10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð þó að fara fáum orðum um það, er þrír hv. þm. hafa talað um brtt. mínar á þskj. 562.

Hv. þm. Borgf. (PO) var dálítið afundinn og hjelt því fram, að jeg hefði lofað því eða á annan hátt látið í ljós, að jeg ætlaði að greiða atkv. með dagskrártillögu hans. þetta er hreinn misskilningur. Þegar jeg sagði frá brtt. mínum, að þær væru á leiðinni, bjóst jeg ekki við, að þær kæmu svo snemma, að þær gætu komið til greina við atkvgr., og því sagði jeg það, að jeg mundi geta fallist á dagskrána, þar sem hún stefndi í svipaða átt. Þetta tekur háttv. þm. Borgf. (PO) sem yfirlýst fylgi við dagskrártill. sína, en það er misskilningur.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) þóttist sjá, að dagskráin og brtt. mínar væru eitt og hið sama þetta er ekki rjett. Brtt. í sambandi við frv. fara miklu lengra, því þær gera ráð fyrir undirbúningi til frekari ráðstafana fyrir næsta þing. Þetta er því ekki rjett hjá háttv. þm. (ÓTh), það er ekki rjettmætt að bera dagskrána saman við brtt. Ennfremur fer frv. fram á algerða umskipun á gengisnefndinni; dagskráin kemur þar ekki nærri.

Þá sný jeg mjer að hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og heyrði jeg þó ekki glögt, hvað hann sagði. Jeg held honum hafi fundist brtt. of óákveðnar að því er snerti stöðvun verðlagsins fyrst um sinn. Þetta ætti ekki að koma að sök, og jeg held, að hv. þm. hafi ekki athugað þetta nógu vel.

Síðari brtt. mín skýrir þá fyrri og gefur skýringu á þeirri rannsókn, sem fram á að fara, og þarf jeg ekki að fara út í það nánar.