það stjórnist af þessu einungis (ÁÁ: það sagði jeg aldrei, að það stjórnaðist af þessu einungis). Jeg skrifaði orðin og þau standa hjer á blaðinu. (ÁÁ: Útúrsnúningur!). Ef þetta er virkilega svo, að fjrh. og Landsbankastjórnin hafi full ráð á gengi íslenskrar krónu, þá er það leitt, ef háttv. þm. hefir ekki hugrekki til að koma með vantraust á hæstv. fjrh. (JÞ) og fá annan fjrh., líklega helst á gullvíxilfæti, til að taka við af honum.

Jeg sje ekki, að till. hv. minni hl. gangi á neinum gullvíxilfæti. Er hann að minsta kosti vel dulinn, ef svo er. Jeg sje engin ákvæði um neinn gullfót — (ÁÁ: Gullvíxilfót!) — já gullvíxilfót í frv. því, er hjer liggur fyrir, og hefir það þó tekið þeim breytingum, sem háttv. frsm. óskaði. Þessi háttv. þm. leitar að ýmsum orðum, í gengismálinu, eftir „merka fræðimenn“, en hann kann sýnilega ekki að færa sjer þau í nyt. Af því að maðurinn er mælskur, þá er mjög heyrilegt að hlusta á hann, en hver skyldi hafa skilið það, sem hann sagði í seinustu ræðu sinni? Ekki skildi jeg, þegar hann var að tala um, að dagskráin væri bæði lík og ólík brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann sagði það þyrfti hugrekki til þess að líta ekki á, hvort þær till., sem gerðar eru, skaði landið. Jeg kalla það misskilið hugrekki að koma fram með till., sem maður álítur, að geti skaðað föðurlandið.

Það hefir enginn sagt hjer, að þeir útlendu bankamenn, sem leitað var umsagnar til vegna Landsbankafrv., hafi verið að villa okkur sýn. Háttv. þm. má alls ekki leyfa sjer að segja, að við meiri hl. menn höfum sagt þetta. Hitt höfum við vefengt, að þeirra umsagnir sjeu meðmæli með því seðlabankafyrirkomulagi, sem háttv. þm. heldur hjer fram.

Háttv. þm. (ÁÁ) sagði, að álit fræðimanna væri það, að þann gjaldeyri, sem fallinn væri niður fyrir 10% af gullverði, ætti að stýfa. Það má vel vera, að þetta sje skoðun einhverra erlendra fræðimanna, og reyndar hefi jeg sjeð einn halda því fram. En jeg verð að segja, að það er engin reynsla fyrir, að þetta sje rjett. Og jeg veit ekki betur en að gjaldeyrir þeirra landa, sem ekki hafa haldið gullgildi, hafi fallið niður úr 10%, og þær þjóðir, sem hafa svo komið sínum gjaldeyri í gullverð, hafi algerlega farið á móti þessari kenningu. Vil jeg benda á Svía; það er okkur skyldast og næst. Þeim hefir ekki farnast neitt mjög illa fyrir þetta. En jeg endurtek, að það er ekki hjer verið að dæma um það, hvort ekki geti sá tími komið, að við þurfum að stýfa ísl. krónu. En það er ekki tímabært nú að gera það. Við þyrftum að framkvæma ýmiskonar undirbúning áður en við gætum öruggir lagt í það.

Jeg þarf ekki að svara því, sem hv. þm. sagði um ljót orð á þingmálafundum. Hafi hann átt við N.-Ísf., skal jeg láta þess getið, að slík orð og hann nefndi, hafa ekki verið töluð þar. (ÁÁ: Nei, nei).