10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Magnús Jónsson:

Háttv. fylgismenn frv. eru að reyna að breiða mörg orð og mikla vafninga yfir ósigur sinn í þessu máli. Þegar aðalbrýnan var slegin hjer við 2. umr. þessa frv., var jeg forfallaður frá því að taka þar þátt í, vegna lasleika. Þessvegna vil jeg nú nota tækifærið til að gera grein fyrir atkvæði mínu með örfáum orðum.

Þegar jeg sá þessa dagskrártill. háttv. þm. Borgf. (PO), vissi jeg strax, að hún mundi verða samþykt, því hún er alveg að heita má samhljóða þeirri, sem jeg bar fram í meiri hl. fjhn. En jeg verð að lýsa því yfir, að jeg er alveg ósamþykkur yfirlýsingu hv. þm. Borgf. (PO), sem hann ljet fylgja dagskránni, vegna þess, að um leið og hann vísar málinu til stjórnarinnar vill hann slá úr höndum hennar þau vopn, er hún hafði til að gera eitthvað í málinu. Jeg vil vísa málinu til stjórnarinnar í fylsta trausti þess, að það sje þar best komið, og að stjórnin muni halda sjer að efni og orðalagi dagskrárinnar, en hirði minna um yfirlýsingar manna, sem henni hafa fylgt. Jeg vil leggja áherslu á það, að með samþykt þessarar dagskrár er málið algerlega opið fyrir aðgerðum næsta þings. Læt jeg svo nægja þessi orð, sem jeg enda með fyrir mitt leyti þessar umræður.