18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

17. mál, fjáraukalög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eins og tekið er fram í athugasemdum við frv. þetta, þá er heildarupphæð þess talsvert hærri en tilsvarandi fjáraukalaga fyrir árið 1924, sem fram voru borin á síðasta þingi, þar sem hún nemur alls um 197 þús. kr. Af upphæðinni hefir mestur hluti farið til að framkvæma nauðsynlegt viðhald á ýmsum opinberum byggingum, sem varð útundan af eðlilegum ástæðum undangengin fjárkreppuár, en ekki þótti rjett að fresta lengur. Svo eru upphæðir til nokkurra mannvirkja til varnar gegn ágangi sjávar og vatns, sem ekki mátti heldur fresta. Einnig eru ýmsar smærri upphæðir, eins og frv. ber með sjer.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um frv. þetta við l . umr., en leyfi mjer að leggja til, að frv. verði vísað til fjvn.