25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

17. mál, fjáraukalög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Það var rjett hjá hv. frsm. að athuga utanfararstyrkinn sjerstaklega. Það var ekki heimild til að greiða hann. Er jeg nefndinni þakklátur fyrir að hún vítti það ekki. Mjer er óhætt að segja, að það var fullkomlega ógerningur að neita algerlega um slíka styrki, enda eru þeir aldrei nema lítill hluti af þeim kostnaði, sem viðkomandi hefir haft af förinni. Við erum komnir á svo mikil andleg og verkleg viðskifti við önnur lönd, að við getum ekki skorast undan því að senda menn á einstaka fundi, er t. d. Norðurlönd halda í fjelagi. Því hefir stjórnin lagt til að veita ákveðna upphæð til utanfara. Hv. frsm. sagði, að við værum ekki færir um að veita fje til slíkra hluta á við aðrar þjóðir. En hjer er það ekkert svipað, þótt miðað sje við fólksfjölda og ríkidæmi. Aðrar þjóðir verja mjög miklu fje til sendiferða, en við erum því sem næst lausir við það. Jeg vænti þess, að hv. fjvn. leyfi stjórninni að hafa einhverja fjárhæð til afnota í þessu skyni.

Að því er snertir mænuveikina, þá þótti það eini vegurinn að gera tilraun til að bjarga sjúklingunum, að byrja lækningar þegar í stað. Stjórninni var sagt af læknum, að það riði á að taka sjúklingana tafarlaust til meðferðar, og sá hún sjer því ekki annað fært en leyfa landlækni að nota fjárhæð í þessu skyni. Jeg hygg, að þessi tilraun hafi hepnast allvel og árangurinn orðið eins góður og við var búist. Til þessa var að vísu ekki heimild, en sjálfsagður hlutur að gera það. Eftirlit með þessu var hjá landlækni og gert í samráði við skrifstofustjórann í dómsmálaráðuneytinu, og hefir verið reynt að halda spart á.

Jeg mun síðar, ef óskað er, gefa háttv. fjvn. og hv. deild skýrslu um lóðagjöldin á Siglufirði.